27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

240. mál, nýjungar í vinnslu landbúnaðarafurða

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 257 hefur hv. 5. þm. Vesturl. spurt um hvernig stjórnvöld hafi stuðlað að nýjungum í vinnslu og sölustarfsemi landbúnaðarafurða og hagræðingu til að draga úr vinnslu- og dreifingarkostnaði. Landbrn. hefur viljað gera það sem í þess valdi stendur til að koma á nýjungum og hagræðingu í vinnslu og sölu búvara, enda þótt það hljóti fyrst og fremst að hvíla á fyrirtækjum þeim sem þetta annast að stunda þá starfsemi þar sem þau búa yfir mestri þekkingu og reynslu á þessu sviði. Starf ráðuneytisins hlýtur því að beinast mjög að því að stuðla að samstarfi allra þeirra aðila sem að þessu vinna og styðja við bakið á þeim. Þar hefur ráðuneytið lagt sig fram eins og hægt hefur verið.

Ástæður fyrir því að ráðuneytið sinnir þessari starfsemi eru að sjálfsögðu margar eins og m.a. kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, en þar má benda á að áhrif verðlags búvara ná til margra þátta þjóðfélagsins og í öðru lagi hefur ábyrgð og þátttaka stjórnvalda í þessum efnum óneitanlega aukist verulega með tilkomu búvörusamninganna þar sem ríkið leggur á sig beina söluábyrgð.

Í þessu skyni hafa stjórnvöld fyrst og fremst beitt þremur aðferðum:

a. Með beitingu á reglugerðum sem eru hvetjandi til þess að upp verði tekin aukin hagræðing á þessu sviði.

b. Með skipan nefnda ellegar samstarfshópa hagsmunaaðila þar sem unnið er að sameiginlegum markmiðum og reynt að finna lausnir á þeim vanda sem við blasir. Jafnframt er reynt að auka fræðslu- og rannsóknarstarfsemina með eflingu skóla, rannsóknastofnana og sérstaks námskeiðahalds.

c. Með beinum lánum eða styrkjum sem veitt eru til einstakra verkefna sem tryggt er að komi allri atvinnugreininni að notum eða eru í samræmi við einstök markmið sem sett eru á hverjum tíma, eins og t.d. byggðamarkmið.

Hvað kindakjötið varðar hefur ríkissjóður í samræmi við ákvæði í samningum milli Stéttarsambands bænda og ríkisins um afurðamagn lagt fram á síðasta ári um 10 millj. kr. til að efla sölustarfsemi kindakjöts með auglýsingum og kynningarátaki innanlands umfram það sem söluaðilar sjálfir vörðu til þessara hluta. Þar má nefna auglýsingar í kjölfar aukinna niðurgreiðslna, átak markaðsnefndar vegna auglýsinga á fjallalambinu sem öllum mun vera í fersku minni og kynningu á hagkvæmni þess fyrir neytendur að kaupa kjöt í heilum og hálfum skrokkum. Þar var m.a. gerður veglegur bæklingur ásamt kynningu á árangri nýja kjötmatsins.

Markaðsnefnd landbúnaðarins, sem í sitja m.a. fulltrúar landbrn. og viðskrn., var efld stórlega og réði hún sér starfsmann sem hefur unnið mikið að sölustarfsemi á kindakjöti. Gert var t.d. sérstakt átak þegar leiðtogafundurinn var hér og menn voru sammála um að það hefði tekist vel.

Jafnframt þessu hafa stjórnvöld fylgst nánar en áður með sölumálum og gripið inn í þegar ástæða hefur þótt til og möguleikar verið fyrir hendi til að auka sölustarfsemina. Það bar tvímælalaust árangur á s.l. ári og má benda á að sala á kindakjöti í júlí- og ágústmánuði s.l. var um 900 tonn í hvorum mánuði eftir svona söluátak og var það miklu meira en í mánuðinum þar á undan.

Hvað erlenda markaði varðar má nefna að sölutilraun Félags sauðfjárbænda til Bandaríkjanna var styrkt sérstaklega og nam sú upphæð 1,5 millj. kr.

Markaðsnefnd hefur einnig unnið að málum þar og kannað það erlendis, en það er því miður óhætt að segja að þar mun þyngra fyrir fæti með sölu á kjöti en nokkru sinni fyrr.

Efling hagræðingar í vinnslunni er mikið verkefni og því var skipuð nefnd fyrir allnokkru til að gera úttekt á sláturhúsum og starfsemi þeirra. Hún er búin að vinna mikið starf og mun vera að móta sínar tillögur nú á lokastigi.

Matvæladeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefur að undanförnu lagt mikla vinnu í rannsóknir á kindakjöti. Má þar nefna rannsóknir á nýjum geymsluaðferðum. Um beinan árangur af aðgerðum stjórnvalda er ekki gott að segja, en í landbrn. hefur verið gerð áætlun um að beinn árangur af sölustarfsemi á síðasta ári, sem það stóð fyrir, hafi numið milli 500 og 1000 tonnum.

Um mjólkina má segja að gildi það sama og sagt hefur verið um kindakjötið. Niðurgreiðslur á smjöri hafa verið auknar verulega og ríkissjóður og Framleiðnisjóður landbúnaðarins hafa lagt rúmlega 3 millj. kr. til kynningar á mjólkurvörum. Osta- og smjörsölunni hefur verið veittur sérstakur styrkur til að halda vörukynningar í verslunum og jafnframt hefur verið ákveðið að að auðvelda að selja smjör til bakara á lægra verði til þess að það verði notað í stað annarrar vöru. Mjólkurdagsnefnd hefur verið styrkt með fjármagni úr Framleiðnisjóði og margt fleira mætti nefna.

Þá er að geta þess að á s.l. hausti fól ég nefndinni sem gerði úttekt á sláturhúsunum að fjalla einnig um mjólkurbúin og hefur hún þegar hafið það starf. Væntanlega gengur það nokkuð greiðlega fyrir sig vegna þess að það tengist á ýmsan hátt sláturhúsaathuguninni og ætti því að greiða fyrir að þessu verki verði lokið.

Um árangur af mjólkursöluherferðinni er kannske erfitt að fullyrða líka, en þó er hann augljós. Það má benda á að á síðasta ári var sala á mjólk og mjólkurvörum 3,5% meiri en á árinu á undan. Mikill hluti af þeirri aukningu varð síðari hluta ársins þegar árangur af þessari vinnu hafði skilað sér betur.