27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2544 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

263. mál, aðstoð við foreldra veikra barna

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Aðstöðumunur birtist okkur í ýmsum myndum í þjóðfélaginu sem við viljum þó gjarnan kenna við velferð. Ein þessara mynda hefur nýverið skýrst fyrir þeirri sem hér talar vegna þess að góð vinkona mín varð fyrir því áfalli að barnið hennar varð veikt og hefur þurft að dveljast langdvölum á sjúkrahúsi, á Landspítalanum. Sú er reyndar búsett hér í grenndinni og hefur ekki þurft að brjóta upp heimili sitt eða ferðast um langan veg til að geta verið hjá barninu sínu í veikindum þess, en hún hefur hins vegar orðið fyrir gífurlegu vinnutapi og tekjumissi og kostnaði vegna ferða þótt ekki sé lengra að fara. Heimilishald hefur vitanlega farið úr skorðum og allt er þetta til viðbótar við það tilfinningarót og sálræna álag sem fylgir alvarlegum veikindum, ekki síst þegar börn eiga í hlut.

Í gegnum alla þessa reynslu, sem nú hefur staðið í þrjá mánuði, hefur hún svo kynnst hópi barna og foreldra í svipuðum aðstæðum sem þó geta orðið miklu erfiðari og óviðráðanlegri en hér hefur verið lýst. Nokkrar mæður veikra barna, sem eru til meðferðar á Landspítalanum, hafa kynnst vel á undanförnum vikum og mánuðum og kalla sig í gamni grátkonurnar, en öllu gamni fylgir alvara og vildi ég nú heldur sæma þær heitinu hversdagshetjur. Þær hafa tekið saman nokkrar staðreyndir sem tala sínu máli. Við skulum heyra dæmi:

Fyrsta dæmið er um fimm manna fjölskyldu frá Vesturlandi. Elsta barnið, tíu ára, hefur dvalist meira og minna á sjúkrahúsi s.l. þrjú ár. Læknar mæla eindregið með því að barnið fari ekki út fyrir Reykjavíkursvæðið að vetrarlagi. Móðirin fær eftir langa leit íbúð til leigu á 20 þús. kr. á mánuði og tekur til sín yngri börnin. Faðirinn er bundinn búi heima.

Annað dæmi: Fimm manna fjölskylda frá Vestfjörðum. Yngsta barnið, eins árs, hefur dvalið á sjúkrahúsi meira og minna frá fæðingu. Fjölskyldan tekur sig upp frá heimabyggð og flyst á mölina í litla íbúð. Faðirinn fer á sjó til að geta séð fyrir sér og sínum.

Þriggja manna fjölskylda frá Norðurlandi vestra. Barnið, fimm ára, hefur dvalið á sjúkrahúsi meira og minna í sjö mánuði. Fjölskyldan flytur úr heimabyggð, leigir íbúð á 27 þús. kr., ég vek athygli á leiguupphæðinni, 27 þús. kr. á mánuði, meðan hús þeirra stendur autt heima. Þau geta ekki leigt það.

Fimm manna fjölskylda frá Norðurlandi eystra. Yngsta barnið, sjö ára, hefur dvalist á sjúkrahúsi í hálft ár. Móðirin fékk íbúð leigða í þrjá mánuði á 10 þús. kr. á mánuði og telst mjög heppin.

Fimmta dæmið er fjögurra manna fjölskylda frá Suðurlandi. Yngra barnið er eins árs. Það hefur dvalið á sjúkrahúsi meira og minna frá fæðingu og móðirin á þeytingi milli landshluta, býr hjá vinum og vandamönnum. Fjölskyldan hugleiðir að bregða búi og flytja nær borginni til að geta verið samvistum við barnið.

Hér er dæmi um fimm manna fjölskyldu frá Suðurlandi. Yngsta barnið, eins árs, hefur dvalið á sjúkrahúsi meira og minna frá fæðingu. Fjölskyldan brá búi og býr í lítilli íbúð á höfuðborgarsvæðinu.

Og síðasta dæmið er um sex manna fjölskyldu frá Suðurnesjum sem er þó ekki lengra frá höfuðborgarsvæðinu en það. Yngsta barnið er þriggja ára og hefur dvalist á sjúkrahúsi s.l. þrjá mánuði og verður þar væntanlega næstu árin. Fjölskyldunni er eindregið ráðlagt af læknum að flytja nær borginni. Hún leigir íbúð á 20 þús. kr. á mánuði á meðan nýtt hús þeirra stendur autt í heimabyggð og er hvorki hægt að leigja það né selja.

Þessi upptalning er eins og gefur að skilja fjarri því að vera tæmandi. Allar þessar fjölskyldur hafa orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu þar sem mæðurnar hafa í flestum tilfellum unnið launuð störf. En eins og nærri má geta er hér um mikinn vanda að ræða og því spyr ég á þskj. 381 um aðstoð við foreldra veikra barna. Þar sem ég er komin yfir tímamörk ætla ég ekki að lesa upp þær spurningar, en vænti svars frá heilbrmrh.