27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

287. mál, sálfræðiþjónusta á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef borið fram á þskj . 514 fsp. til heilbrmrh. um könnun á lækningamætti jarðsjávarins við Svartsengi, svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hverjar eru niðurstöður rannsóknar þeirrar á lækningarmætti jarðsjávarins við Svartsengi sem fram hafa farið síðustu misseri af hálfu landlæknisembættisins?"

Ástæðan til þess að þessi fsp. er fram borin er sú að fjölmargir Íslendingar og raunar útlendingar einnig bíða með eftirvæntingu eftir því að heilbrigðisyfirvöld landsins ljúki þeim rannsóknum sem undanfarið hafa staðið yfir á lækningarmætti jarðsjávarins við Svartsengi. Nú þegar hafa fjölmargir þeir sem af húðsjúkdómum þjást, ekki síst af sjúkdómnum psoriasis, leitað sér bata við böð í Bláa lóninu svonefnda sumir með allgóðum árangri en aðrir með prýðilegum árangri.

Það liggur hins vegar í augum uppi hve mikilvægt er að fá það á hreint og kannað í sérfræðilegri rannsókn hver er raunverulega lækningarmáttur vatnsins í Bláa lóninu og á hvern hátt er skynsamlegast að nota það til lækninga. Við hvaða sjúkdómum er það áhrifaríkt? Þannig er eðlilegt að spurt sé. Áhuga á að fá svör við slíkum spurningum er ekki aðeins að finna innan samtaka þeirra mörgu sem af húðsjúkdómum þjást heldur einnig m.a. hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hugmyndir liggja þegar fyrir um byggingu heilsuhælis og baðlækningastöðvar við Bláa lónið í Svartsengi eða í nágrenni þess og er ekki að efa að það gæti orðið hin nytsamlegasta stofnun. En það er ljóst að sérfræðilegt álit heilbrigðisyfirvalda mun miklu skipta um framgang þess máls og er raunar forsenda fyrir því að hafist verði handa um slíkar framkvæmdir.

Því er að vonum beðið með eftirvæntingu víða á Suðurnesjum og raunar miklu víðar en þar, ég held ég megi segja um land allt, eftir fregnum af því máli sem hér er spurt um, þeirri rannsókn heilbrigðisyfirvalda sem í gangi mun hafa verið að undanförnu.