27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

287. mál, sálfræðiþjónusta á Austurlandi

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Landlæknisembættið hefur frá því sumarið 1985 staðið fyrir rannsókn á lækningarmætti jarðsjávarvatns við Svartsengi og hér er rætt um lækningarmátt við sjúkdómnum psoriasis. Rannsóknin er gerð að frumkvæði Alþingis og með fjárhagslegum stuðningi heilbr.- og trmrn. og Tryggingastofnunar ríkisins. Sumar og haust 1985 tók 21 psoriasis-sjúklingur þátt í rannsókninni. Sjúkdómurinn var á misháu stigi og aldursdreifing hópsins veruleg. Settar voru fram þrjár tilgátur um áhrif böðunar í Bláa lóninu. Sönnuð þótti tilgáta um að þátttakendum þætti sér líða betur eftir böðun en fyrir hana.

Hlutlægt mat á psoriasis-einkennum leiddi í ljós afhreistrun, þ.e. hornhúðin á útbrotum þynnist. Samræmi var milli þess og að þátttakendum þótti kláði minnka og draga úr útbrotum. Roði og útbreiðsla minnkaði ekki. Minnkun steranotkunar var ekki marktæk.

Landlæknisembættið lítur á þessa rannsókn sem forrannsókn og því nauðsynlegt að framkvæma ítarlegri rannsókn. Forsendur þess eru einkum að forrannsókn hefur ekki fært sönnur á árangur böðunar, en gefið vísbendingu um jákvæðan árangur. Því hefur landlæknisembættið nú í samvinnu við húðlækningadeild Landspítalans hafið samanburðarrannsókn.

Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna lækningarmátt jarðsjávarvatns við Svartsengi með því að bera saman árangur af daglegri böðun í Bláa lóninu í þrjár vikur og við hefðbundna meðferð á psoriasis, þ.e. ljósameðferð á göngudeild húðlækningadeildar Landspítalans.

Sjúklingar eru fyrst skoðaðir af læknum húðsjúkdómadeildar og ef vissum skilyrðum er fullnægt eru þeir teknir með í könnunina. Þátttakendum er skipt í tvo hópa sem fá sitt hvora meðferðina. Hending ræður í hvorum hópnum einstaklingur lendir.

Annar hópurinn baðar sig í Bláa lóninu þrisvar sinnum á dag, eina klukkustund í senn í þrjár vikur. Hinn hópurinn fær meðferð á göngudeild húðlækningadeildar Landspítalans með UVB-ljósum fimm sinnum í viku. Lengd meðferðar á göngudeild er óákveðin þar sem meðferð er einungis gefin einu sinni á dag fimm daga vikunnar. Báðir sjúklingahóparnir eru skoðaðir fyrir meðferð og síðan á viku fresti þangað til meðferð lýkur. Ljósmynd er tekin á húðsjúkdómadeild á Vífilsstöðum áður en meðferð hefst og við lok meðferðar. Psoriasis telst gróinn þegar ekki finnst húðþykknun eða roði í blettum. Samkvæmt rannsóknaráætlun er talið nauðsynlegt að a.m.k. 16 sjúklingar taki þátt í rannsókninni. Nú þegar hafa níu sjúklingar lokið þátttöku. Gert er ráð fyrir að rannsókn ljúki á þessu ári.