27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

287. mál, sálfræðiþjónusta á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að flytja hæstv. heilbrmrh. þakkir fyrir þau svör sem hún flutti við þessari fsp. um könnun á lækningarmætti jarðsjávarins við Svartsengi. Mér þykja það góðar fregnir, sem fram komu í máli ráðherrans, að þær forrannsóknir sem þegar hafa farið fram af hálfu landlæknisembættisins á þessu svæði hafi gefið vísbendingar um jákvæðan árangur eins og ég hygg að ráðherra hafi nákvæmlega tekið til orða. Það eru í sjálfu sér mjög ánægjuleg og raunar mikil tíðindi. Það er því eðlilegt að landlæknisembættið hafi viljað halda áfram þessari rannsókn þó forrannsókn sé lokið og það voru góð tíðindi að gert er ráð fyrir að þeirri rannsókn ljúki á þessu ári. Ekki síst í ljósi þess hve jákvæðar þær vísbendingar eru sem þegar hafa fengist.

Ég vil fá að bæta því við að hér er vitanlega um mjög mikilsvert heilbrigðismál að ræða vegna þess að um er að ræða spurninguna um lækningarmátt jarðsjávarins, ekki aðeins að því er snertir þennan sérstaka sjúkdóm þó að athygli hafi fyrst og fremst beinst að honum. Meðferð hefur verið ýmiss konar, m.a. hafa sjúklingar leitað bata erlendis með framlögum frá heilbrmrn. sem maður skyldi halda að þyrfti ekki ef þetta liggur ljóst fyrir eða í miklum mun minna mæli. Hér er einnig spurningin um aðra húðsjúkdóma, gigtarsjúkdóma og ýmsa aðra sjúkdóma, þar sem nýta mætti í framtíðinni þá miklu heilsulind sem margir telja að fyrir hendi sé í Bláa lóninu.

En eins og ég sagði í mínum inngangsorðum er erfitt fyrir leikmenn að slá nokkru föstu í þessum efnum og því var upphaflega beðið um þá sérfræðilegu rannsókn sem nú er meira en hálfnuð.

Ég vil aftur fagna þeim upplýsingum, sem fram komu hjá ráðherra, að lokaniðurstöður muni væntanlega liggja fyrir undir lok þessa árs. Í ljósi þess er hægt að kanna það mál, sem ég vék einnig að, hvort ekki er rétt að koma þarna einnig upp baðlækningaaðstöðu og heilsuhælisaðstöðu á þessum slóðum fyrir þá sem þangað vilja leita.