27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2552 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

268. mál, skýrsla OECD um íslenska menntastefnu

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Á þskj. 390 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til menntmrh. um skýrslu OECD um íslenska menntastefnu. Spurning þessi er í þremur liðum:

„1. Hver eru áform ráðherra um úrlausn þess vanda í íslenskum menntamálum sem lýst er í skýrslu menntamálanefndar OECD um könnun á íslenskri menntastefnu?"

Þetta er í raun og veru kannske það atriði sem helst þarf svara við.

„2. Hvað hefur ráðuneytið gert í þessum efnum síðan skýrslan barst?" Henni er að nokkru svarað með svari við 3. lið, þ.e. þar er spurt:

„3. Verður Alþingi gerð grein fyrir efni skýrslunnar.“ Nú hefur ráðherra lagt þessa skýrslu fram, að vísu á framandi tungu. Það verður nú að taka undir að nokkru leyti álit þeirra manna sem þessa skýrslu vinna að það kann að vera hægt að draga í efa gagnsemi þess að leggja skýrslur fram jafnvel hér á hinu háa Alþingi á framandi tungum, þ.e. það er ekki alveg tryggt að allir skilji þær.

En þó kemur fram í skýrslunni eða í viðauka við skýrsluna hvað ráðuneytið hefur gert eða telur sig hafa gert í þeim efnum sem hér eru gagnrýnd síðan skýrslan barst.

Skýrsla þessi er þó nokkuð yfirgripsmikil og tekið á mjög mörgum atriðum og allflest gagnrýnd. Þau eru gagnrýnd svo harðlega sums staðar að einhverjir hafa nefnt þessa skýrslu „svarta skýrslu“ um íslensk menntamál. Það verður samt sem áður að viðurkenna af sanngirni að auðvitað var það ekki hlutverk þessara aðila að koma hingað bara til að hæla íslensku menntakerfi. Þeirra hlutverk var fyrst og fremst að koma hingað og greina helstu galla á menntakerfinu sem þeir fundu burtséð frá þeim hugsanlegu kostum sem við það kunna að vera.

En í helstu atriðum gagnrýna þeir aðilar sem að þessari skýrslu standa grunnskóla m.a. vegna þess að þar sé t.d. um of mikinn aðskilnað að ræða milli barnaheimila og forskóla. Þeir álíta að tilraunaskólar á grunnskólastigi séu mjög einangraðir. Þeir álíta að sérskólar séu utan gátta í menntakerfinu. Þeir álíta t.d. að þær breytingar sem voru gerðar á kennsluháttum, eins og t.d. í samfélagsfræði, virðist ekki hafa náð nægilegri fótfestu og þeir spyrja hvað sé að gert til að bæta málakennslu. Einnig benda þeir á að jöfnuður milli landshluta í menntunarmálum Íslendinga sé mjög langt frá settu marki.

Hvað framhaldsskólum viðvíkur gagnrýna þeir ekki aðallega að það vanti raunverulega framhaldsskólapólitík á Íslandi heldur telja þeir kennsluna gamaldags, sem þeir jafnvel kenna mjög mikilli eftirvinnu, en þeir taka saman í tveimur atriðum í upphafi athugasemda sinna að tvennt hafi skorið í augu. Það er að atvinnulíf Íslendinga, langur vinnudagur, dragi hreint og beint úr þátttöku og samvinnu fullorðinna í menntun barna og unglinga og að þetta verði kannske enn verra fyrir þá sök að skipulag menntunar á Íslandi dregur dám af milljónaþjóðum í stað þess að laga sig að íslenskum aðstæðum.