27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2557 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

290. mál, áfengissölubúðir

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. ráðh. sem taka af öll tvímæli. Ég teldi reyndar að ef svo hefði ekki verið hefði Alþingi þurft að taka hér af tvímæli með því að breyta áfengislögum á þann hátt ótvírætt að hér væri ekki um neina möguleika af þessu tagi að ræða.

Hvað snertir bréf forstjóra ÁTVR finnst mér það sanna að hann hefur farið á flot með þessar hugmyndir, kannske ekki beint gefið yfirlýsingar um það, það er e.t.v. fullmikið sagt, en hann hefur farið á flot í fjölmiðlum einmitt með þær hugmyndir að leysa þessi mál. Fer kannske vel á því að forstjórinn er að nefna veiðarfæraverslun sérstaklega, til að veiða menn til að fara þarna inn og kaupa áfengi, og getur vel verið að frá sjónarhóli sölumannsins sé það býsna snjöll hugmynd að tengja þetta saman.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta frekar nú, en fagna því að hæstv. ráðh. leggur þann skilning í áfengislögin að hér sé um óframkvæmanlegan hlut að ræða miðað við núverandi aðstæður. Það er vitanlega það sem gildir í þessu efni.