27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2558 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

289. mál, landgræðslu- og landverndaráætlun 1987-1991

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 517 er till. til þál. um landgræðslu- og landverndaráætlun 1987-1991. Hinn 28. júlí 1974 samþykkti Alþingi ályktun um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun til minningar um 1100 ára búsetu í landinu. Á grundvelli þeirrar ályktunar skipaði þáv. landbrh. Halldór E. Sigurðsson nefnd manna til að gera landgræðslu- og gróðurverndaráætlun. Nefndin samdi áætlun fyrir árin 1975-1979 sem samþykkt var af Alþingi og fjárveitingar veittar til hennar.

Í lok þess tímabils fól þáv. landbrh. Steingrímur Hermannsson þeim mönnum sem skipuðu nefndina að gera tillögur um hvernig best verði staðið að áframhaldi landgræðslu- og gróðurverndarstarfs þannig að afturkippur komi ekki í slík störf þegar fjárveitingar skv. ályktun Alþingis 1974 nýtur ekki lengur við. Nefndin samdi álit sem var kynnt þingflokkum.

Pálmi Jónsson þáv. landbrh. skipaði árið 1980 nýja nefnd til að fjalla um gerð nýrrar landgræðsluáætlunar og áttu m.a. þingflokkarnir fulltrúa í þeirri nefnd. Á grundvelli starfs þeirrar nefndar var lögð fram þáltill. á Alþingi 1982 um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun fyrir árin 1982-1986. Höfuðmarkmiðin í till. voru að stöðva sandfok og aðra jarðvegseyðingu, vinna gegn gróðurskemmdum og gróðurrýrnun, koma beit og annarri gróðurnýtingu hvarvetna í það horf að gróðri fari fram, tryggja að skóglendi rýrni ekki og bæta þau sem skaðast hafa, rækta nýja skóga til fegrunar, nytja, skjóls, útivistar og jarðvegs- og gróðurverndar, stuðla að endurgræðslu örfoka og ógróinna landa sem unnt er að breyta í gróðurlendi, efla rannsóknir til að treysta sem best grundvöll og öryggi þeirra framkvæmda sem unnið verður að samkvæmt framanskráðu.

Alþingi samþykkti 20. apríl 1982 þál. um landgræðslu- og landverndaráætlun fyrir árin 1982-1986. Samtals skyldi greiða á fimm árum 71 225 000 kr. og verðbætur reiknast á framlög áranna 1983-1986 miðað við framlag ársins 1982.

Á síðasta ári þessarar áætlunar fól landbrh. sömu aðilum og unnu að áætluninni 1982-1986 að vinna að gerð nýrrar landgræðsluáætlunar sem byggði á því að landgræðslu- og landverndarverkefni yrðu hið minnsta jafnumfangsmikil og þau voru samkvæmt síðustu áætlun. Nefndarmenn hafa allt frá árinu 1982 fylgst með framkvæmd landgræðsluáætlunar, átt fundi með forstöðumönnum þeirra stofnana sem hafa farið með framkvæmd áætlunarinnar og farið í kynnisferðir.

Við undirbúning þeirrar þáltill. sem nú liggur fyrir var leitað eftir samstarfi við sveitarstjórnir á suðvesturhluta landsins um upplýsingar varðandi þau vandamál og viðfangsefni sem menn vildu leggja mesta áherslu á. Þá var áhersla lögð á að greina sem best á milli hefðbundinna verkefna viðkomandi stofnana og þeirra sem unnið er að samkvæmt landgræðsluáætlun. Þannig er það nýmæli að staðsetja viðfangsefnin og lýsa þeim með greinargerð frá stofnun eins og gert er í viðfangsefnalista Landgræðslu ríkisins. Væntanlega er áhugavert fyrir alþm. að sjá hvar áformað er að vinna að landgræðslu og þar með auðveldara að fylgjast með framkvæmdum og árangri.

Vert er að geta þess að hlutur samkvæmt lið 4, samvinnuverkefni, er nokkru hærri en á fyrri áætlun. Væntanlega verður mestu af fé samkvæmt þessum lið varið til samvinnuverkefna þeirra stofnana sem aðild áttu að síðustu áætlun Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Hins vegar er gert ráð fyrir að stuðla í auknum mæli að fræðslustarfsemi og leiðbeiningum um gróðurvernd og landgræðslu, t.d. með fræðslu í fjölmiðlum og auknu kennsluefni í skólum, einkum bændaskólum, en kennsluefni á þessu sviði er af skornum skammti.

Við undirbúning þessarar þáltill. fól nefndin forstöðumönnum Landgræðslu ríkisins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Skógræktar ríkisins að semja yfirlit hver fyrir sína stofnun um framkvæmd áætlunarinnar 1982-1986. Yfirlitið fylgir þáltill. og má finna þar margvíslegar áhugaverðar upplýsingar.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér hversu mikilvæg landgræðsla og gróðurvernd eru. Það er ánægjulegt að sjá þann árangur sem víða er að finna af því starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum og áratugum og á það við bæði um skógrækt og almenna landgræðslu. Á sviði skógræktar hafa menn orðið reynslu af því að hún er möguleg hér og þeir möguleikar allgóðir. Á sama tíma sem það er áhyggjuefni sumra Evrópuþjóða og reyndar víðar að skógarnir þar séu að deyja af völdum mengunar erum við sem betur fer lausir við þann vágest og getum því litið bjartsýn á framhaldið að því leyti. En verkefnin sem þarf að vinna eru geysilega mörg og því nauðsynlegt að reyna að samræma vinnubrögðin og skipuleggja sem best eins og reynt er að gera í þessari þáltill. miðað við það fjármagn sem þar er til ráðstöfunar þó að vissulega megi segja og leggja áherslu á að æskilegt væri að þjóðfélagið sæi sér fært að leggja þar hærri upphæðir til árlega. En engu að síður er hér gert ráð fyrir að ná mjög mikilvægum áföngum í þessari baráttu og verkefni sem er svo mikilvægt fyrir framtíð búsetu í landinu.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þáltill. vísað til síðari umræðu og hv. fjvn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.