27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Margt er skrýtið í kýrhausnum. Hér hefur eitt undarlegt tríó hv. þm. Sjálfstfl. tekið sig saman og flutt einhvers konar till. um atvinnu- og byggðamál sveitanna í tengslum við búháttabreytingar undir forustu hv. 11. landsk. þm. Ásamt honum flytja till. hv. þm. Árni Johnsen úr Vestmannaeyjum og Halldór Blöndal.

Það vakti athygli mína fyrst þegar ég leit þetta þskj. að þar átti ekki sæti í hópi flm. hæstv. fyrrv. landbrh., núv. hv. 1. þm. Norðurl. v., og sætti það nokkurri furðu að Sjálfstfl. skyldi ekki nýta sér starfskrafta þess hæfa og mæta þm. þegar farið var að flytja tillög úr um landbúnaðarstefnu úr þeim ágæta flokki á annað borð. Ég vil segja það, herra forseti, að þetta er einhver kátbroslegasti málflutningur sem ég hef lengi orðið vitni að hér á hv. Alþingi þegar þrír þm. úr stjórnarliðinu, úr stærri stjórnarflokknum undir forustu hv. formanns landbn. Ed. taka sig til og flytja allt í einu einhverja sýndarmennskutillögu um úrbætur í landbúnaðarmálum eða atvinnumálum sveitanna. Þetta er í sjálfu sér ekki svo kátbroslegt vegna þess hvernig till. er, þó að ýmislegt megi nú um hana segja. Hitt er öllu broslegra að hv. 11. landsk. þm., sem er 1. flm. till., er einn dyggasti og ötulasti stuðningsmaður landbúnaðarstefnu hæstv. núv. landbrh. og má varla orðinu halla svo hv. þm. sé ekki hlaupinn hér upp í ræðustólinn til að verja landbúnaðarstefnuna og fullyrða að þetta sé allt í himnalagi og allt sé nú gott sem gerði hann, hæstv. landbrh.

Því er óhjákvæmilegt að spyrja: Hvers vegna þá þessa till.? Er nokkur ástæða til að flytja till.? Er þetta ekki allt í fínu lagi hjá hæstv. landbrh.? Mér hefur skilist það undanfarið. Auðvitað er þessi tillöguflutningur sein slíkur fyrst og fremst vantraust á hæstv. landbrh.

En það kunna að vera einnig nokkrar skýringar á því af hverju hv. 1. þm. Norðurl. v. er ekki í hópi tillöguflytjenda. Ég fæ nefnilega ekki betur séð en grg., í raun og veru till. sjálf svo ekki sé nú minnst á framsöguræðuna, sé ein samfelld árás á hv. þm. Pálma Jónsson og feril hans sem landbrh. á sinni tíð. Ég verð að segja alveg eins og er að ég stórefa að hv. 1. flm. standi undir því að vera að ráðast sérstaklega á Pálma Jónsson og þá landbúnaðarstefnu sem hann reyndi að fylgja á sinni tíð. Ég leyfi mér að efa það, herra forseti, að hv. 1. flm. standi undir því að vera svo dómharður um þennan flokksbróður sinn og störf hans í landbrn. á sinni tíð. Fullyrðingar sem hér koma fram um stjórnun landbúnaðarframleiðslunnar á þessum árum standast ekki ýmsar hverjar og þær ályktanir sem flm. dregur þaðan af síður.

Ef við lítum aðeins á till. nánar, herra forseti, fyrir þingtíðindin þannig að mín skýring á þessu komist þangað inn og lesum 1. mgr. till. er hún svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra að hlutast til um að skipulagt átak verði gert til atvinnuuppbyggingar í sveitum til að vega upp á móti samdrætti í hefðbundnum landbúnaði svo að byggðin í landinu treystist. Jafnframt verði könnuð áhrif hinnar mörkuðu framleiðslu á afkomu bænda og ráðstafanir gerðar til úrbóta þar sem þeirra er þörf.“ Síðan er þetta talið upp í sex liðum.

Hvernig byrjar grg., virðulegur forseti, fyrir till. Hún byrjar svona:

„Búvörulögin, sem samþykkt voru á Alþingi árið 1985, fólu í sér margháttuð nýmæli um stjórn búvöruframleiðslunnar og aðlögun að tilteknum framleiðslumarkmiðum.“

Svo kemur næst: „Jafnframt voru teknar skýrar ákvarðanir um hvernig bæri að mæta þeim áhrifum sem af breyttum búháttum mundu óhjákvæmilega leiða.“

Það segir í upphafi grg. að teknar hafi verið alveg skýrar ákvarðanir um það á sínum tíma þegar búvörulögin voru sett hvernig ætti að mæta samdrættinum og áhrifum af lagasetningunni. Til hvers þá þessa till., herra forseti? Hér er svo augljóslega um mótsagnir að ræða, þar sem annars vegar er talað um allar þær ráðstafanir sem þurfi að gera og þessi till. eigi að ganga út frá og hins vegar er fullyrt að búvörulögin hafi leyst þennan vanda. Þar og þá hafi verið teknar skýrar ákvarðanir um hvað gera þurfi og síðan ekki söguna meir. Það furðar mig, herra forseti, að sjá svona plagg lagt hér fram sem þskj. Ég verð að segja það alveg eins og er.

Síðan koma í þessari grg. fyrst og fremst árásir á hv. 1. þm. Norðurl. v. eins og ég hef þegar rakið og þarf ekki að hafa um það fleiri orð þó ekki sé það nú stórmannlegt sem þar er sagt.

Það eru ýmsar aðrar fullyrðingar í grg. og fskj. sem ástæða hefði verið til að fara ofurlítið ofan í, en ég satt best að segja hirði ekki um það eða nenni. Ég get þó ekki annað en mótmælt alveg sérstaklega fullyrðingu á bls. 5 þar sem segir og það meira að segja skáletrað:

„Sú mikilvæga staðreynd liggur hins vegar fyrir og er óvefengjanleg að eitt allra mikilvægasta markmið búvörulaganna, að draga úr kostnaði í rekstri landbúnaðarins, hefur þegar náðst.“

Þessu mótmæli ég, herra forseti. Þetta er þvættingur. Þetta er hreinn þvættingur vegna þess hvernig að framleiðslustjórnuninni hefur verið staðið. Það hefur vantað þann pólitíska kjark sem hefði þurft til að reyna að tryggja að framleiðslustjórnunin leiddi til sem allra mestrar lækkunar framleiðslukostnaðar. Flatur niðurskurður sem tekur framleiðsluréttinn jafnt af öllum þýðir stórkostlega ónýtta fjárfestingu í landbúnaðinum. Það liggur í hlutarins eðli þannig að það er satt best að segja alveg furðulegt að menn skuli vera svo barnalegir að setja svona hluti á prent og það meira að segja í grg. í þskj., að þessi markmið hafi bara þegar náðst, punktur, skástrikað. Og ég spyr aftur, herra forseti: Til hvers þá þessa till. úr því að þetta er allt saman komið í höfn? Það er búið að binda þetta glæsta fley í höfn. Vandamál landbúnaðarins hafa verið leyst.

Ég get út af fyrir sig tekið undir liði 5 og 6 í tillgr., enda höfum við margoft lagt á það áherslu að einmitt þessa hluti þyrfti að gera, huga að markaðsmálunum og vinna þar skipulegar en gert hefur verið. Það er skynsamlegt úr því sem komið er að hugsa sér að lengja búvörusamningana eða aðlögunartímann þannig að bændur viti lengra fram í tímann að hverju þeir ganga. En hér er ekki á nokkurn hátt tekið á þeim höfuðvandamálum, þeim grundvallaratriðum sem verður að fara að skera á í sambandi við stjórnun búvöruframleiðslunnar og það er þetta, herra forseti, að það gengur ekki að halda þessum flata niðurskurði á alla bændur landsins áfram án tillits til aðstæðna. Það er algerlega útilokað að það geti gengið að framleiðslusamdrátturinn verði jafnmikill og raun ber vitni og að honum verði útbýtt flatt yfir alla stéttina án nokkurs tillits til aðstæðna. Það samrýmist ekki þeim áherslum sem við verðum að leggja gagnvart nýtingu landkosta.

Það brýtur byggðirnar sundur og slítur og það hlýtur að leiða af því byggðahrun í þeim sveitum sem standa tæpast.

Og að lokum þetta, herra forseti, úr því að ræðutíma mínum er lokið, enda þarf ég ekki að hafa um þetta makalausa plagg fleiri orð. Ég gat ekki skilið hv. 1. flm. öðruvísi hér áðan en í raun og veru væri í garð gengin gullöld og gleðitíð hjá íslenskum bændum. Þetta væri allt í raun og veru í fína lagi, kjör þeirra væru að stórbatna ár frá ári og allt væri þetta mjög til bóta. Þessar fréttir eru örugglega nýjar fyrir svo til öllum bændum landsins. Ég legg því til, úr því að þessi stóri sannleikur hefur verið fluttur úr ræðustól á hv. Alþingi, að hv. 1. flm. leggi land undir fót, fari hringinn og taki líka Vestfjarðakjálkann með og segi bændum frá því að allt þeirra streð, öll þeirra fundahöld, öll þeirra mótmæli séu á misskilningi byggð. Það sé nefnilega þannig að þeir hafi aldrei haft það betra. Þeir séu í raun og veru á góðri leið með að verða forríkir og allt sé þetta í himnalagi og þessi fundahöld, þessi mótmæli og mörg hundruð manna fundir í hverju héraðinu á fætur öðru sé allt saman misskilningur því að hv. þm. Egill Jónsson hafi uppgötvað það að aldrei hafi verið betra að búa, aldrei hafi verið önnur eins gleðitíð.

Ég legg því til og geri að tillögu minni til hv. flm. að hann hætti að nudda með þetta þskj. sitt, leggi þess í stað, eftir því sem tími leyfir honum frá þingstörfum, land undir fót og færi bændum þessi gleðitíðindi sem hann hefur þeim að færa.