27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2572 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Í þeirri till. sem hér er til umræðu er drepið á allmörg atriði sem miklu máli skipta í sambandi við stöðu og framtíð landbúnaðarins. Ég held að flestum sé það ljóst að þau atriði, sem þarna er talað um að leggja áherslu á, eru í samræmi við það sem gert er ráð fyrir í búvörulögunum eins og hv. flm. rakti. Ég held að þeir sem þekkja til í landbúnaði geti ekki gert ráð fyrir einhverjum svo skyndilegum breytingum þar að allt verði gert á einu eða tveimur árum. Til þess að koma á mjög miklum breytingum þarf þar lengri aðlögunartíma. Þess vegna er held ég augljóst og var að sjálfsögðu vitað fyrir fram að ekki mundi takast að hrinda öllu í framkvæmd á fyrsta ári sem þessi núgildandi lög voru í gildi. Hins vegar var staðan orðin þannig að það var mjög knýjandi að grípa til róttækra aðgerða. Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði hefur árferði verið gott á síðustu árum. En það var ekki aðeins það, því að þegar samningar höfðu verið gerðir um afurðamagn og fyrsta reglugerðin var gefin út til þess að deila því magni út á meðal bænda, þá kom það glöggt fram hversu margir það voru sem sögðu: Ég þarf að auka mína framleiðslu mikið frá því sem hefur verið vegna þess að ég hef verið að byggja upp síðustu árin og það kallar á aukna framleiðslu. Við sem þekkjum til í landbúnaði vitum það líka að þegar ungt fólk tekur við af þeim eldri þá krefst það meiri umsvifa og meiri framleiðslu.

Það er þetta sem gerir stöðuna erfiða. Og þar sem markaðsaðstæður sniðu svo þröngan stakk sem raun ber vitni þá hlaut þarna að verða erfitt um vik og því varð samdrátturinn að koma fyrr en æskilegt var og, eins og hér hefur komið fram, áður en búið var að byggja upp.

En það er algjör misskilningur hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að það sé nú verið að taka þá stefnu að fara í flatan niðurskurð. Það var sú stefna sem gilti samkvæmt gömlu framleiðsluráðslögunum, það var hinn flati niðurskurður. Á grundvelli þeirra var gefið út nýtt búmark þannig að útgefið búmark í mjólk mun hafa verið u.þ.b. 145 millj. lítra á sama tíma og fullt verð er tryggt fyrir 106-107 millj. lítra. Í kindakjötinu er það þannig að það er búmark fyrir rúmlega 18 400 tonn á sama tíma sem fullt verð er tryggt fyrir 11 800 tonn, þ.e. fullvirðisréttur eða fullt verð er tryggt fyrir 60% af útgefnu búmarki. Það er þetta sem sníður svo þröngan stakk. Nú var hins vegar farið inn á þá braut að reyna að fá menn til að breyta um atvinnuhætti þannig að meira rými skapaðist fyrir þá sem áfram héldu búrekstri. Þetta hefur Alþb. kallað eyðibýlastefnu en ég vil fullyrða að ef farið væri eftir ráðum Alþb. og haldið áfram framleiðslu þá er það hin raunverulega eyðibýlastefna.

Markaðsaðstæðurnar eru þannig að til þess að flytja út mjólk þarf að greiða nærri 40 kr. með hverjum mjólkurlítra á sama tíma og bændur fá 26 kr. í grundvallarverð. Það þýðir að það þarf að greiða nærri 4 millj. kr. með búi sem framleiðir 100 þús. lítra af mjólk, þ.e. um 30 kúa búi. Og eftir árið standa menn í sömu sporum nema að því leyti sem það litla brot sem hefur lent sem kaup til bóndans rennur í hans vasa. Með því hins vegar að fara þá leið sem ákveðin var, að leigja búmark, þá er hægt að greiða fjórum til fimm bændum kaup með sama fjármagni á meðan þeir eru að fá umþóttunartíma og að byggja upp nýja atvinnustarfsemi þó að hún sé ekki komin í gang. Vissulega hefði verið æskilegra að þessi nýju atvinnutækifæri hefðu verið komin, þessi uppbygging hefði átt sér stað fyrr, en það er samt sem áður miklu betra að verja fjármagninu þannig til þess að sem stærstur hluti af því sem við höfum til umráða renni sem kaup til bóndans en ekki til þess að greiða með vörunni sem verður að flytja út. Þannig er með þeirri stefnu sem farin er hægt að hafa fjóra til fimm bændur kyrra í sveitunum í staðinn fyrir einn ef farið væri að því ráði að bjóða ekki þeim mönnum sem vildu hætta að hætta við sína framleiðslu.

Ég vil því algjörlega mótmæla því að það sé verið að svelta bændur út af jörðum. Þvert á móti, það er verið að reyna að stuðla að því að menn geti verið kyrrir í sveitunum og það eru mörg dæmi um það að þessar ráðstafanir hafi leitt til þess. Það munu allir þekkja sem vilja vita, það eru staðreyndir sem hægt er að fá upplýsingar um. Ég vildi gjarnan að þeir sem hér fullyrða að hagur bænda sé bágari nú en áður komi með einhverjar tölur því til staðfestingar. Ég vil t.d. benda á að það hefur aldrei verið gert jafnmikið fyrir þá sem skuldugir eru til þess að styrkja þeirra stöðu eins og var gert á s.l. ári með breytingu á lánakjörum Stofnlánadeildarinnar og þegar lausaskuldirnar, lánin, voru flutt frá veðdeild Búnaðarbankans yfir í Stofnlánadeildina og stórbætt lánakjörin. Það gjörbreytti stöðu þeirra sem þar voru með miklar skuldir. Það hefur áður verið bent á það hér í umræðunum hversu mikil framför það var fyrir bændur að fá afurðaverðið greitt að fullu.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram. Að sjálfsögðu þarf að gera betur. Það er ekki allt leyst á einu ári en það er verið að vinna að þessum ,atriðum og það sem bent er á í þessari till. er það sem sett hefur verið sem markmið að vinna eftir þegar lögin gengu í gildi.

Ég vonast til þess að hægt sé að framlengja samninga við Stéttarsambandið í tvö ár í viðbót eins og lagt er til í 6. lið þessarar greinar og í sambandi við 5. liðinn þá eru í gangi viðræður við Útflutningsráð og forstöðumann þess um samstarf og samvinnu í sambandi við markaðsmál erlendis. En eins og ég sagði fyrr í dag, þar er því miður þyngra fyrir fæti en líklega nokkurn tíma fyrr.