27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna því að einn af fulltrúum Sjálfstfl. í þeirri nefnd sem vann að samningu búvörulaganna, hv. 11. landsk. þm., hefur lagt fram till. til þál. um eflingu atvinnu og byggðar í sveitum vegna breyttra búhátta.

Það fer ekki á milli mála að þessi þáltill., ef hún boðar stefnu Sjálfstfl., er stefnubreyting til betri áttar. Það fer ekki á milli mála. Og á það mun reyna mjög hvort um er að ræða samdóma stefnubreytingu hjá þeim aðilum sem sátu í nefndinni sem vann að samningu frv. því þannig vill til að formaður atvmn. , hv. 4. þm. Reykv., átti einnig sæti í þeirri nefnd sem vann að samningu frv. um framleiðsluráðslögin og á það mun mjög reyna hvort þessi tillaga kemur aftur fyrir þingið til atkvæðagreiðslu á þessu þingi. Ég tel að hér sé um jákvæða stefnubreytingu að ræða og það má segja að stefnubreytingin sé öll á þann veg sem hv. 3. þm. Norðurl. e. lagði áherslu á í sinni ræðu þegar hann talaði fyrir þessu máli er það kom úr nefnd í Nd. á sínum tíma. Það má segja að tekin hafi verið upp sú stefna sem hann lagði þar áherslu á að þyrfti að koma til viðbótar. Ég fagna því að þetta skuli upp tekið, að auka áhersluna á að efla byggð í sveitum landsins með því að efla atvinnuna, en vissulega er þetta stefnubreyting.

Ég tel augljóst að búið sé að ná verulegu valdi á þessari breytingu hvað mjólkurframleiðsluna snertir en hættan í sauðfjárræktinni liggur í því að innanlandsmarkaðurinn hefur á undanförnum árum verið að dragast saman. Ég tel að þess vegna þurfi að taka markaðsmálin alveg sérstaklega til umfjöllunar í því sambandi því að verðlagning vörunnar hér innanlands hlýtur að skipta verulegu máli. Viðhorf hæstv. fjmrh. í þeim efnum hefur því allafgerandi áhrif á það hversu til tekst með sölu á sauðfjárafurðum hér innanlands.

Ég vil taka undir það sem sagt er í grg. með þáltill. og snýr að Vestfjörðum, að sveitirnar þar eru dreifðar og fámennar og því sérstök hætta á ferðum. Taflan um vinnuafl og fullvirðisrétt vekur aftur á móti vissa undrun mína því að ég átta mig ekki á því hvort það fær staðist að það sé Norðurl. e. og Vestfirðir sem hafi einna mestu framleiðsluna samkvæmt fullvirðisrétti á mann. Ég efa það að þessi tafla sé að öllu leyti rétt. Mér sýnist að þarna hafi orðið einhver mistök í uppsetningunni. Hins vegar er ekki ólíklegt að niðurskurður á Vestfjörðum vegna riðu hafi átt þátt í því að samdrátturinn þar verður meiri en annars staðar, 8,49%. Og það er okkur ærin nauðsyn að fá leiðrétt gagnvart Vestfjörðum. Ég tel að það hafi verið mistök að skipta svæðunum niður í jafnlitlar framleiðslueiningar og gert var og það hafi skapað vissa erfiðleika hvað þetta snertir.

Það fer ekki á milli mála að 1. flm. þessarar þáltill. er með sínar rætur í íslenskri mold og ég ætla honum að fylgja þessu máli af fullum heilindum, ég efa það ekki. Satt best að segja vona ég að líta megi svo á að það sé stefnubreyting hjá Sjálfstfl. hvað það snertir, að mönnum sem koma utan af landinu sé ljóst að það verður að fá lengri aðlögunartíma og hvernig sem mál skipist gagnvart ríkisstjórn að loknum kosningum liggi það ljóst fyrir að þeir vilji binda það nú áður en þing fer heim með samþykkt þessarar þáltill. að ekki komi neitt annað til greina en að skapa störf í sveitunum fyrir þá skerðingu sem þar á sér stað vegna samdráttar í hinum hefðbundnu búgreinum.