27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hefði að sjálfsögðu ekki þurft aðra ferð hingað í ræðustólinn vegna þessarar till. en út af orðum hæstv. landbrh. vil ég aðeins segja það að hann hefur auðvitað misskilið stórlega stefnu Alþb. í þessum efnum eða sleppt því algjörlega að kynna sér hana, sem er nú ekki ráðlegt af virðulegum landbrh., ef hann heldur því fram að það sé einhver sérstök stefna Alþb. að framleiða landbúnaðarvörur utan endis. Það er mikill misskilningur. Það hefur birst bæði í þáltill. og málflutningi okkar hér á undanförnum árum að við erum sammála því að það þurfi að hafa stjórnun á landbúnaðarframleiðslunni og við höfum lagt fram ýmsar tillögur um hvernig skuli að því staðið. Við setningu búvörulaganna á sínum tíma gagnrýndum við ýmislegt í þeim lögum og bentum á hvernig við teldum að betur mætti standa að því að skipuleggja framleiðsluna og bregðast við þeim samdrætti sem þar var boðaður og að einhverju leyti var, að allra manna mati sem ég þekki, nauðsynlegur. Ég hef engan Íslending heyrt halda öðru fram en að einhverju leyti hefði þurft að hafa stjórn á framleiðslunni og sjálfsagt var, eins og markaðsstaðan var þá, óhjákvæmilega um einhvern samdrátt að ræða.

Við höfum hins vegar lagt á það mjög mikla áherslu að framleiðslunni yrði skipað eftir svæðum með tilliti til landkosta og byggðasjónarmiða að reynt yrði að ná saman um einhverja hóflega einingu, stærðareiningu, í búrekstri og gera hana arðbæra sem slíka. Og ég segi það sem mína skoðun, það er kannske of mikið sagt að það sé skoðun flokksins, að við höfum talið, þeir menn sem ég hef mest unnið með innan míns flokks að stefnumörkun í landbúnaðarmálum, að það væri óhjákvæmilegt að færa til framleiðsluna með vissum hætti, þannig að sauðfjárframleiðslan yrði t.d. að hluta til færð frá þeim svæðum þar sem byggðin stendur sterkast og skilyrði til annars búskapar og annarrar atvinnu væru best. Svo að skiljist hvað ég á við vil ég nefna t.d. svæði eins og Suðurlandsundirlendið og Eyjafjarðarsvæðið að hluta til. Það er engin spurning um það að þar mætti draga úr sauðfjárbúskapnum og færa hann út á þau jaðarsvæði sem standa tæpast og það væri skynsamleg ráðstöfun að mínu mati. Og þá hef ég vonandi komið með eitt „konkret“ dæmi sem hæstv. landbrh. getur þá hugsað um.

Til að gera þessa hluti þarf pólitískan kjark. Það þarf að þora að standa frammi fyrir mönnum og segja: Því miður er óhjákvæmilegt að grípa til sársaukafullra aðgerða og við teljum skynsamlegast og best að þær séu svona og svona. Auðvitað mundu margir bændur, hvort sem er á Suðurlandsundirlendi eða í Eyjafirði, ekki fagna því að þurfa að láta af sauðfjárbúskap sem atvinnugrein. En ég er viss um að það er svigrúm til tilfærslna á þessu svæði og það væri skynsamlegt í mörgu tilliti, sérstaklega út frá byggðasjónarmiði. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að verið sé að framleiða kindakjöt og búa með sauðfé í ýmsum þéttbýlustu sveitunum nálægt fjölmenni á sama tíma og framleiðsluréttur bændanna á Hólsfjöllum er skertur. Það er auðvitað hrein vitleysa og endileysa frá byggðasjónarmiðum. Á sama tíma og hið opinbera aðstoðar bændur á Hólsfjöllum við að keyra ljósavélar til þess að þeir geti búið þar við sæmileg lífsskilyrði eins og aðrir, þá er framleiðslurétturinn tekinn af þeim og undirstöðunni kippt undan fótum þeirra með þeim hætti. Þarna er auðvitað vinstri höndin að gera hluti sem sú hægri vinnur í móti. Þetta er endileysa og til skammar fyrir stjórnkerfið að slíkir hlutir skuli eiga sér stað og ætti auðvitað að skoðast út frá sjónarmiði byggðamálanna alveg sérstaklega.

Við höfum í þingflokki Alþb. m.a. skrifað hæstv. forsrh. sem yfirmanni Byggðastofnunar og farið fram á það við hann að hann feli þessari stofnun að skoða þau áhrif sem þessi samdráttur sé líklegur til að hafa. Það eru ekki bara sveitirnar sjálfar sem við höfum áhyggjur af, heldur einnig og kannske ekki síður þéttbýlið sem er að verða fyrir þungum áföllum og miklum tekjusamdrætti vegna minnkandi umsvifa í landbúnaðinum, vegna samdráttar í úrvinnslunni og vegna þess að bændurnir kaupa minni þjónustu sem eðlilegt er með minnkandi tekjum. Og varðandi það að afkoma bænda sé nú líklega bara góð, menn biðja hér um tölur um hana, held ég að þurfi engar tölur. Það er alveg ljóst að góðærið svokallaða skilar sér ekki með sama hætti út í sveitirnar og það ætti að gera að hluta til. Erfiðleikar bændanna og viðskiptaaðila þeirra, eins og kaupfélaga eða afurðasölufélaga, ættu að vera öllum mönnum kunnir. Ég hélt að það þyrfti í sjálfu sér ekki að fara fleiri orðum um það. Það liggur alveg fyrir að vöxtur þjóðartekna, sem á þriggja ára tímabili 1985-1987 er áætlaður 17%, er ekki að fara ofan í vasa bændanna með sama hætti, það leyfi ég mér að fullyrða. Ég er alveg sannfærður um að hv. 1. flm. till. fengi naumast nokkurn einasta bónda í landinu til að trúa sér þó að hann reyndi að segja honum það. Og það verður svo að segjast um þessa till. að öðru leyti: Ef hv. flm. er þetta svona mikið alvörumál og þetta er svona mikið og vinsælt mál í Sjálfstfl., hvers vegna er þessu þá ekki hrint í framkvæmd? Nú hefur hv. þm. aðstöðuna, hann tilheyrir stjórnarliðinu. Hv. þm. og 1. flm. er formaður landbn. Ed., samstarfsmaður hæstv. landbrh. Ég hygg að hann hefði átt að reyna að ná þessum áhersluatriðum í gegnum sinn þingflokk og reyna svo að hrinda þeim í framkvæmd. Eftir hverju er verið að bíða? Leggja hér fram einhverja tillögu sem dagar uppi í umræðum rétt fyrir kosningar í staðinn fyrir að drífa þá í framkvæmdunum. Ég tel að hv. flm. hefði átt að fara þá leið ef þetta er honum slíkt alvörumál. Hann getur ekki borið því fyrir sig að hann hafi ekki aðstöðuna til þess sem stjórnarþingmaður.

Það er einnig dálítið athyglisvert með tilliti til ræðuhalda hv. 1. flm. að hann hafði ekkert, ef ég man rétt, að athuga við raðstöfun fjár úr Framleiðnisjóði sem rædd var hér á virðulegu Alþingi fyrir jól. Ég hefði haldið að honum, sem sérstökum talsmanni þess að efla atvinnu og byggja upp í sveitunum til að mæta samdrætti í landbúnaðarframleiðslunni, hefði átt að vera allra manna sárast um fé Framleiðnisjóðs sem var einmitt ætlað í þetta sérstaka verkefni, ekki til að laða fram aukinn samdrátt heldur til þess sérstaklega, og það var margundirstrikað við afgreiðslu búvörulaganna, til að byggja upp, til að styrkja aðra atvinnustarfsemi svo að það gæti orðið að einhverju leyti flutningur úr framleiðslu hefðbundinna búvara yfir í aðra atvinnustarfsemi í sveitunum. Fé Framleiðnisjóðs var sérstaklega ætlað og tekið frá í það verkefni. En ég man ekki eftir að hv. 1. flm. hafi gagnrýnt þá ólöglegu ráðstöfun, eins og ég hef talið, sem átti sér stað á fé Framleiðnisjóðs s.l. haust og hefði hann þá, ef hann ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur, átt að taka þann þátt málsins upp.

Það sem er vandamálið þegar rætt er um afkomu bænda, og ég vil láta það vera mín síðustu orð, er auðvitað það að einhver meðaltöl í þeirri grein eru meingölluð og segja ekki alla söguna frekar en annars staðar. Það vita allir sem eitthvað þekkja til í sveitum landsins að aðstaða og afkoma bænda er geysilega misjöfn og að eitt erfiðasta vandamálið við úrlausn landbúnaðarmálanna, yfir höfuð, er hvað aðstaða og afkoma er geysilega misjöfn. Það er auðvitað hægt að finna bændur, sem betur fer, í velflestum sveitum sem hafa sæmilega afkomu. Að sjálfsögðu finnast dæmi um gróna roskna bændur sem eru lausir við svo til alla fjárfestingu af sínum býlum og hafa um langt árabil haldið búrekstri sínum í stöðugu og svipuðu formi og hafa þokkalega afkomu. En því miður er það mikill minni hluti. Það er mikill minni hluti íslenskra bænda sem þannig er ástatt um. Allur fjöldinn, svo ekki sé nú minnst á yngri bændurna og þá sem staðið hafa í fjárfestingum, er í miklum erfiðleikum. Það þarf ekki að þrátta um það, hv. alþm., það þarf ekki að þrátta um það. Það liggur alveg fyrir og ég þarf ekki að nefna neinar tölur í því sambandi. Þess vegna er það að jafnvel þó að hv. þm. Egill Jónsson gæti fundið einn og einn mann í einni og einni sveit sem mundi trúa því að afkoma bænda væri mjög góð og batnandi yrði það engu að síður mikill meiri hluti, sennilega 80-90%, því miður, sem mundi koma af fjöllum þegar hann fengi þessar fréttir og allur þorrinn mundi vita hið gagnstæða úr eigin vasa, úr eigin bókhaldi, því miður. Þannig er það og ég hygg að það þurfi ekki að bíða eftir skattaframtölum bænda, sem koma auðvitað á sínum tíma á þessu ári, til þess að fá sönnur á því að árið 1986 var þeim þungt í skauti og sá tímabundni ávinningur í eitt skipti sem þeir höfðu af greiðslubreytingunum, sem ég að sjálfsögðu tek undir að kom bændum til góða, kom fram á því ári og honum verður ekki til að dreifa á hinu síðasta, því miður, þannig að afkoma bænda verður mun lakari á því ári.