27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. að þessari till. fullyrti í ræðustól að það hefði ekki verið neinn ágreiningur á milli flokkanna um búvörulögin svokölluðu. Hann virðist hafa gleymt því hvað gerðist þegar var verið að hlaupa á milli í sambandi við störf landbn. Nd. til að reyna að fá einhverju hnikað til. Þá stóð hann eins og klettur í hafinu að breyta engu. Það var aftur annað með suma flokksbræður hans, þá sem voru í landbn. Þá á ég við hv. þm. Eggert Haukdal og hv. varaþm. Pál Dagbjartsson. Ég geri mér grein fyrir að ef þeirra stuðningur hefði ekki komið til hefðu ekki náðst fram þær breytingar sem urðu í Nd. Þær voru allmargar og þýðingarmiklar.

Það var t.d., svo að ég taki dæmi, ég hef ekki möguleika að lesa það allt saman upp, í sambandi við 19. gr. Í frv. voru það 3% sem áttu að fara í verðjöfnunargjald sem hefði orðið til þess, ef það hefði verið samþykkt, að það var ekki hægt að jafna á milli landshluta. Við stefndum að því að fá hækkunina upp í 6%, en það var samkomulag að það yrði 5,5%. Ég gat um það áðan að það hefði komið fram, enda held ég að þeir sem hlustuðu á það sem ég las upp úr ræðu minni frá þessum tíma hafi heyrt að það kemur fram sá ágreiningur sem þá var. Ágreiningurinn var um að það yrði að byggja upp eitthvað annað áður en samdrátturinn yrði. Ég geri ekki lítið úr því sem hefur verið gert, alls ekki. En það er alveg staðreynd, hvað sem hver segir, að það er óvissan sem angrar ýmsa bændur og þeir eru í erfiðleikum, sérstaklega þeir sem stunda sauðfjárbúskap, í mjög miklum erfiðleikum margir hverjir. Ef menn hafa ekki heyrt mál þeirra þykir mér það nokkuð undarlegt.

Það var mikill ágreiningur um það að í frv. stóð að 4% áttu að enda í árslok 1990. Við sem vorum í meiri hlutanum vildum endilega og settum það skilyrði að þetta félli ekki út. Rökin voru þau að það yrði ekki búið að byggja upp annað á þessum tíma eins og blasir við í dag. Þar sem ræðutíminn er svo takmarkaður vil ég bjóða hv. 1. flm. að við gerum athugun á þessum lögum og stjórnarflokkarnir komi með brtt. við búvörulögin þannig að það náist sá tilgangur sem hæstv. ríkisstjórn hefur hvað eftir annað lýst að hún stefni að, þ.e. að reyna að halda byggðinni í svipuðu formi og hún er núna, því að í sjálfu sér er þáltill. aðeins ályktun Alþingis sem hefur ekki neinn lagalegan rétt, en ef hv. þm. meinar það og vill berja það fram að fá þarna breytingar og tryggja stöðu landbúnaðarins er einfaldast að koma með brtt. Ég skal vinna að því með honum og ég veit að flokksbróðir minn, hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, mundi leggja okkur lið og fleiri góðir menn. Það er leiðin sem hv. þm. hefur til að undirstrika það sem hann vill gera í þessu máli og ég efast ekkert um að hann vilji það. En ætli það sé ekki eins og var þegar við vorum að ræða þetta frv. um búvörulögin að hann sé bundinn í báða fætur um að standa að því sem niðurstaða nefndarinnar var. En hvað voru margar breytingar, hv. þm., gerðar á frv. frá því að það kom úr höndum nefndarinnar og þangað til það var samþykkt á Alþingi? Hefur hv. þm. athugað það? Það hefði verið gaman að því að hann hefði sett það í grg. með till. hvað þær hefðu verið margar í það heila.

Við vissum hvernig þetta var og ég verð að segja hv. þm. að ég hef gert samasemmerki við það að Páll Dagbjartsson er ekki lengur í framboði fyrir Sjálfstfl. og hans afstöðu í sambandi við búvörulögin. Ég veit ekki hvort aðrir gera það, en ég hef gert það. Og ég skora á hv. þm. að setjast niður og sýna í verki hvernig Sjálfstfl. stendur að þessum málum með því að flytja með okkur brtt. Hann getur svo sannarlega flutt hana í Ed. þó að við leggjum honum lið með að ná samkomulagi hvernig þær skuli vera. Hann má vera þar fyrir mér, 1. flm., en ég skora á hann að taka þessu tilboði að flytja tillögur um breytingu á búvörulögunum í anda þess sem hann hefur hér talað og það er að það verði uppbygging svo mikil og séð um það í sveitunum að til þess komi ekki að bændur þurfi að fara af jörðum sínum eins og ég, hvað sem aðrir segja, tel að blasi við ef ekki verður gert frekara átak í þessum málum miðað við það fjármagn sem er ætlað til þess. Því miður er staðan svo hvað sem hver segir.