27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2585 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað að blanda mér í þessa umræðu. Hins vegar sé ég mig til þess neyddan vegna þess að ég var nefndur í þessari umræðu.

Hv. 11. landsk. þm. vék að því í sinni síðari ræðu að ekki hefði verið neinn meiningarmunur eða munur á afstöðu okkar til ákveðinna lagagreina í títtnefndum búvörulögum, þ.e. 36. og 37. gr. búvörulaganna. Ég minni hv. 11. landsk. þm. á að þegar nefndin leitaðist við að setja á blað skiptingu milli útflutningsbóta og ráðstöfunarfjár til búháttabreytinga, þ.e. til Framleiðnisjóðs, hafði nefndin til hliðsjónar yfirlýst stefnumið ríkisstjórnarinnar. Sannleikurinn er sá að ríkisstjórnin endurnýjaði sinn stjórnarsáttmála a.m.k. að hluta á sumrinu 1984, í ágúst/september. Þar var þess getið að á næstu fimm árum yrði því sem næst jafnvægi á milli framleiðslu landbúnaðarvara og innanlandsneyslu. Ekki var orðalagið fortakslaust. Ég skal viðurkenna það. En mitt mat er að við hv. þm. Egill Jónsson höfum á vissan hátt verið sammála um að ekki yrði á þeirri stundu, þ.e. þegar búvörulögin voru til meðferðar eða frv. undir það síðasta, gengið lengra í átt til þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hafði markað. M.ö.o.: ríkisstjórnin hafði lagt til hraðari samdrátt en niðurstaðan varð og 36. og 37. gr. búvörulaganna vitnar um.

Ég geri ráð fyrir því og ég ætla reyndar að fullyrða það að við hv. þm. Egill Jónsson hefðum kosið á sínum tíma að þarna yrði farið hægar í sakir. A.m.k. vildi ég að svo yrði. Hins vegar endurtek ég: Mitt mat var að lengra yrði ekki gengið að svo stöddu til samkomulags.

Nú hefur bryddað á því að jafnvel aðilar innan ríkisstjórnarinnar hafa látið eftir sér hafa að það þyrfti lengri aðlögunartíma. Ekki vík ég mér undan að taka undir þau sjónarmið, síður en svo, enda er það fullkomlega í samræmi við þær skoðanir sem ég hafði um þau mál á sínum tíma.

Herra forseti. Ég hef ekki ætlað mér að hafa fleiri orð í þessari umræðu. Vegna till. til þál. sem hér er á dagskrá get ég tekið undir efni hennar í meginatriðum, þ.e. þá áherslupunkta sem eru sex talsins og drepið er á undir ályktuninni sjálfri. Reyndar hefur það komið fram í þessari umræðu að að þessum málum er unnið meira og minna. Ég tel þó af hinu góða að einstakir þm. láti með þessum hætti vilja sinn í ljós gagnvart svo mikilvægum málum og tel fullkomna ástæðu til að þakka hv. 11. landsk. þm. fyrir að flytja þessa till. og sýnir það auðvitað að hann hefur mikinn áhuga fyrir því að framkvæmd þessara mála fari vel úr hendi.