27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki bregðast trausti forseta með því að tala hér langt mál. Það eru aðeins tvö atriði sem mig langar að minnast hér á. Annað er það, sem ég mæli sérstaklega til hv. þm. Ólafs Þórðarsonar en mér þykir heldur vænt um hans málflutning, að vandinn í þessari till. eins og hann er skilgreindur er ekki einvörðungu varðandi samdráttinn í hefðbundnum búgreinum og þess vegna, eins og þessi hv. þm. vitnaði til, er miðað við að það náist fram helmingi fleiri ársverk en samdrættinum nemur á grundvelli þessarar till. Ef ég mætti benda á súlurit á bls. 7 kemur þar fram að frá árinu 1976 til ársins í ár hefur störfum í landbúnaði fækkað um 2000, sem er 22%. Till. gerir ráð fyrir því að farið verði að vinna þetta upp.

Að öðru leyti vildi ég aðeins segja það, út af því sem hv. þm. Stefán Valgeirsson var að tala hér um og bjóða mér kostaboð að vera meðflm. að einhverri till. Framsfl., að það er ekki ein einasta áhersla í þessu plaggi hér sem ekki er hægt að framkvæma eftir búvörulögunum eins og þau eru núna, þannig að það þarf nákvæmlega enga breytingu að gera á búvörulögunum til þess að ná fram þessum markmiðum. Þá geri ég reyndar ráð fyrir því sem sjálfsögðum hlut að Sjálfstfl. eigi aðild að næstu ríkisstjórn og geti haft áhrif á endurskoðun þessara laga á grundvelli 38. gr. sem kveður á um að fyrir lok aðlögunartímabilsins eigi að endurskoða þessi lög og taka næstu ákvarðanir um það hvernig framhaldið verður með tilliti til þess til hvers aðlögunartíminn hefur leitt, þessi fimm ára aðlögunartími.