27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2588 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Flutningur þessarar till. er yfirlýsing um það að efasemdir okkar, sem vorum í andófi og töldum ýmislegt athugavert við búvörulögin þegar þau voru sett, hafa verið réttar. Við minnumst þess að á sínum tíma, þegar þau komu fram á vordögum 1985, þá voru þau svo fullkomin og góð að dómi höfunda að engu mátti breyta og það lá á að drífa þau fram í hvelli. Sem betur fer tókst við meðferð þeirra að færa þau aðeins til betri vegar þó að þar væri hvergi nærri að gert eins og þurfti.

Við endanlega meðferð frv. voru útflutningsuppbætur minna skertar en til stóð, þær áttu að falla alveg niður á fimm árum, en það tókst að halda þeim í 4% árið 1990. Höfuðgalli frv. var sá að féð var tekið allt of hratt frá hefðbundnum landbúnaði.

Það fé sem hafði áður farið í útflutningsuppbætur skyldi fara til að byggja upp nýjar búgreinar. Og þó að þetta hafi verið framkvæmt þessi árin þá kemur fram í Morgunblaðinu um síðustu helgi nokkuð góð lýsing á hvernig að þessari uppbyggingu nýrra búgreina hefur verið staðið. Þar kemur nefnilega fram að hún er nánast blekking, uppbyggingin í mörgum héruðum hefur verið hverfandi lítil og nánast engin sums staðar. Á sama tíma hefur verið tekið mikið fé með minnkun útflutningsuppbótanna úr hefðbundnum búgreinum og sjá allir að ráðstöfun alls þess fjár, sem hefur verið tekið burtu úr þessum héruðum og átti að færast í nýbúgreinar sem kæmu í staðinn, hefur reynst á brauðfótum.

Það er gagnlegt að þessi þáltill. verði samþykkt en það þarf að breyta búvörulögunum áður en Alþingi fer heim í vor. Það verður að framlengja aðlögunartímann, það verður að draga úr skerðingu útflutningsuppbóta, það verður að fá meira fé til að koma í veg fyrir að byggðin eyðist. Markmið laganna voru góð að mörgu leyti. Við vildum fá staðgreiðslu búvara og það hefur nokkurn veginn tekist. Bændur voru nógu oft og lengi búnir að bíða eftir sínu kaupi. En framkvæmd laganna hefði mátt fara betur. Ef vel hefði verið staðið að henni er ljóst að við stæðum betur í dag. Það hefði þurft kröftugan byggðastefnumann til að standa í ístaðinu og fara með landbúnaðarmálin á þessum tíma. Það er ljóst. En ég vona að áður en Alþingi fer heim takist samkomulag meðal stjórnarsinna um að breyta lögunum og koma þannig í veg fyrir þá landeyðingu sem fram undan er, ef ekkert verður að gert.