27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2592 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

236. mál, tryggingasjóður loðdýraræktar

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Á þskj. 253 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um tryggingasjóð loðdýraræktar gegn verðsveiflum. Flm. auk mín eru hv. alþm. Ólafur Þ. Þórðarson, Guðmundur Bjarnason, Stefán Guðmundsson og Jón Kristjánsson. Ályktunargreinin hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna með hvaða hætti megi best tryggja hag loðdýrabænda gegn verðsveiflum á loðskinnamörkuðum.

Nefnd þessi, sem skipuð verði fulltrúum loðdýrabænda, Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, auk fulltrúa landbrn., athugi sérstaklega og geri tillögur um stofnun verðmiðlunarsjóðs er greitt verði til er verðlag á loðskinnum telst hátt, en bæti skinnaverð þegar verð fer verulega niður fyrir meðalverð undanfarinna ára.“

Það er skiljanlegt að hættan á verðsveiflum og tímabundnu lággengi á loðskinnamörkuðum fæli ýmsa frá því að leggja fjármuni í loðdýrarækt. Hefðu menn hins vegar einhverja tryggingu fyrir því að verstu verðsveiflurnar yrðu jafnaðar út með ákveðinni verðmiðlun mundu miklu fleiri treysta sér til að fara af stað og greinin þar með eflast mun hraðar sem heild og samkeppnisaðstaða batna sem því nemur. Því er þessi till. flutt og þess vænst að málið verði kannað rækilega sem fyrst.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði vísað til atvmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.