28.01.1987
Efri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

125. mál, opinber innkaup

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég hef skrifað undir álit nefndarinnar sem mælir með því að frv. verði samþykkt. Ég geri það fyrst og fremst vegna þess að ég tel að efni frv. sé til bóta miðað við það skipulag sem nú er ríkjandi. Hins vegar er ekki þar með sagt, eins og ég tók fram á nefndarfundinum, að frv. sé algott eða að þar geti ekki hugsanlega fundist ýmsir hnökrar á. Ég minni á þær athugasemdir sem hv. þm. Skúli Alexandersson kom fram með við 1. umr. málsins. Hann benti á það, sem ég vakti reyndar líka athygli á í nefndinni sem fjallaði um málið, að ekki væri í þessu frv. neitt vikið að skyldum ríkisvaldsins til þess að beina innkaupum ríkisins að innlendri framleiðslu.

Í þessu sambandi er rétt að minna á það að í tíð seinustu ríkisstjórnar hafði iðnrn. uppi verulegar aðgerðir til þess að hvetja opinberar stofnanir til að velja frekar innlenda framleiðslu en erlenda. Mér er það t.d. minnisstætt að í ríkisstjórninni á árunum 1980-1983 voru þessi mál oft til umræðu og þar voru allir sammála um að ríkisvaldið hlyti að hafa frumkvæði að því að beina innkaupum opinberra aðila að innlendri framleiðslu. Auðvitað var því eðlilegt að iðnrn. hefði þarna vissa forustu.

Ég ætla ekki að rifja upp hvaða aðgerðir iðnrn. hafði í frammi á þessum árum en vek bara athygli á því að eftir að ný stjórn tók við voru þessar aðgerðir að engu gerðar og opinber innkaupastefna af þessu tagi var ekki lengur til eftir að nýir menn voru komnir í ráðherrastóla. Þetta er mjög bagalegt og vissulega hefði verið ástæða til að víkja að þessum þætti málsins í frv. sem fjallar um opinber innkaup. Hins vegar viðurkenni ég það að frv. sem slíkt fjallar meira um aðrar hliðar málsins. Það fjallar ekki sérstaklega um þessa hliðina sem iðnrn. hafði forgöngu um í fyrri stjórn, heldur er hér meira verið að endurskipuleggja stjórnarfyrirkomulag Innkaupastofnunar ríkisins. Það er verið að setja yfirstjórn yfir stofnunina og skilgreina hlutverk hennar að öðru leyti.

Frv. þetta er flutt af fjmrh., enda heyrir Innkaupastofnun ríkisins undir fjmrn., en þær aðgerðir sem ég er hér að ræða um eru kannske frekar flokkaðar undir fagráðuneyti og þá einkum iðnrn. og þess vegna hafa þau sjónarmið ekki komið inn í þessa mynd, enda sem sagt annað ráðuneyti sem á hér í hlut.

Ég vek athygli á þessu vegna þess að hér er um stórmál að ræða. Ég vek athygli á þessu vegna þess að hér er um vanrækslusynd að ræða af hálfu núv. stjórnar. Það er illt til þess að vita að fyrri viðleitni stjórnvalda til að marka opinbera innkaupastefnu að þessu leyti skuli hafa verið að engu gerð í tíð núv. stjórnar og að það starf sem fyrri stjórn lagði fram í þeim efnum skuli hafa orðið til einskis.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um að yfirstjórn opinberra innkaupa skuli falin sérstakri stjórn sem er skipuð þremur mönnum og fjmrh. skipar stjórnina til tveggja ára í senn. Auðvitað hlýtur það að vera álitamál hvernig stjórn af þessu tagi skuli vera. Ekki væri óeðlilegt að stjórnarandstaða ætti þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum og ábendingum við stjórn stofnunar af þessu tagi og þá hefði auðvitað stofnunin þurft að vera fimm manna og hefði þá verið eðlilegt að kjósa til hennar á Alþingi. Ekki er gert ráð fyrir því í þessu frv. Ég er ekki að segja með þessu að alþm. ættu að skipa stjórn stofnunarinnar, það væri auðvitað engin þörf á því út af fyrir sig. En það væri vissulega ekki fráleitt að fleiri gætu komið ábendingum sínum og hugmyndum að í þessu máli en eingöngu embættismenn, sem væntanlega mundu skipa þessa stjórn.

Með þessum athugasemdum sem ég hef greint frá læt ég þessu lokið. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að í heildina tekið horfir samþykkt frv. til hins betra og það eru mörg skynsamleg ákvæði í frv. Þess vegna hef ég mælt með samþykkt þess.