28.01.1987
Efri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2598 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

297. mál, nauðungaruppboð

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð þó hér væri vissulega ástæða til að hafa uppi nokkurt mál um það baksvið sem þetta frv. felur í sér. Ég fæ þetta mál í nefnd og þar fæ ég tækifæri til að ræða það og fá frekari upplýsingar og eins er hægt að ræða þetta við síðari umræður málsins. Það er augljóst af lestri þessa frv. að réttarfarsnefnd hefur hér lagt til brýnar og nauðsynlegar breytingar og þær eru hiklaust til bóta fyrir þá sem eru þolendur þess arna, bæði varðandi, eins og hæstv. ráðh. kom inn á, ónæði, óþægindi og niðurlægingu sem opinberar auglýsingar og sjálft uppboðshaldið með tilheyrandi endanlega sölu við þriðju uppboðssölu.

En málið er auðvitað það að baksvið alls þessa er það sem við hljótum að hugsa kannske fyrst og síðast um, það baksvið sem hæstv. ráðh. kom nokkuð inn á og sem varðar svo mjög spurninguna um lífshamingju manna í mörgum tilfellum, ræður örlögum þeirra. Það er síðasti dálkurinn á bls. 3 sem ég á þar við. Í þeirri töflu sem þar er birt um endanlegar, aðgerðir varðandi uppboð sem hefur fjölgað á þessu svæði einu úr átta í, eins og ráðherrann nefndi áðan og þá taldi ég að hann væri að leiðrétta töluna 46, 54 miðað við áramót, þannig að þarna hefði fjölgað um átta frá því sem í frv. er greint, upp í 54. Prósentuaukningin er býsna mikil.

Það er ekki ljóst hvaða eignir hér er um að ræða, en auðvitað sækir að manni sá grunur að í meginhluta tilfella sé hér um að ræða íbúðarhúsnæði fólks. Það kemur ekki fram eins og ég sagði, en fæst væntanlega upplýst í nefnd hvað mikill hluti þess arna snertir einmitt íbúðarhúsnæði fólks. Þá vek ég kannske sérstaka athygli á mismuninum frá árunum 1985-1986 sem er nær tvöföldun á þessu svæði einmitt vegna þess að á árinu 1985 voru gerðar sérstakar ráðstafanir eða átti að gera og í framhaldi af samningum átti að gera sérstakar ráðstafanir til að auðvelda íbúðareigendum sem mikið skulduðu að koma sínum málum í það horf að hjá uppboði yrði komist. Þessar tölur segja aðeins hina alvarlegu sögu á Reykjavíkursvæðinu og segja hana reyndar ekki alla vegna þess að eins og ég sagði áðan getur verið um atvinnuhúsnæði eða atvinnufyrirtæki að ræða einnig sem hafa komið til endanlegs uppboðs. En ég hygg þó og hef fyrir mér nokkuð í því að enn dapurlegri sé kannske samanburðurinn við landsbyggðina í þessum efnum þar sem a.m.k. í mínu nágrenni var það svo til óþekkt með öllu fyrir nokkrum árum að íbúðarhúsnæði fólks væri selt á nauðungaruppboði. Það var þá nokkurn veginn óþekkt. Nú veit ég því miður nokkur dæmi þess á síðustu árum að slíkt hafi orðið. Ég er því hræddur um að á landsbyggðinni hafi þróunin orðið enn ískyggilegri hvað þetta varðar.

Ég held að þetta baksvið hljóti að vera nauðsynlegt að skoða um leið og við tökum þetta frv. til meðferðar sem tvímælalaust er til bóta fyrir þá þolendur sem verða fyrir því óláni að lenda með eignir sínar á nauðungaruppboði og fá ekki fyrir þær nema brot af því sem þeir annars hefðu fengið í yfirgnæfandi tilfellum.

Þetta vildi ég aðeins, segja nú þó að um þetta mætti hafa langt mál. Ég hygg að það sé rétt hjá okkur í nefndinni, en formaður nefndarinnar er ekki hér staddur nú, en ég mun koma því á framfæri við hann, að við fáum sambærilegar tölur frá landsbyggðinni og hér eru frá Reykjavíkursvæðinu svo við getum séð þá breytingu sem orðið hefur á fjölda nauðungaruppboða þar á síðustu árum sem ég hygg að sé miklu meiri stökkbreyting en þó er hér, og er þó nóg um það að þar hafa endanleg uppboð sjöfaldast á þessu stutta árabili.