28.01.1987
Efri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

297. mál, nauðungaruppboð

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Auðvitað er það hárrétt hjá hv. 2. þm. Austurl. að sú sjöföldun uppboða sem átt hefur sér stað á s.l. þremur árum hlýtur að vekja menn til umhugsunar og ætti virkilega að gera það, knýja menn til að hugleiða hvað býr að baki og hvað hefur farið úrskeiðis í okkar þjóðfélagi sem annars kennir sig við velferð.

En ég er í þeirri nefnd sem fjalla mun um þetta frv. og vildi kannske í 1. umr. nota tækifærið til að spyrja ráðherra beint hvort sú nefnd sem að gerð þessa frv. starfaði, réttarfarsnefnd, hafi hugleitt aðrar leiðir til uppboða eða sölu á lausafjármunum en núna eru farnar. Markmið uppboðsins er endanlega að þeir sem að uppboðinu standa, annars vegar skuldarinn og hins vegar kröfuhafinn, verði báðir fyrir sem minnstum skaða og þá sérstaklega sá aðilinn sem á peninga þarna í húfi. Það er þess vegna eðlilegt að leitað sé þeirra leiða við skuldauppgjör sem fram fer með þessum hætti að ná inn sem mestu verði fyrir þær eignir sem verið er að selja og staðreynd er að þeir sem upplifað hafa uppboð, sérstaklega á lausafjármunum, vita að þar fara hlutir oft á svo ótrúlega lágu verði að það nálgast ekki einu sinni að greiða þann kostnað sem á uppboðsgerðina er fallinn hvað þá heldur að standa að einhverju leyti undir endurgreiðslu þeirra skulda sem það á þó að mæta. Það hefur verið í umræðu hér kastað fram þeirri hugmynd að lausafjármunir yrðu ekki seldir á uppboði heldur yrðu þeir eiginlega framboðnir eins og í verslun, þ.e. verslun þar sem menn gengju að því vitandi að þar væri um hluti að ræða sem teknir hefðu verið úr vörslu eigenda í þeim tilgangi að ná inn aftur sem mestu af verði þeirra til að greiða skuldir sem á þeim hvíla. Menn sem hugleitt hafa þessa möguleika hafa leitt viss rök að því að þannig mætti hugsanlega fá hærra verð fyrir lausafjármuni en á tilviljunarkenndu lausafjármunauppboði á laugardagsformiðdegi þar sem menn koma stundum næstum eins og til að skemmta sér og bjóða í þá hluti sem þar eru boðnir oft og tíðum mjög skrýtnar upphæðir miðað við verðgildi.

Mig langaði eiginlega til að spyrja ráðherrann hvort sú nefnd sem að samningu þessa frv. stóð hefði hugleitt og skoðað aðrar leiðir í þessum efnum eða hvort þessi þankagangur hefði ekki skotið upp kollinum í nefndinni þegar frv. var samið.