28.01.1987
Efri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

297. mál, nauðungaruppboð

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstvirtur forseti. Hv. 8. þm. Reykv. spurðist fyrir um athugun á sölu lausafjármuna á uppboði. Það efni var ekki til sérstakrar umræðu í sambandi við þetta frv. , en það hefur áður verið til umræðu bæði í dómsmrn. og við nefndina og menn hafa rætt um hvort þar væri hægt að koma á betri skipan þannig að það tryggði betur hag uppboðsþola. En ekki hafa komið fram ákveðnar brtt. um það.

Það er sérstaklega eitt atriði sem minnst hefur verið á og er kannske ekki alveg það sama og hv. þm. nefndi hér, þ.e. að kynna betur uppboðin, þá muni sem á uppboðinu eru, áður en uppboðið fer fram þannig að mönnum gefist kostur á að skoða þá með einhverjum fyrirvara, en samt sem áður færi uppboð fram en ekki sala eins og í venjulegri verslun því ég held að erfitt sé að taka réttinn af veðhafa til að krefjast uppboðs. Þetta mundi að sjálfsögðu þýða að þarna þyrfti mikið húsrými og allumfangsmikla starfsemi, en sennilega mundi það í sumum tilvikum auðvelda eigendum að fá heldur meira verð út úr sínum munum en það sem fæst með núverandi tilhögun. En eins og hv. þm. sagði mun það oft ekki nægja einu sinni fyrir þeim kostnaði sem krafist er vegna uppboðsins og þeirrar kröfu sem á þessum munum hvíla.

Þetta atriði hefur verið til umræðu og athugunar, en menn hafa ekki komið auga á einfalda leið til úrbóta.