23.10.1986
Sameinað þing: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

49. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 49, um lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks. Flm. ásamt mér er hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að fela fjmrh. að beita sér fyrir því að þeim, sem eingöngu sinna heimilisstörfum, verði tryggð lífeyrisréttindi eigi síðar en 1. júní 1987.

Sérstaklega skal athuga aðild þeirra að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.“

Málefni heimavinnandi fólks hafa verið hér til umræðu á þessu þingi, þannig að ég sé út af fyrir sig, herra forseti, ekki ástæðu til þess að hafa um þetta mál mörg orð. Það eru allir sammála um, virðist vera, a.m.k. í ræðu og riti, þýðingu og mikilvægi heimilisstarfa og allir um það sammála að heimavinnandi fólk fer á mis við ýmis félagsleg réttindi sem öðrum eru tryggð. Aftur á móti fer minna fyrir því að menn komist að niðurstöðu um úrlausnir til að tryggja heimavinnandi fólki þau félagslegu réttindi sem aðrir hafa. Ég minnist þess t.d., herra forseti, að allar götur síðan ég settist á þing hafa málefni heimavinnandi fólks með einum og öðrum hætti verið til umræðu, ekki síst það að tryggja þeim lífeyrisréttindi.

Til þess er ávallt vitnað bæði í nefndarstörfum og hér í ræðustól að starfandi sé stjórnskipuð nefnd sem hafi það verkefni að leggja fram tillögur um framtíðarskipan lífeyrismála og þess vegna verði þessi þáttur mála einnig að bíða niðurstöðu frá þeirri nefnd.

Í þessu sambandi, herra forseti, minni ég á að fram kom skýrsla frá hæstv. fjmrh. - ég held að það hafi verið á síðasta þingi - yfirgripsmikil skýrsla um lífeyrismál, þ.e. um störf þeirrar stjórnskipuðu nefndar sem starfað hefur að þessu verkefni s.l. 10 ár. Það verður ekki séð af þessari skýrslu, sem fram hefur verið lögð hér á Alþingi, að í augsýn séu tillögur um framtíðarskipan lífeyrismála né heldur að á næsta leiti séu tillögur um að tryggja heimavinnandi fólki lífeyrisréttindi.

Ég tel því, herra forseti, að brýnt sé orðið og nauðsynlegt að Alþingi taki af skarið að því er þetta mál varðar. Það má með sanni segja um lífeyrisréttindakerfið að á því eru margir og stórir gallar og misréttið í lífeyrisréttindum mikið. Ég held þó að ekki sé ofsagt að eitt mesta misréttið í lífeyrisréttindakerfinu sé að heimavinnandi fólk hefur ekki lífeyrisréttindi.

Það hefur staðið upp úr hverjum manni, sem fjallað hefur um þessi mál á undanförnum árum, að á þessu máli þurfi sérstaklega að taka. Því er það, svo vægt sé að orði komist, einkennilegt að Alþingi geti ekki tekið af skarið í þessu efni. Allar tillögur, sem fram eru bornar um þetta, virðast sofna í nefnd og Alþingi Íslendinga hefur ekki einu sinni fengið tækifæri til þess að taka afstöðu til þessa máls í þingsölum.

Það má auðvitað benda á ýmis önnur atriði þar sem mikið vantar á félagsleg réttindi heimavinnandi fólks, en ég mun bíða með það því á dagskrá þessa fundar er líka annað mál sem ég flyt um réttarstöðu heimavinnandi fólks og ég mun þá geyma mér að fjalla um þann þátt málsins þar til að því máli kemur.

Ég vitnaði, herra forseti, í þá skýrslu sem fyrir liggur frá nefnd sem fjallar um lífeyrismál. Ég vil einnig vitna í nafnaskrá um lífeyrissjóðina sem fjmrn. gaf út fyrir tveimur til þremur árum. Þar má glögglega sjá hve stór hópur það er í þjóðfélaginu sem hefur ekki rétt til lífeyris úr lífeyrissjóðum. Um er að ræða 25 þúsund manns, fædd 1967 eða fyrr, sem standa utan lífeyrissjóða, þar af 17 þúsund konur. Í þessum hópi eru 8723 67 ára og eldri, þar af 6607 konur og 2116 karlar. Af þessum tölum má glögglega sjá að það kemur ekki síst harkalega niður á konum að Alþingi skuli ekki hafa tekið af skarið í þessu efni.

Ég nefndi það að ýmsar tillögur hefðu verið lagðar fyrir Alþingi sem hafa það að markmiði að tryggja heimavinnandi fólki lífeyrisréttindi. Þó að menn stefni að sama marki hafa komið fram mismunandi tillögur um hvaða leiðir eigi að fara. Ég nefni sem dæmi að tillögur hafa sést hér á Alþingi um að skipta lífeyrisréttindum milli hjóna, og tillögur hafa einnig verið uppi um það, eins og sú sem ég mæli fyrir, að athuga sérstaklega með aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda fyrir heimavinnandi fólk. Og eins hefur á þessu þingi komið fram frv. sem einnig miðar að því að tryggja heimavinnandi fólki rétt gegnum Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Þar er lögð fram sú ákveðna tillaga að ríkissjóður greiði 6%-hlutann í þann sjóð fyrir heimavinnandi fólk.

Ég tel, herra forseti, lágmark að Alþingi lýsi yfir vilja sínum til þess að heimavinnandi fólki séu tryggð lífeyrisréttindi. Ég geri mér fulla grein fyrir að það er ekki nóg, heldur þarf það mál auðvitað að komast til framkvæmda. Ég vil þó meina að hér sé um fyrsta skrefið að ræða, verði þessi tillaga samþykkt, sem að mínu mati mundi þýða það að ríkisstjórninni, og í þessu tilfelli skv. þessari tillögu fjmrh., væri skylt að leggja fyrir Alþingi frv. sem tryggði þau réttindi sem ég hef talað fyrir. Ég held einmitt að tillagan sem bent er á varðandi Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda sé vissulega ein leiðin þó ekki sé í þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir tekin afstaða til þess með hvaða hætti þetta verði fjármagnað. Þar koma til ýmsar leiðir og tel ég rétt að það yrði kannað nánar í kjölfar þess að þessi þáltill. yrði samþykkt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta mál öllu fleiri orð. Ég vil þó að lokum skora á alþm. að manna sig upp í það að taka afstöðu til þess og þá nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, að liggja ekki á málinu, heldur afgreiða það með einum eða öðrum hætti úr nefndinni, þannig að þm. sem ekki hafa tækifæri til að fjalla um þetta mál í nefnd hafi þó a.m.k. tækifæri til að sýna hug sinn til þess að heimavinnandi fólki verði tryggð lífeyrisréttindi með því að taka þátt í atkvæðagreiðslu um málið á hv. Alþingi.

Ég legg til, herra forseti, að að þessari umræðu lokinni verði máli þessu vísað til hv. félmn.