28.01.1987
Neðri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2609 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Í mjög löngu máli sínu fyrr í þessum umræðum fjallaði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mikið um byggðamálin og svo gerði einnig hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Þessum aðilum var það báðum sameiginlegt í þeirri umfjöllun að áfellast Framsfl. sérstaklega vegna þess hvað þeim þótti hann hafa dugað illa í málefnum landsbyggðarinnar. Það er kannske meginástæða þess að ég er kominn í þennan ræðustól. Mig langar að grípa á nokkrum þáttum málsins.

Hv. þm. fjallaði um fólksfækkunina á landsbyggðinni og sagði svo að „menn væru að smala fólkinu af landsbyggðinni“. Það var galli á málflutningi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að mér fannst, og það vill oft verða svo þegar fjallað er um mál úr þessum ræðustóli að mönnum láist að koma með einhverjar haldbetri leiðir til lausnar þeim vandamálum sem um er fjallað. Það var einmitt í þá gryfju sem hv. þm. báðir tveir, Hjörleifur Guttormsson og Jón Baldvin Hannibalsson, féllu.

Það er hollt fyrir menn að líta til átta í þessum málum, svo sannarlega eru þau í brennidepli í dag, og líta þá aðeins til baka áður en við förum að varða nýjan veg til framtíðar. Það eru ekki svo margir hér í salnum að þeir sjái ekki þessa töflu sem ég er með hérna fyrir framan mig og sýnir atvinnuskiptingu þjóðarinnar. (Gripið fram í: Hvaðan er þetta?) Hvaðan er þetta? Það skiptir ekki meginmáli hvaðan það er, en tölurnar eru réttar, hv. þm. (Gripið fram í: Er það öruggt?) Það er öruggt, já. Þetta er atvinnuskipting þjóðarinnar frá árinu 1960 og fram að árinu 1983. Þar kemur fram að árið 1960 voru 10,1% í fiskvinnslu, 8,2% fengust við fiskveiðar og 16% voru í landbúnaði. Í iðnaðinum voru 15,5% og við byggingariðnað 10,7%, en í þjónustugreinunum voru þetta 39,5%. Árið 1983 er þetta hins vegar orðið svo að í fiskvinnslunni eru 9%, í fiskveiðunum 5% og landbúnaðurinn, sem var með 16%, er kominn ofan í 6%. (KP: Hverjir réðu ferðinni?) Frá 1960 til 1983? Þar komu margir við sögu. Þar er ekki við neinn einn flokk að sakast, hv. þm. Karvel Pálmason. Við komum kannske aðeins að því síðar. Iðnaðurinn heldur sínum hlut bærilega. Hann var með um 15,5% árið 1960, en er með 15% árið 1983 og svo gerir byggingariðnaðurinn einnig. En þjónustugreinarnar, sem voru árið 1960 með 39,5%, eru komnar árið 1983 með 55%. Þetta sýnir okkur hver þróunin hefur verið og þetta er ekki að gerast hjá okkur í dag.

Ég gat þess hér í gær þegar menn töluðu um vandann í landbúnaðinum að þar er vissulega að mörgu að hyggja. Alþýðubandalagsmenn tala nú hvað hæst í þeim efnum og vilja láta líta á sig sem einhverja sérstaka vini bændanna. Mér er það minnisstætt að fyrir einar kosningarnar, ég held að það hafi verið um það bil sem ég var að byrja af alvöru í pólitík, þá gáfu þeir út blað þar sem þeir voru að kynna áhuga sinn á landbúnaðinum og hvað þeir teldu að væri nauðsynlegt að gera fyrir bændafólkið í landinu, dreifðu þessu með Þjóðviljanum sínum. En það var merkilegt við þetta blað að bændablaðið fór aðeins til bændanna sjálfra. Það fékk enginn þéttbýlisbúi að sjá. Það féll nefnilega ekki saman við annan málflutning Alþýðubandalagsmanna. Þeir þurftu að tala alveg sérstaklega við bændur. Þetta finnst mér koma víðar fram í málflutningi þessara manna, því miður.

Ef við skoðum nú ársverkin, og ég ætla að fara aðeins meira í tölur um þann mikla fólksflótta sem menn eru að tala um af landsbyggðinni, þá er ég hérna með tölur fyrir framan mig frá árinu 1971 til ársins 1986 sem sýna hvernig þróunin hefur verið. Það tekur ekki langan tíma að renna yfir þetta. Þá sjáið þið að á Vesturlandi hefur á þessu tímabili fjölgað á tíu árum, en orðið fólksfækkun á fjórum árum. Á Vestfjörðum hefur fjölgað á þessu tímabili á átta árum en fækkun verið á fimm árum. Frá 1971 er þetta þannig á Norðurlandi vestra að þar hefur þó fjölgað fólki í ellefu ár á þessu tímabili, en hins vegar hefur þar fækkað því miður á þremur árum. Mest er þó fækkunin á þessu ári. Í Norðurlandi eystra hefur fjölgað á þessu tímabili á tólf árum en fækkað á þremur árum. Á Austurlandi hefur fjölgað á fjórtán árum en fækkað aðeins á einu ári. Það var árið 1984 en þá fækkaði um 0,2%. Á Suðurlandi hefur fjölgað á þrettán árum en fækkað á tveimur árum.

Þetta segir okkur nokkra sögu og ég held að menn ættu að fjalla um þessi mál á annan hátt en menn hafa gert hér ef við viljum reyna að leita lausnar á því vandamáli sem við er að fást í hinum dreifðu byggðum landsins.

Það þarf enginn að vera hissa á því þó það hafi hrikt víða í á landsbyggðinni miðað við það tímabil sem við höfum nú verið að ganga í gegnum. Þar er ég að tala um bæði það sem hefur gerst hjá okkur í sjávarútvegi og einnig það sem gerst hefur í landbúnaðarmálunum. Það þarf enginn að vera hissa á þeim málum.

Einnig er athyglisvert að líta aðeins á aðrar tölur sem er aukning ársverka án landbúnaðar - og ég tek það fram: aukning ársverka án landbúnaðar eftir kjördæmum. Það er merkileg viðmiðun ef við tökum landbúnaðinn einan út, þá ættum við að fá nokkurn samanburð í þessum efnum.

Jón Baldvin Hannibalsson vék nokkuð að þessu atriði í sínu máli en þetta er tafla úr Vinnumarkaðnum 1984. Þar kemur fram að á Reykjanesi er þessi fjölgun mest, ársverka án landbúnaðar, 12,4%. En hver skyldi vera næstur? Hvaða staður eða hvaða svæði, hvaða kjördæmi landsins ætli komi næst í fjölgun ársverka án landbúnaðar? Reykjavík? Nei, það er nefnilega ekki Reykjavík sem kemur næst heldur er það Norðurland vestra sem kemur næst með 9,1%. Reykjavík er hins vegar með 6,8%, er þar í 3. sæti. Vesturland er með 3,9%, Vestfirðirnir 5,1%, Norðurland eystra 5,5%, Austurland 5,7% og Suðurland 4,7%. Þetta sýnir okkur þróunina. Og það hefur vissulega á þessum árum verið reynt að gera átak í þessum málum. Þetta sýnir okkur að veruleg uppbygging hefur átt sér stað í þjónustugreinum á hinum ýmsu stöðum á landinu og við skulum ekki vanmeta það.

Þetta hefur gerst á sama tíma og tekist hefur að koma verðbólgunni úr 130% niður í um 10% og það hefur tekist án þess að til kæmi atvinnuleysi. En á einu einasta ári viðreisnarstjórnarinnar sálugu, sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var að tala hér um, töpuðust hvorki meira né minna en 740 000 vinnudagar vegna atvinnuleysis og verkfalla. Við erum að tala um 0,7% atvinnuleysi á s.l. ári. Það er gott fyrir stuðningsmenn væntanlegrar viðreisnarstjórnar að hugsa til þessara ára. Það er ljóst að fyrir okkur sem landsbyggðina byggjum eru þetta örugglega ár hinna glötuðu tækifæra og ég vonast til þess að menn átti sig á því að kalla ekki slíkt yfir sig aftur. Þessar tölur, sem ég hef hér verið að lesa, sýna okkur og sanna hvar atvinnuuppbyggingin hefur verið og hvenær hún hefur verið.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom einnig í sínu spjalli inn á nýju sveitarstjórnarlögin. Því miður missti ég af ræðu hæstv. félmrh. Ég reikna fastlega með því að hann hafi svarað því, en hv. þm. var ákaflega undrandi á því gerræði að þm. leyfðu sér að samþykkja nýju sveitarstjórnarlögin. Það er ekki óeðlilegt að menn staldri þar við þegar menn eru að fjalla um þessi mál. Það er slæmt að hv. þm. er ekki hér, en það er nauðsynlegt að minna hann á að Samband ísl. sveitarfélaga mælti mjög með afgreiðslu þessa máls og hvetti beinlínis til þess að sveitarstjórnarlögin næðu fram að ganga. Það er fásinna að halda því fram að ekki hafi verið haft samráð eða samtöl farið fram á milli manna í þessum efnum þegar Samband ísl. sveitarfélaga ekki bara biður um heldur hvetur þm. til að samþykkja það frv.

Hv. þm. eyddi líka nokkrum tíma ræðu sinnar til að fjalla um skiptingu aflaverðmætis upp úr sjó eftir kjördæmum landsins. Það var út af fyrir sig mjög fróðleg lesning. En það var einn galli þar á. Hv. þm. talaði aðeins um árið 1984. En til þess að fá yfirsýn yfir málið er nauðsynlegt að skoða málið allt, ekki síst ef menn vilja lesa eitthvað út úr þeim prósentum sem gætu bent okkur eitthvað til vegar um þróun byggðar í landinu. Þess vegna ákvað ég að skyggnast inn í þessi mál og sé ástæðu til að hafa yfir þm. ítarlegri tölur en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði.

Ég geri mér grein fyrir því að þessar tölur segja okkur ekki nákvæmlega allt um byggðamál og afkomu einstakra kjördæma. Tökum t.d. loðnubátana á Reykjavíkursvæðinu. Þeir leggja upp í hinum ýmsu kjördæmum landsins. Ég geri mér því grein fyrir að þetta er ekki alveg hundrað prósent rétt viðmiðun út af fyrir sig. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði ekki fyrir því að geta þess í sínum tölum, en ég sé hins vegar ástæðu til að gera það.

Á Suðurlandi voru þetta árið 1970 um 13,1%, 1984 11,6%, en var 1985 komið í 9,8%. Reykjavík og Reykjanes voru árið 1970 með 25,3%, árið 1984 20,3%, en 1985 var þetta komið niður í 17,3%. Á Vesturlandi var þetta árið 1970 um 7%, fór upp í um 10%, en árið 1984 var þetta komið niður í 9,6% og 1985 í 8,7%. Vestfirðirnir voru árið 1970 með 9,2%, fóru upp í 12,9%, en 1985 voru þeir með 10%. Rétt er að taka fram að árið 1984 voru þeir með 12,9%, en voru komnir ofan í 10% 1985. Norðurland eystra var með 6,3% 1970, en árið 1985 er Norðurland eystra komið úr 6,3% upp í 13,2% og Austfirðir úr 10,3% upp í 14,9%. Norðurland vestra, þar sem fækkunin er hvað mest á s.l. ári, var með 2,1% árið 1970. Árið 1985 er Norðurland vestra komið með 7,9%. Þetta sýnir okkur hver þróunin er og að hverju menn hafa verið að vinna. Þeir sem halda því fram að hér hafi ekki verið reynt að vinna að framgangi landsbyggðarinnar og að byggðamálum koma svo sannarlega af fjöllum.

Athyglisvert er að erlendis er landað árið 1970 26,7%, en 1983 og 1984 losar þetta rétt um 10%. 1985 er þetta komið upp í 18,2%. Það er hér á suðursvæðinu og trúlega nokkuð á Vestfjörðum sem við sjáum að það er um meiri útflutning að ræða og trúlega er það gámaútflutningurinn sem kemur þar töluvert mikið inn í.

Ég held að þetta sýni okkur betur en margt annað að menn hafa verið að byggja upp atvinnutækifæri úti á landsbyggðinni og ég segi að hér hefur komið hvað frekast til byggðastefna Framsfl. Þessar tölur sanna okkur það betur en margt annað.

Ég verð að segja að ég hlustaði af nokkurri athygli á hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson þar sem hann fjallaði í ræðu sinni um sjávarútvegsmálin. Ég viðurkenni að þar fannst mér margt rétt sagt og kveða við nokkuð annan tón en mér hefur fundist áður vera. Ég skal ekki segja um hvort þar getur spilað eitthvað inn í að formaður kvótanefndar er orðinn fyrsti maður á framboðslista Alþfl. í Reykjavík, en alla vega var talað í nokkuð annarri tóntegund en hv. ræðumaður hefur áður gert þegar hann hefur fjallað um sjávarútvegsmálin.

Hver man ekki umræður um stjórnun fiskveiða? Hver man ekki allt talið um að stjórnun fiskveiða mundi leiða atvinnuleysi og kreppu yfir landsbyggðina? Hver man ekki allt það spjall? Það er ekkert vafamál að það þurfti að taka til hendi í sjávarútvegsmálum og það þurfti þó nokkurn kjark til að taka á þeim málum þá. Stjórnarandstæðingar drógu ekki af sér á þeirri tíð að reyna að gera þessa stjórnarstefnu og stefnu núverandi sjútvrh. eins tortryggilega og hægt var, en ég er að minnsta kosti sannfærður um að við máttum ekki þar seinni vera. (GJG: Voru ekki allir stjórnarandstæðingar þrælklofnir í málinu?) Jú, stjórnarandstæðingar voru það og að vísu hef ég heyrt suma segja það úr stjórnarliðinu líka að þeir væru ekki allir kvótamenn. Það er rétt.

En til þess að menn glöggvi sig á stöðunni, hvert við vorum komnir þegar gripið var til þessara ráða, er fróðlegt að skyggnast aðeins um. Árið 1960 var þorskaflinn við Grænland um 450 000 tonn. Árið 1985 veiddust aðeins um 14 000 tonn við Grænland. Hér voru menn sem töldu að það væri allt í lagi að halda áfram slíkri veiði eins og viðgengist hafði.

Auðvitað má öllu ofgera í þessum efnum sem og öðrum. Hvar stæðum við Íslendingar nú ef slíkt hefði hent? Það kom í hlut Framsfl. að hafa frumkvæði að mótun skynsamlegrar fiskveiðistefnu þar sem fjórir meginpunktar voru hafðir að leiðarljósi. Að okkur tækist að lifa af ávöxtum þess er hafið gefur án þess að ganga um of á höfuðstólinn sjálfan. Að auka hagkvæmni í sókn. Að auka gæði og nýtingu aflans. Að auka fjölbreytni veiðanna.

Hér í þingsölum töldu menn og víðar að þetta væri einhver allsherjar eyðingarstefna og mundi leggja allt í rúst. Annað hefur komið í ljós. Talið er að um 10% sparnaður hafi náðst í útgerðarkostnaði á botnfiskveiðiflotanum á árinu 1985 og það er staðreynd að afkoma þessarar undirstöðuatvinnugreinar okkar Íslendinga hefur ekki verið jafngóð í fjölda, fjölda ára.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Jón Baldvin Hannibalsson komu einnig inn á húsnæðismálin og töldu að þar væri allt að fara norður og niður og ekkert vafamál hver sökudólgurinn væri. Auðvitað var það Framsfl. sem þar bar höfuðábyrgð. (Gripið fram í.) Það er rétt, segir formaður Alþýðubandalagsins. Hann fór nú einu sinni með þennan málaflokk og það var mitt hlutskipti að starfa með honum að húsnæðismálunum þegar ég gerðist þm. og ég man hvernig það fór allt saman fram. (Gripið fram í: Er ástæða til að rifja það upp?) Nei, ég ætla ekki að rifja það upp. (SvG: Láttu vaða.)

Við skulum aðeins halda okkur við staðreyndirnar í dag. Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri húsnæðisstjórnar, segir um nýja húsnæðislánakerfið að þar sé ekki aðeins um breytingar að ræða heldur sé þar frekar að tala um byltingu. Hann segir að það séu gífurlega miklar og jákvæðar breytingar fyrir þá sem við eiga að búa. Það er vissulega rétt að samdráttur hefur orðið í húsbyggingum landsbyggðarinnar meðan þessi mál sem ég hef gert að umtalsefni hafa verið í smíðum og menn hafa verið að reyna að færa til betri vegar. En hvað er svo að frétta í dag af þessum málum þegar menn telja sig sjá svartnættið eitt?

Í fréttabréfi frá Húsnæðisstofnun segir, með leyfi herra forseta:

„Á vegum upplýsingavinnslu Húsnæðisstofnunar hefur verið gerð tölfræðileg athugun á fyrstu umsóknum samkvæmt nýja lánakerfinu er stofnuninni hafa borist. Er þar um að ræða umsóknir um byggingarlán og lán til kaupa á notuðu húsnæði, þ.e. F-lán og G-lán. Skipting umsókna eftir landshlutum vekur vissulega athygli. Á undanförnum árum hefur hlutur landsbyggðarinnar í lánveitingum Húsnæðisstofnunar dregist saman þannig að hlutur landsbyggðarkjördæmanna sex, þ.e. fyrir utan Reykjavík og Reykjanes, í byggingarlánum, F-lánum, og lánum til kaupa á notuðu húsnæði, G-lánum, frá Byggingarsjóði ríkisins var aðeins rúm 20% árið 1985.“

Núna fyrir áramótin var farið yfir þessi mál og umsóknir sem borist höfðu. Hvað kom þá í ljós? Þá kom í ljós að hlutur landsbyggðarinnar af öllum umsóknum var kominn upp í nær 40%. Það er erfitt þegar menn sjá alls staðar myrkur og það jafnvel um miðjan dag. Ég held að þeir menn sem vilja fjalla um vanda landsbyggðarinnar ættu að gera það á annan hátt en þeir hafa verið að gera og ég hef minnst a áður.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson fjallaði einnig um skólamálin og áhrif skólamálanna á landsbyggðina og þróunina þar. Við skulum aðeins litast þar um og skoða málin, hvað hefur verið að gerast.

Ef skyggnst er til framtíðarinnar er öllum hugsandi mönnum ljóst að það er bæði rétt og okkur Íslendingum nauðsynlegt að fjárfesta meira í menntun en við höfum áður gert ætlum við okkur að byggja það land sem getur boðið þegnum sínum hliðstæð lífskjör og gerast best meðal annarra þjóða. Þetta held ég að við hljótum öll að geta verið sammála um. Hin mikla fjölgun nemenda í Háskóla Íslands sannar okkur betur en nokkuð annað að það uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið við byggingu skóla á landsbyggðinni hefur skilað sér og það ríkulega.

Ég ætla aðeins að nefna nokkur dæmi þannig að menn átti sig á því hvað hefur verið að gerast á þessum síðustu árum. Ég minni á uppbyggingu Fjölbrautaskólans á Akranesi. Ég minni á uppbyggingu Menntaskólans á Ísafirði. Ég minni á uppbyggingu Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki. Ég minni á byggingu Verkmenntaskólans á Akureyri. Ég minni á byggingu Menntaskólans á Egilsstöðum. Ég minni á byggingu Fjölbrautaskólans á Selfossi og ég minni á byggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Ætla menn svo að halda því fram að það hafi ekkert verið gert í þessu máli? Vissulega hefur margt verið gert. Ég er sannfærður um að sú mikla fjölgun sem orðið hefur í Háskóla Íslands er fyrst og fremst vegna þess að ungu fólki á landsbyggðinni voru með þessu búin betri skilyrði til mennta en áður var gert. Nú er það hins vegar okkar að sjá til þess að þetta fólk geti að námi loknu snúið heim og fengið þar störf við sitt hæfi. (Gripið fram í: Allir sálfræðingar, já.) Nei, það eru ekki allir sálfræðingar en víða í kjördæmunum eru þeir til, það er rétt, og við höfum fjallað mikið um það undanfarna daga.

Ég ætla ekki að eyða lengri tíma, herra forseti, í spjall um þessi mál. Þó gæti ég gert það vegna þess hvað mér fannst þessir tveir menn víkja mikið að byggðamálunum sérstaklega og þá Framsfl. Ég held hins vegar að við eigum eftir kannske innan fárra daga að taka upp umræðu um byggðamálin, ég veit að svo mun verða og þá er ég viss um að verða hér líflegar umræður. (EBS: Er þetta ekki allt í góðu lagi?) Nei, ég gat. um það, hv. þm. Ellert B. Schram, þm. Reykv., að það væri við viss vandamál að fást og ég gat um hver þau væru úti á landsbyggðinni. En það er blinda að sjá ekki það sem menn hafa verið að gera til þess að reyna að sporna þar við fæti.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson vék að blaðagrein sem Sigurður Guðmundsson, starfsmaður Byggðastofnunar, skrifaði í Morgunblaðið og blaðið síðan lagði út af. Það má koma því að að Byggðastofnun vinnur nú mjög að því að reyna að rétta hlut landsbyggðarinnar og kanna hvernig við megum bregðast við þeim vanda sem ég gat um í upphafi máls míns sem fyrst og fremst á sér stað í sveitum landsins. En það er mikill misskilningur og þekkingarleysi manna ef þeir halda að vandamálið á landsbyggðinni sé eingöngu vegna þess að fólk hafi ekki atvinnu. Það er mikil einföldun. Á mörgum stöðum á landsbyggðinni þar sem fólk hefur flutt í burtu er mikil atvinna og allbærilegar tekjur, það er ekki af því sem fólk er að flytja. Það eru aðrir þættir sem við verðum að standa saman um að byggja upp, sem landsbyggðarfólk krefst og þarf að fá.

Eitt af því er t.d. hugmynd Byggðastofnunar um að byggja upp stjórnsýslumiðstöðvar í kjördæmum landsins til þess að flytja vald frá Reykjavík og færa það nær fólkinu sem þar byggir. Þetta mál er í mikilli umfjöllun og ég er sannfærður um að það er ein leiðin til þess að rétta hlut landsbyggðarinnar. Hins vegar verð ég að segja það í sambandi við verkefnaflutninginn að ég er talsmaður þess að verkefni verði í auknum mæli flutt frá ríki til sveitarfélaga, en það verður ekki gert án þess að séð verði til þess að fjármagn fylgi þar með. Ég er sannfærður um það að sveitarstjórnarmenn eru fyllilega hæfir til að fjalla um þau mál miklu meira en hingað til hefur verið gert og ég er því mjög fylgjandi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þennan fund meira um sinn en ég er sannfærður u.m það að áður en við skiljum í vor eigum við eftir að taka upp allsnarpa umræðu um byggðamálin o;g þá getum við farið ítarlegar yfir sviðið