29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2621 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Tillaga um skipun nefndar sem kanni möguleika á og geri tillögur um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum var lögð fram á fundi utanríkisráðherranna í Svíþjóð á s.l. ári af utanríkisráðherra Danmerkur. Hún var áfram til umræðu á fundi utanríkisráðherranna í ágústmánuði s.l., fundi sem haldinn var í Kaupmannahöfn, og þar var skrifstofustjórum ráðuneytanna falið að athuga hvort grundvöllur væri fyrir stofnun slíkrar nefndar embættismanna og gert ráð fyrir því að utanríkisráðherrarnir gætu tekið afstöðu til málsins á fundi sem verður hér í Reykjavík í marsmánuði n.k. Könnun skrifstofustjóranna stendur yfir, en meðal þess sem þeir eru að athuga eru verkefni og verksvið hugsanlegrar nefndar embættismanna og ætlunin, eins og ég gat um, að því verði lokið fyrir þennan fund ráðherranna.

Á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna hef ég sérstaklega gert grein fyrir því sem fram kemur í ályktun Alþingis um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum, ályktuninni frá 23. maí 1985, en þar er hvatt til þess, með leyfi forseta, „að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnavopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því, sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu.“ Ég hef lagt áherslu á þessi atriði, þ.e. að svæði án kjarnavopna nái einnig til svæða þar sem vitað er um kjarnavopn en ekki aðeins til Norðurlanda sem allir vita að eru kjarnavopnalaus.

Flestir hljóta að vera sammála um það að verr væri af stað farið en heima setið ef hafsvæðunum umhverfis Norðurlönd, svo og kjarnavopnabúrum í nágrenni þeirra, svo sem Kolaskaga, yrði sleppt úr allri umfjöllun um þetta efni á vettvangi norræns samstarfs. Ef það verður gert eru menn að loka skilningarvitum sínum fyrir þeirri ógn og fyrir þeirri hættu sem raunverulega er við að fást. Ég met það svo að það sem í ályktun Alþingis stendur sé forsenda umræðna af okkar hálfu á þessum vettvangi varðandi hugmyndina um kjarnavopnalaust svæði.

Ég mun að sjálfsögðu greina utanrmn. frá framvindu þess starfs sem verið er að vinna til undirbúnings fundi norrænu utanríkisráðherranna. Með tilvísun til þess sem ég hér hef sagt sýnist mér að samþykkt á slíkri till. sem hér liggur fyrir væri til þess að rjúfa þá samstöðu sem náðist á Alþingi 1985.