29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2633 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni frá hv. þm. Svavari Gestssyni er mér ljúft að lýsa því yfir að skoðanir mínar hafa í engu breyst frá því að ég talaði á fundinum í Kaupmannahöfn haustið 1985 og raunar ekki heldur frá því að við einróma samþykktum hina merku ályktun frá 23. maí það ár. Ég efast um að við eigum eftir að betrumbæta þá till. mikið. Hún hefur haft veruleg áhrif, t.d. á hinum Norðurlöndunum þar sem sósíaldemókratar eru farnir að ræða um að svæðið verði að vera stærra en bara Norðurlönd ef það á að verða að einhverju gagni. Þannig var t.d. í stefnuræðu Gro Harlem Brundtland, þegar hún tók við forsætisráðherrastörfum, einmitt um það getið að slík svæði yrðu að ná langt út fyrir Norðurlönd einangruð. Ég hygg að jafnvel Svíar og Finnar séu nú að gera sér grein fyrir því að slíkar yfirlýsingar eru tilgangslausar og ræða nú um að Eystrasalt t.d. yrði að vera innifalið í slíku svæði. Þessi ályktun hefur því þegar haft mikil áhrif og á eftir að hafa þau miklu meiri.

Ég þarf að sjálfsögðu ekki að rifja neitt af því upp sem sagt var í Kaupmannahöfn. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson hefur gert það, gert grein fyrir sjónarmiðum okkar þeirra þriggja sjálfstæðismanna sem þar töluðu, og litlu við það að bæta. Það má bara geta þess að þessar umræður hafa nú verið gefnar út og allar ræðurnar eru tiltækar hverjum þeim sem vill kynna sér þær.

Ég vil auk þess geta þess að þessi mál eru til umræðu í utanrmn., voru síðast á fundi í desember teknar fyrir, allar þær tillögur sem þá voru til nefndarinnar komnar. Undirnefnd hefur starfað að þessum málum og starfar enn. Það verður fundur í utanrmn. á mánudaginn og þar mun hæstv, utanrrh. greina frá fundi skrifstofustjóra utanríkisráðuneyta Norðurlandanna sem haldinn var nú fyrir nokkrum dögum og eins hver framvindan muni verða á næstu vikum. Málið er því í umræðu og verður. Ég hygg að ég þurfi ekki að skýra mál okkar sjálfstæðismanna neitt frekar en hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson gerði.