29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2637 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í umræðum hér nú hafa verið settar fram fsp. til mín varðandi þetta mál, þ.e. afvopnunarmálið. Í fyrsta lagi þá vék hv. 5. þm. Reykv. að því hvort þetta mál hefði verið rætt við utanrrh. Danmerkur og Noregs sérstaklega, þ.e. við þrír ráðherrar landa sem eru í Atlantshafsbandalaginu. Hann var auk þess með hugleiðingar um hvort málið verði til umfjöllunar hjá Atlantshafsbandalaginu og spurði um mína afstöðu í þeim efnum.

Um leið og ég hef rætt þetta mál við utanríkisráðherra Danmerkur og Noregs þá hef ég gert þeim grein fyrir þeim sjónarmiðum sem koma fram í skýrslu til Alþingis frá því í apríl á s.l. ári þar sem vikið er að því í kaflanum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum á bls. 13. Með leyfi forseta, þá segir þar:

„Ég legg áherslu á þann þátt í ályktun Alþingis að í umræðu um kjarnavopnalaus Norðurlönd sé tekið tillit til stærra svæðis en Norðurlandanna sem þegar eru kjarnavopnalaus. Einnig vil ég árétta að ríki Atlantshafsbandalagsins starfa sem heild í öryggis- og varnarmálum. Vettvangur umræðu um kjarnavopnalausa Norður-Evrópu eða Norðurlönd er fyrst og fremst innan Atlantshafsbandalagsins. Tel ég afar mikilvægt frá sjónarhóli íslenskra öryggishagsmuna að við Íslendingar stöndum vörð um þessa grundvallarstarfsreglu Atlantshafsbandalagsins.“

Hér liggur það alveg ljóst fyrir, hér er það svart á hvítu, hvert er mitt sjónarmið í þessum efnum. Við vitum, gerum okkur grein fyrir um hvað er verið að tala. Og það gefur mér tilefni til að víkja nokkuð að því sem hv. 3. landsk. þm. sagði og spurði um. Í ályktun Alþingis frá því 23. maí 1985 segir að um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnavopn, hvetur það til að könnuð verði samstaða um og grundvöllur. Í því er nú gátan fólgin, hver er grundvöllurinn. Ég hef gert grein fyrir því að sá grundvöllur sem við byggjum á er fram tekinn í þál. frá 1985: Fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu jafnt á landi, í lofti, sem á hafinu eða í því, sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu. Þegar verið er að ræða það að setja niður nefnd embættismanna, ja erfitt þætti mér sem embættismanni að setjast í nefnd og vita ekki hvert væri verksvið nefndarinnar sem ég ætti að starfa í. Þess vegna hef ég lagt á það áherslu á fundum utanrrh. að fyrst verði markað verksvið nefndarinnar og þegar það liggur fyrir þá hafa menn tækifæri til þess að taka afstöðu til nefndarskipunarinnar. (SvG: Hvaða verksvið vill ráðherrann að nefndin hafi?) Verksviðið er tekið hér skýrt fram í þál. frá 1985 og því hefur ráðherrann hvað eftir annað lýst yfir að hún sé hans leiðarljós í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um þessi mál á vettvangi ráðherra Norðurlandanna.

Svo komum við að Stokkhólmsfundinum, því að hv. 3. landsk. þm. vék að Stokkhólmsfundinum og sagði að ég hefði ekki tekið afstöðu, það er alveg hárrétt. Ég tók ekki afstöðu. Hér stóð þessi hv. þm. upp í ræðustól skömmu áður en farið var til þess fundar og spurði: Er það ekki alveg öruggt að ráðherrann taki ekki afstöðu á fundinum? Og svo spurði hann annarrar spurningar: Er það ekki alveg öruggt að ráðherrann mun fylgja þál. frá 1985? Ég svaraði ekki en hér stóð upp þm. Páll Pétursson og sagðist vera sannfærður um það að ráðherrann tæki ekki afstöðu, ég hafði áður sagt það á utanríkismálanefndarfundi, og hann treysti ráðherranum til þess að fara að ályktun Alþingis frá því í maí á s.l. ári. Ég gerði síðan utanrrn. grein fyrir því sem fram fór á þessum fundi. Síðan var haldinn fundur í Kaupmannahöfn seinna á árinu þar sem ráðherrarnir komu sér saman um það að fela yfirmönnum stjórnmáladeilda ráðuneytanna að vinna að því hvert verkefni og verksvið slíkrar nefndar ætti að vera ef til stofnunar hennar kæmi. Það var réttilega bent á það að óvissan í umræðunni stafar auðvitað af því að menn hafa ekkert komið sér niður á það, orðið sammála um, um hvað slík nefnd ætti að fjalla. Og á meðan það liggur ekki fyrir, er þá hægt að ætlast til þess að tekin sé afstaða með eða á móti? Það liggur alveg ljóst fyrir af minni hálfu að verði ekki farið að ályktun Alþingis frá 1985, þá tel ég ekki ástæðu til skipunar slíkrar nefndar.

Ég gat ekki annað heyrt en að hv. 3. landsk. þm. misskildi að einhverju leyti þessa nefndarskipun sem aðstoðarnefnd fyrir þingmenn. Í upphafi held ég að slíkt hafi ekki verið þó svo að nefndir á vegum ríkisstjórna og á vegum Norðurlandaráðs séu oft til þess að aðstoða þingmenn. Ef slík nefnd yrði skipuð, tæki til starfa, þá efast ég ekkert um að samstarf yrði á milli ríkisstjórnarinnar og þingmanna í þeim efnum. En í upphaflegu hugmyndinni, sem kom frá danska þinginu og utanríkisráðherra Danmerkur flutti, lá ekkert fyrir hvert verksvið nefndarinnar ætti að vera né undir hvaða kringumstæðum henni væri ætlað að starfa. Það er ekki fyrr en farið er að ganga eftir því að síðan hefur verið unnið að skoðun á verkefni fyrir nefndina, verksviði þessarar nefndar.

Hvað knýja menn á stórveldin með því að endurtaka það að öll Norðurlöndin séu kjarnorkuvopnalaust svæði? Við knýjum á með því að taka alla Norður-Evrópu, fá tryggingu fyrir því. Í því liggur það.

Varðandi fsp. um skýrslu um utanríkismál þá er þegar hafin vinna við gerð hennar og ég mun reyna að leggja hana svo fljótt fyrir Alþingi sem mögulegt er, en ég veit að hv. þm. gera sér grein fyrir því að það tekur nokkurn tíma. Ég er út af fyrir sig sammála því að við eigum að gefa okkur betri tíma en gert hefur verið til þess að ræða hana þegar hún liggur fyrir þinginu.