29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það hefur kannske skýrst örlítið þetta mál. Mér sýnist að það liggi þannig að Alþfl. ætli náðarsamlegast að taka þátt í þingmannanefndinni áfram undir forustu Ankers Jörgensen með virkum hætti svo sem verið hefur og að Sjálfstfl. muni hins vegar láta það ógert með þeim rökum að hugmyndin sé svo óljós, óskaplega óljós og erfitt að skilja hana að hann treysti sér ekki til að ræða málið, hræddur auðvitað við að verða fyrir áhrifum af þessu liði þarna í Skandinavíu. Með embættismannanefndinni er það þannig að Alþfl. hefur lýst því yfir að hann sé á móti því að hún verði skipuð með þeim rökum að hún sé óviðeigandi og óeðlileg. Einu rökin sem hv. þm. nefndi voru þau að embættismenn ættu að þjóna stjórnvöldum og þess vegna væri ekki rétt að setja niður svona nefnd.

Ég veit ekki hvort ég á að fara að pexa við hv. þm. um þetta. Ég get kannske gert tilraun til að rökræða þetta mál pínulítið ef menn vilja taka þátt í einhverri rökræðu í alvöru hér um þessi mál og eru ekki búnir að læsa sig fasta ofan í einhverjar skotgrafir sem þeir komast ekki upp úr, einkum þeir sem þurfa alveg sérstaklega á því að halda að sanna að þeir séu vinir hinna vestrænu lýðræðisþjóða til þess að fortíðin varpi ekki skugga á forustu þeirra fyrir flokki íslenskra jafnaðarmanna. En eins og kunnugt er vorum við um skeið saman í flokki, ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, og honum veitir auðvitað ekki af því að sverja af sér þessa fortíð og er þá gjarnan hægra megin við haukana ef hann mögulega getur og svo er hann náttúrlega í atkvæðastríði þessa dagana, karlanginn, eins og gengur, með leyfi hæstv. forseta.

Það sem ég vildi koma á framfæri í þessu máli er það að ég tel að það sé nauðsynlegt ef þessi umræða á að ganga áfram, ef menn vilja að hún gangi áfram, hvaða skoðun sem menn hafa á málinu út af fyrir sig held ég að það sé æskilegt að utanríkisráðuneytin séu upplýst um þróun mála, séu inni í því sem er að gerast og verið er að ræða um hjá þingunum. Gott dæmi um slík forkastanleg vinnubrögð, ef nota má röksemdir hv. 5. þm. Reykv., er utanrmn. Alþingis Íslendinga. Það kemur iðulega fyrir, ég held reyndar á hverjum fundi nefndarinnar, að þar eru embættismenn, þessir sauðmeinlausu embættismenn sem hv. 5. þm. Reykv. var að tala um hér áðan. Þar kemur líka hæstv. utanrrh. og það má auðvitað ýmislegt að því finna að það skuli aldrei vera haldinn fundur í nefndinni án þess að kalla framkvæmdarvaldið til. En allt um það, menn hafa unað þessu og þetta hefur gengið út af fyrir sig bærilega. Þarna koma þessir embættismenn með ýmsa gagnlega pappíra, ganga skikkanlega frá fundargerðum, koma þeim til skila. Ég held að þetta sé heldur til bóta yfirleitt. Og ég skil ekki af hverju það þarf þá endilega að vera svo fráleitt að norrænir embættismenn komi að þessu máli og skrifi skýrslu til að skýra málið, skýra hugmyndina um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, fara yfir hana rækilega, tína saman meðrök og mótrök eins og gengur, fara yfir þær áherslur sem uppi eru um að þetta kjarnorkuvopnalausa svæði eigi þegar í upphafi að ná til mikið stærra svæðis, fara yfir meðrök og mótrök. Er það ekki einfaldlega aðferð lýðræðisins að menn tali saman og beri saman meðrök og mótrök og komist svo að niðurstöðu eftir að hafa skipst á skoðunum eins og viti bornar verur? Þess vegna skil ég ekki alveg af hverju menn eru að setja sig í þessar stellingar að þetta sé eitthvað af hinu vonda.

Hæstv. utanrrh. sagði að hann mundi vera inni á því að setja niður svona nefnd ef hún fjallaði um mál með svipuðum hætti og ætlast var til af Alþingi á sínum tíma. Hvað er á móti því að hæstv. utanrrh. beini því til kollega sinna að það verði farið yfir málin með einhverjum slíkum hætti? Ég sé ekkert á móti því. Ég sé ekki að hæstv. utanrrh. Íslands þurfi fyrir fram að setja sig í stellingar í þessu máli og gefa sér það að kollegar hans á Norðurlöndum séu svo skilningsvana og skilningssljóir að það sé útilokað að leiða þá í sannleika um þau viðhorf sem uppi eru á Alþingi Íslendinga í þessu máli. Ég held að málið sé ekki þannig. Ég held satt að segja að það sé nauðaeinfalt, ef menn vilja, að koma saman með erindisbréfið fyrir embættismannanefnd til að greiða úr þessu máli.

Þó að þessar norrænu þjóðir hafi valið sér mismunandi leiðir í þessum efnum, þá held ég að þær eigi fjöldamargt sameiginlegt. Ég held að vonin og hugsjónin um norrænt samstarf á þessu sviði lifi enn þá. Ég held að hún megi lifa. Ég held að það sé engin ástæða til þess að menn séu látnir komast upp með að drepa hana. Ég held að við viðurkennum það öll og séum öll þeirrar skoðunar að við eigum margt sameiginlegt með hinum Norðurlöndunum, m.a. í sögu og menningu. Við höfum svipað félagsmálakerfi, svipað dómskerfi og réttarfarskerfi hjá þessum þjóðum. Við viljum gjarnan eiga samleið, m.a. til að verja okkur, allar þessar þjóðir, fyrir yfirþyrmandi áhrifum stórvelda, þar á meðal engilsaxneskum menningaráhrifum sem eru m.a. notuð sem rök fyrir nánu samstarfi sem við höfum t.d. við Dani um eitt og annað enn þann dag í dag.

Af hverju í ósköpunum þessi óskaplega tortryggni á það að búa til svona embættismannanefnd? Ég vil taka það fram, herra forseti, bara til að fyrirbyggja allan misskilning, að ég er ekkert sérstaklega embættismannatrúar. Ég er það ekki. En það er hægt að stjórna þeim með mismunandi hætti. Ég er nokkuð viss um að það má stjórna þeim mikið betur en núv. hæstv. utanrrh. gerir, en við sitjum þó uppi með Matthías, hæstv. ráðh., enn þá og það er ekki annarra kosta völ ef við eigum að taka þátt í norrænu samstarfi utanrrh. en að nota þau tré sem til eru, brúka þau vopn sem til eru og þannig stendur það. Ég væri tilbúinn til að hjálpa hv. 5. þm. Reykv. til að standa að og samþykkja till. hans um vantraust á utanrrh. En ég geri ekki ráð fyrir að það sé það sem hann er með till. hér um, heldur setur hann í herðarnar út af þessari embættismannanefnd og hefur allt á hornum sér heldur geðvonskulega í þessu efni. Ég held að hv. þm. ætti bara að reyna að hugleiða málið í rólegheitum með rökum sem ég vona að hann geti gert þó að hann sé í ákveðinni kastþröng í þessum efnum, bæði með tilliti til sinnar eigin fortíðar og nútíðar.

Hvernig skyldi það nú vera, ætli þeir sem eru forvígismenn jafnaðarmannaflokka í Vestur-Evrópu séu einhverjir sérstakir óvinir Atlantshafsbandalagsins? Ætli þar séu menn sem séu tilbúnir til að fórna öryggishagsmunum sinna ríkja með þeirri stefnu sem þeir hafa uppi í varnar- og öryggismálum? Skyldi það vera að forustumenn vestur-þýska Sósíaldemókrataflokksins, svo að dæmi sé tekið, séu einhverjir sérstakir stríðsmenn gegn hagsmunum Vestur-Evrópu? Eða forustumenn Verkamannaflokksins í Bretlandi eða forustumenn Verkamannaflokksins í Noregi eða Danmörku eða Svíþjóð? Er þetta ótíndur vandræðasöfnuður sem ekki er hægt að taka neitt mark á? Svo virðist sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hafi upplifað þessa menn þannig að þetta sé vandræðalið og í rauninni hættulegt vegna þess að rök þeirra eru ekki þau að þeirra lönd eigi að fara úr Atlantshafsbandalaginu, en þeir eru með tilteknar kröfur um friðarstefnu í utanríkismálum. Þeir eru andvígir stjörnustríðsáætluninni, andvígir tilraunum með kjarnorkuvopn. En hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hefur blessað og signað stjörnustríðsáætlunina og talið alveg brýna nauðsyn að halda áfram tilraunum með kjarnorkuvopn.

Ég held að það sé kannske rétt að víkja aðeins að því sem hér hefur komið fram, spurningunni um sjálfstætt frumkvæði. Er það þannig að það sé skoðun viðreisnarmeirihlutans hér í þinginu að Íslendingar megi aldrei undir neinum kringumstæðum hafa sjálfstætt frumkvæði og aðra skoðun á utanríkismálum en Atlantshafsbandalaginu eða Bandaríkjunum þóknast á hverjum tíma? Er það þannig að þið séuð sömu skoðunar og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sem sagði: Það er sama hvað Sjálfstfl. gerir miklar vitleysur í innanlandsmálum, hvort sem það er Borgarspítalinn eða efnahagsmálin, sama hvað það er. Það er alveg sama svo lengi sem hann heldur fast við sína hörðu stefnu í þessum efnum að vera í raun og veru katólskari en páfinn í sambandi við alla mótun utanríkisstefnunnar.

Ég held, og þóttist hafa kynnst því þann tíma sem ég var í utanrmn., að þar væru menn jafnvel úr Sjálfstfl. sem hefðu tiltekinn metnað í þá átt að Alþingi Íslendinga þyrði að taka eina og eina sjálfstæða ákvörðun. Það var m.a. vegna þess sem Morgunblaðið varð vitlaust út í hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson út af samþykktinni sem gerð var hér á sínum tíma og jafnaði honum til hinna verstu svikara Íslandssögunnar sem hefðu ekki gætt hagsmuna Íslendinga í utanríkismálum, menn eins og leiðtogar Sósíalistaflokksins á ýmsum tímum. Ég man ekki alveg hvort honum var líkt við Einar Olgeirsson, en það jaðraði við það. (Gripið fram í.) Nei, það er rétt, hv. þm. Ég heyri að hv. þm. er enn við sama heygarðshornið og þegar hann samþykkti till., hvað sem líður barsmíðum Morgunblaðsins.

En ég undirstrika að í þessu máli erum við auðvitað að ræða um það hvort Íslendingar eiga að geta haft sjálfstætt frumkvæði í þessum efnum og frumkvæði okkar getur verið að taka þátt í þessari könnun á hugmyndinni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Það eru engin rök á móti málinu sem hv. 4. þm. Reykv. var með hér áðan. Það eru engin rök á móti málinu að það sé svona óskýrt. Það eru engin rök. Þegar mál eru óskýr eiga menn að sameinast um að fara yfir þau og reyna að greiða úr flækjunum.

Ég tel hins vegar að það hafi verið mjög alvarlegt sem kom fram hjá hv. þm. Gunnari G. Schram áðan. Ég lagði mjög grannt við hlustirnar eins og venjulega þegar hann talar. Í ræðu sinni áðan komst hann þannig að orði að það væri beinlínis hættulegt og ógnun við öryggishagsmuni að lýsa einhliða yfir kjarnorkuvopnaleysi. Hvað er ályktun Alþingis Íslendinga? Hvað er ályktun Alþingis Íslendinga sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson talaði fyrir? Hún er ályktun um kjarnorkuvopnaleysi Íslands. Er hún þar með ógnun við öryggishagsmuni Íslands eða hvað? Getur það verið að eftir röksemdafærslu Sjálfstfl. hafi í rauninni þessir ágætu menn, sem beittu sér fyrir samþykktinni á sínum tíma, brotið þarna grundvallaratriði og með því að lýsa yfir kjarnorkuvopnaleysi Íslands hafi þeir verið að gera samþykkt sem er ógnun við öryggishagsmuni Íslendinga? Mér fannst þessi ræða hv. þm. Gunnars G. Schram benda til þess að í liði Sjálfstfl. væru menn með stóra iðran eftir að hafa gert samþykktina. Og hvernig stendur á því að menn geta fallist á slíka till. varðandi kjarnorkuvopnaleysi Íslands ef menn geta ekki fallist á sams konar till. varðandi kjarnorkuvopnaleysi Norðurlanda og yfirlýsingu um sams konar till. að því er varðar kjarnorkuvopnaleysi Norðurlanda? Þetta er ekki rökrétt og gengur ekki upp þegar málin eru sett upp með þessum hætti.

Nei, herra forseti. Ég óttast að staðreynd þessa máls sé fyrst og fremst sú að það sé verulegur óvilji til þess að sinna þessum málum. Menn vilji það ekki vegna þess að þeir telji sig vera stadda á pólitískum ís þar sem þeir eigi kannske erfitt með að fóta sig, þar sem „stóri bróðir“ heldur kannske ekki í hendina á þeim í öllum tilvikum heldur verði þeir að reyna að standa í lappirnar sjálfir. Ég vona, herra forseti, hins vegar að þessi umræða verði til þess að till. mín og hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur og hv. þm. Haralds Ólafssonar verði samþykkt.

Ég heyri ekki betur en utanrrh. hafi opnað fyrir það að þessi till. verði samþykkt. Ég vona að hv. formaður utanrmn. sjái til þess að till. verði afgreidd á næsta fundi nefndarinnar. Þá yrði það Alþfl. einn sem yrði í minni hluta hér í þinginu og verður þá bara að hafa það, herra forseti.