29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2655 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Mín afstaða er skýr og hefur komið skýrt fram. Ég hef tekið þátt í umræðum á fundum utanríkisráðherranna um þá till. sem fram kom frá danska utanrrh. Ég hef gert grein fyrir því að áður en ég tek ákvörðun um að standa að þeirri till. eða samþykkja hana vil ég vita um hvað hún fjallar, hvert á að vera verkefni þeirrar nefndar sem hér er talað um. Þess vegna er mín afstaða óbreytt eins og hún hefur verið og kom fram strax í upphafi og ég gerði grein fyrir í skýrslu minni til Alþingis á s.l. ári.

Var það önnur spurning? (GA: Utanríkisráðherra svaraði ekki spurningu minni um hvenær verður lokið könnun skrifstofustjóranna. Hvenær vitum við hvaða afstaða verður tekin?) Já, það kom líka fram í minni ræðu að það væri gert ráð fyrir því að embættismennirnir lykju sinni athugun svo utanríkisráðherrarnir gætu tekið afstöðu til málsins á fundinum í mars. (GA: Fær ekki þingið að vita?) Ég sagði líka í minni ræðu að ég mundi að sjálfsögðu greina utanrmn. frá framvindu þess starfs sem verið er að vinna til undirbúnings fyrir fund norrænu utanríkisráðherranna. Ég gerði grein fyrir þessu öllu í minni fyrstu ræðu í dag. (GA: Hvenær?) Jafnóðum, eins og ég orðaði það, verður gerð grein fyrir framvindu þessa starfs eftir því sem það fer fram.

Vegna fsp. út af því sem stóð í Morgunblaðinu skal þess getið að Ólafur Egilsson sendiherra var á þessum fundi til að athuga um verkefni og verksvið hugsanlegrar nefndar embættismanna. Verkefni hans var ekkert annað. Ég get ekki fullyrt eitt eða annað um blaðagrein úr Aftenposten, hvað á fundinum hefur verið sagt, en hitt liggur ljóst fyrir að sá aðili sem fer með þetta vegarnesti, sem ég hér sagði, gefur ekki neinar yfirlýsingar, enda er ég sannfærður um að jafnvarkár maður í orðum og nefndur sendiherra, embættismaður, hefur engar slíkar yfirlýsingar gefið á þessum fundi, enda fundurinn ekki til þess að gefa neinar yfirlýsingar.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.