23.10.1986
Sameinað þing: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

54. mál, réttarstaða heimavinnandi fólks

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 54 um réttarstöðu heimavinnandi fólks, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Eiður Guðnason, Jón Baldvin Hannibalsson og Kolbrún Jónsdóttir.

Mál þetta er skylt því máli sem ég var að mæla fyrir áðan þannig að ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa um það mörg orð. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta meta þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa og gera úttekt á hvernig félagslegum réttindum og mati á heimilisstörfum er háttað samanborið við önnur störf í þjóðfélaginu. Skulu niðurstöður og tillögur til úrbóta liggja fyrir Alþingi eigi síðar en við upphaf næsta þings.“

Ég tel, herra forseti, að öllum ætti að vera ljóst þjóðhagslegt gildi starfa heimavinnandi fólks. Störf heimavinnandi fólks hafa í för með sér ýmsan fjárhagslegan sparnað, bæði beinan og óbeinan, fyrir þjóðfélagið. Erfiðlega hefur þó gengið að fá viðurkennt á borði mikilvægi starfa heimavinnandi fólks sem best sést á því hve langt er í land að heimavinnandi fólk njóti ýmissa félagslegra réttinda sem öðrum þykja sjálfsögð.

Það má nefna og benda á ýmsa þætti sem snúa að mikilvægi heimilisstarfanna fyrir þjóðfélagið. Ég nefni sérstaklega uppeldis- og umönnunarhlutverkið sem er mikilvægt bæði fyrir einstaklinginn, börnin sem eru að alast upp og ekki síður fyrir þjóðfélagið í heild. Ég nefni hvað heimavinnandi fólk hefur gert mikið að því er varðar umönnun við aldraða. Hér ríkir til að mynda neyðarástand í vistunarmálum aldraðra og þar hefur heimavinnandi fólk oft leyst brýnasta vandann í því efni og stuðlar þá jafnframt að því að aldraðir geti dvalist sem lengst í heimahúsum. Þetta er auðvitað mikilvægt starf og þarf ekki að hafa um það mörg orð hvað mikill sparnaður fylgir því t.a.m. ef aldraðir geta verið sem lengst í heimahúsi og þurfa ekki á stofnanavist að halda, fyrir utan hvað það er miklu manneskjulegra fyrirkomulag ef því verður við komið.

Nefna má í þessu sambandi að vistunarkostnaður á stofnunum aldraðra getur farið í allt að 10-12 000 kr. á sólarhring. Samt hefur enginn séð ástæðu til að fara þá leið t.d. að hafa þann valkost í boði að þeir, sem gjarnan vildu annast eða aðstoða aldraða heima fyrir í stað þess að vera á vinnumarkaðnum, fengju greitt fyrir það. En það er ljóst að slík leið, ef hún væri fyrir hendi, mundi spara mikið.

Það er athyglisvert, herra forseti, þegar við tölum um í þessu sambandi þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa, að vitna í umsögn Þjóðhagsstofnunar frá síðasta þingi um þetta mál. Þar kemur fram, með leyfi forseta, að hér á landi hafa ekki verið gerðar tölulegar athuganir á mikilvægi heimilisstarfa og annarra ólaunaðra starfa, en eftir ýmsum erlendum athugunum að dæma kynni verðgildi slíkra starfa að liggja á bilinu fjórðungur til helmingur af þjóðarframleiðslunni eins og hún er venjulega metin. Kannske segir þessi tala okkur meira en margt annað um hve mikilvæg heimilisstörfin eru þjóðfélaginu og kannske ættu þessar tölur að vekja okkur til umhugsunar um hvað í raun og sannleik hefur verið lítið gert til að tryggja réttindi heimavinnandi fólks. Ef þessar tölur eru nærri lagi, sem Þjóðhagsstofnun bendir hér á, fjórðungur til helmingur af þjóðarframleiðslu, er um gífurlegar fjárhæðir að ræða. Ef lægri talan er tekin, fjórðungur, rúmir 30 milljarðar kr., og ef hærri mörkin eru tekin, helmingurinn af þjóðarframleiðslu, nálgast það að vera 67-68 milljarðar kr.

Ég held, herra forseti, að það sé brýnt að fá það staðreynt sem hér kemur fram. Auðvitað er það svo að ýmsir erfiðleikar gætu fylgt því að meta þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa eins og hér er lagt til, en ég held þó, og vísa þá í þær erlendu kannanir eða úttektir sem hafa verið gerðar á þessu máli, að þetta sé hægt ef vilji er fyrir hendi.

Eins er í þessari till. gert ráð fyrir því að fram fari ítarleg athugun á því hvernig félagslegum réttindum og mati á heimilisstörfum er háttað samanborið við önnur störf í þjóðfélaginu. Það mundi ekki einungis hafa gildi fyrir það fólk sem eingöngu sinnir heimilisstörfum heldur líka fyrir konur á vinnumarkaðnum vegna þess að reyndin er sú að störf sem unnin eru á vinnumarkaðnum og skyld eru heimilisstörfum hafa kannske það sameiginlegt einkenni með heimilisstörfunum að þau eru metin til lægstu launa í þjóðfélaginu. Færi fram sú úttekt sem er gert ráð fyrir í þessari till. gæti það haft bein áhrif á að störf kvenna yrðu líka meira metin á vinnumarkaðnum.

Það má benda á ýmis ákvæði almannatryggingalaga þar sem hlutur heimavinnandi fólks er minni en annarra. Þar má benda á sjúkradagpeninga og fæðingarorlof. Heimavinnandi fólk situr heldur ekki við sama borð og aðrir þegnar þjóðfélagsins hvað varðar skattlagningu og lýsir það sér m.a. í því misrétti að heimili með eina fyrirvinnu ber hærri skatta en þar sem tekjur heimilisins eru afrakstur vinnu tveggja, jafnvel þó að um sömu tekjur til heimilanna sé að ræða þar sem er ein eða tvær fyrirvinnur.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég vísa í þær umsagnir sem fylgja sem fskj. við þessa þáltill. Þar er í fyrsta lagi umsögn Þjóðhagsstofnunar sem ég hef áður vitnað til, en þar segir auk þess sem ég vitnaði til áðan:

„Þjóðhagsstofnun hefur borist til umsagnar till. til þál. um skipan nefndar til að meta þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa og gera úttekt á því hvernig haga skuli félagslegum réttindum þeirra sem þessi störf vinna. Stofnunin tekur ekki afstöðu til þess hvort heppilegt sé að skipa sjö manna nefnd til þessa verks, en tekur undir það efni till. að æskilegt sé að gerð sé skipuleg athugun á mikilvægi heimilisstarfa.“

Hér er talað um nefndarskipan. Þetta er umsögn um till. eins og hún lá fyrir síðasta þingi. Þegar till. er nú fram borin á nýjan leik hef ég talið rétt að sleppa þeirri nefndarskipan sem ráð var gert fyrir í fyrri till. Ég held að það skipti ekki öllu máli hvort sérstök nefnd geri þetta eða t.d. að aðilum eins og Þjóðhagsstofnun yrði fengið það verkefni eða félagsvísindadeild Háskólans. Tel ég því ekki rétt að

binda þetta sérstaklega niður í till. Auðvitað er meginmarkmiðið að þessi úttekt fari fram og hún verði gerð á þann hátt að við fáum sem skýrasta mynd af því sem hér er lagt til að úttekt verði gerð á, en nefndarskipanin sem slík skiptir auðvitað ekki máli í því sambandi.

Ég vitna í umsögn félagsvísindadeildar. Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að lesa hana frá orði til orðs, enda birtist hún hér sem fskj., en vísa í tvær línur í umsögn félagsvísindadeildar Háskóla Íslands þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Félagsvísindadeild telur að hér sé hreyft mikilvægu máli. Hún styður athugun á félagslegum réttindum heimavinnandi fólks og væntir þess að í kjölfarið verði réttarstaða þess bætt.“

Bandalag kvenna í Reykjavík hefur einnig sent umsögn um málið og þar segir, með leyfi forseta: „Um leið og við þökkum það að okkur skuli send þingsályktunartillaga þessi til umsagnar lýsum við ánægju okkar með að hún skuli komin fram á Alþingi því eins og réttilega er bent á í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni hefur réttur heimavinnandi fólks mjög verið fyrir borð borinn cg tekur greinargerðin reyndar til allra þeirra þátta sem nefndin telur að séu aðalatriði varðandi réttleysi heimavinnandi fólks.

Þó segja megi að erfitt geti orðið að meta til fulls þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa má öruggt teljast að ef nefnd yrði skipuð á vegum Alþingis til að kanna réttarstöðu heimavinnandi fólks væri það í raun stórsigur fyrir þennan hóp og sýndi í reynd að augu almennings og þingmanna eru að opnast fyrir mikilvægi þessara starfa.“

Og í lokin er umsögn frá Jafnréttisráði þar sem segir að Jafnréttisráð telji úttekt þá sem um ræðir í tillögunni nauðsynlega og mæli með samþykkt hennar.

Herra forseti. Ég vil láta þetta nægja sem framsögu fyrir þessu máli nú. Ég vænti þess fastlega að sú nefnd sem fær þetta til umsagnar liggi ekki á þessu máli fremur en því máli sem ég mælti fyrir hér áðan um lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks og að nefndarmenn í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar gefi alþm. færi á að taka afstöðu hér í þingsöluni til þeirrar till. sem hér er mælt fyrir.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. félmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað