02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

280. mál, kosningar til Alþingis

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég varð nokkuð undrandi á að sjá þetta þingmál þegar ég fann það á borði mínu. Kosningalögin hafa verið til meðferðar í sérnefnd þeirri sem hv. þm. var að gera tillögu um að málinu yrði vísað til. Flm. hefur setið flesta fundi nefndarinnar og verið þar mikill áhrifamaður og lagt þar fram hugmyndir sínar og þær hafa hlotið umfjöllun í nefndinni. Við höfum unnið þannig í nefndinni að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu. Það er ljóst að samstaða næst ekki um mjög víðtækar breytingar sem þó raunar sumir okkar nefndarmanna hafa áhuga á að verði gerðar á kosningalögunum. Það er hins vegar að mínum dómi að nást víðtæk samstaða um veigaminni en algjörlega óhjákvæmilegar breytingar og ég vonast eftir því að við getum skilað nál. í þessari viku. Það er fyrirhugaður fundur í kvöld og þá er að sjá hvort við erum að nálgast lokaniðurstöðu. Sumir þingflokkarnir eru búnir að veita umboð í málinu og það kemur í ljós í kvöld um hvað við getum orðið sammála eða alveg á næstunni.

Það er ýmislegt gott í þessum tillögum sem liggja fyrir á þskj. Það er ekki neitt sem ég held að sé nýtt og ekki hefur komið fram í nefndinni. Ég gæti sjálfur hugsað mér að setja upp kosningareglur sem mér þættu henta sérstaklega vel og leggja fram sem þingmál en þannig held ég að hafi ekki tilgang að vinna. Ég tel að það flæki fremur málið en hitt að leggja þetta frv. fram þar sem hugmyndirnar eru þegar til meðferðar í kosningalaganefnd og ágætlega skýrt fram settar. Það ber vonandi ekki að skilja þetta þannig að flm. ætli að kljúfa nefndina eða að Alþfl. ætli ekki að standa að þeirri niðurstöðu sem við getum orðið sammála um í nefndinni.