02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

Þingstörfin og þinghaldið

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér rétt að það er orðið til baga að ekki skuli liggja fyrir hvenær kosið verður. Það má samt ekki verða til þess að villa mönnum sýn og í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á nauðsyn þess að lög verði,afgreidd um staðgreiðslukerfi skatta á þessu ári. Ég tel að það sé búið að heita þjóðinni því að staðgreiðslukerfi verið tekið upp um næstu áramót og þingið allt verði að beita sér fyrir því að það fyrirheit verði efnt. Því var heitið í sambandi við samningana. Ráðamenn þjóðarinnar hafa sagt að þetta muni verða og ég efast ekkert um að þetta eigi vel að geta tekist. Það bendir ýmislegt til þess að það hafi þó nokkuð verið unnið í þessu máli. Þau atriði sem hæstv. fjmrh. hefur sett á blað og kynnt stjórnarandstöðunni benda til þess að menn hafi litið á ýmis þau grundvallaratriði sem skipta máli í þessu sambandi og virðist vera reiðubúnir og að undirbúa sig í alldjarflegar ákvarðanir sem mér líst vel á. Ég tel því að þeir punktar sem þar koma fram geti verið góður umræðugrundvöllur og ég get fullvissað menn um að þm. Alþfl. hafa áhuga á að nýta þennan umræðugrundvöll og eru reiðubúnir til þess að ræða málin út frá þessum punktum við fjmrh. eða aðra stjórnmálaflokka í þinginu. En við leggjum fyrst og fremst áherslu á það að afgreiðslu þessa máls verði hraðað, menn taki sér tíma til þess að standa við fyrirheitið um að nú loksins komi staðgreiðslukerfi skatta. Ég vænti þess og tel reyndar fullvíst að frv. þar að lútandi muni koma fljótlega og að þm. allir muni vera reiðubúnir til þess að leggja sig fram um það að tryggja skjóta og góða afgreiðslu þess.

Þetta vildi ég sérstaklega ítreka, herra forseti, þegar menn tala um þingsköp og hvernig haga eigi framhaldsstörfum þingsins vegna þess að í mínum huga er hér um eitthvert mikilvægasta mál að ræða sem kemur til umfjöllunar á þessu þingi og reyndar á mörgum öðrum þingum og þá verða menn að leggja sig fram um að vinna þau verk sem þarf að vinna í því sambandi.