02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

281. mál, orkulög

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessa ræðu hans. Þó að hann treysti sér ekki til þess að mæla með því frv. sem ég hef hér mælt fyrir, þá kom þó fram í máli ráðherrans skilningur á því vandamáli sem hér um ræðir og því viðfangsefni sem hér er við að fást. Og það er vissulega ánægjuefni að unnið skuli að því að finna ásættanlega lausn í þessum efnum innan ráðuneytisins þó að það nái kannske ekki eins langt og ég hefði kosið og nái ekki eins langt og það frv. sem ég hef hér gert að umræðuefni um almannaeign á þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar, heldur einungis um almannaeign á þessari sameiginlegu auðlind á ákveðnum svæðum. En það er það sem skilur á milli þess sem hæstv. ráðh. mælti fyrir og því sem ég hef hér mælt fyrir.

En það er annað í þessu máli sem ég tel að sé sérstakt íhugunarefni. Sannleikurinn er nefnilega sá að áratugum saman hefur þetta mál verið til umfjöllunar hér í þinginu og hæstv. ráðh. benti m.a. á það að fyrrv. forsrh., Bjarni heitinn Benediktsson, hefði haft þá skoðun fyrir 3-4 áratugum síðan að jarðhiti neðan við 100 metra dýpi ætti að vera almenningseign, það væri stjórnarskrárleg forsenda fyrir því. Þetta minni ég á vegna þess að ég vil að það komi ljóst fram hvað umræðan er gömul og að menn hafa í hinum ýmsu flokkum á hinum ýmsu tímum verið að velta þessu máli fyrir sér. En það sem er hrikalegt er það hvað tíminn líður án þess að ákvörðun sé tekin.

Hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson er ekki fyrsti iðnaðarráðherrann sem lætur vinna í þessu máli. Hann er kannske ekki 21. iðnaðarráðherrann sem lætur vinna í því en þeir eru orðnir æðimargir. Það er orðið meira en mál að menn komi sér niður á úrlausn og það verður þá að hafa það þó að hún nái ekki eins langt og sumir vildu gjarnan, eins og ég hef t.d. viljað eða mínir flokksmenn, en þá verða aðrir líka að sætta sig við að hún nái lengra en þeir vilja sem dregið hafa hvað verst lappirnar í þessum efnum og verið hvað afturhaldssamastir. Ég held að það sé nauðsýnlegt að menn leiti víðtækrar samstöðu og láti ekki öfgaöflin, sérstaklega þau öfgaöfl sem ekkert hafa viljað gera í þessum efnum, setja sér stólinn fyrir dyrnar. Svo mikið þjóðþrifamál er á ferðinni eins og kom reyndar fram í máli hæstv. ráðh.

Ég vil að endingu lýsa því yfir að ég er reiðubúinn til samvinnu við ráðherra um hvert það skref sem hann telur eðlilegt og rétt og mögulegt að stíga í þessum efnum því að svo brýnt er málið að það má ekki láta það niður falla einu sinni enn og láta enn mörg ár líða án þess að á því sé tekið. Ég heyri það líka á máli hæstv. ráðh. að hann er í stórum dráttum með sams konar sjónarmið uppi og eru í þessu frv. þannig að það ætti að vera mögulegt að leita leiða til þess að ná saman og fá framgang í málinu.

Umræðu (afgreiðslu) frestað.