03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

260. mál, snjómokstursreglur

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Snjómokstursreglur hafa verið endurskoðaðar á nokkurra ára fresti og þær gefnar út að nýju. Þannig var reglunum breytt í janúar 1977, október 1980 og desember 1985. Allar breytingar hafa leitt til aukningar á snjómokstri. Svo var einnig um breytingarnar 1985. Hin síðustu ár hefur Vegagerðin einnig reynt að viðhafa meiri sveigjanleika í snjómokstri meðan snjólétt er að haustinu. Breyttar reglur 1985 og aukin haustþjónusta hafa aukið snjómoksturskostnað nokkuð frá því sem ella hefði verið. Í ljósi þess að svo skammt er um liðið frá því að reglum var síðast breytt mun ég ekki leggja til að snjómokstursreglum verði breytt á þessum vetri. Er þá einnig horft til þess að fjárframlög til vegamála hafa farið minnkandi að raungildi og því ekki raunhæft að auka hlut snjómoksturs nú.

Innan skamms verður lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um nýja vegáætlun. Þar gefst þm. tækifæri til að endurskoða reglur um skiptingu til hinna ýmsu þarfa í vegamálum. Ef menn vilja auka hlutdeild í snjómokstri gengur það út yfir aðra kafla vegáætlunar en það er þá að sjálfsögðu til umræðu og afgreiðslu hér á hv. Alþingi.

Svar við síðari lið fsp.: Oddsskarð og Fjarðarheiði eru meðal allra dýrustu fjallvega landsins að því er tekur til snjómoksturs. Meðalkostnaður áranna 1981-1984 var 4,1 millj. kr. á Oddsskarði og 3,3 millj. kr. á Fjarðarheiði. Sömu reglur gilda um þessa vegi og aðra dýrustu og erfiðustu fjallvegi landsins, t.d. Breiðadalsheiði og Botnsheiði. Það leiðir því af svari við lið 1 að ekki er að vænta rýmkunar reglna um snjómokstur á þessum leiðum umfram það sem gert var í árslok 1985. Rétt er að geta þess að á báðum þessum stöðum eru veittir styrkir til snjóbifreiða. Þá má einnig benda á að flugsamgöngur við Neskaupstað hjálpa til að draga úr einangrun þess staðar.