03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2686 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

224. mál, alnæmissjúklingar

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég skal gera örstutta athugasemd. Ég leyfi mér að draga í efa að sjúkrahúsin séu tilbúin að bæta við sig sjúklingum þegar við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum leiðir af sér að sjúklingar eru lagðir inn á gangana á sjúkrahúsunum og stofum er lokað. Það hlýtur hver og einn að gera sér grein fyrir því að sjúklingur sem þarf að vera í einangrun kallar á mun meiri vinnu en aðrir sjúklingar og það er ekki mjög algengt á sjúkrahúsum í dag að það séu margir sjúklingar í einangrun. Það kallar á mjög mikla vinnu og mikla nákvæmni og það hleypur enginn í að sinna sjúklingi ef deild er yfirfull miðað við starfsmannafjölda. Þess vegna vil ég ítreka þá skoðun mína og það hefur áður verið rætt hér á Alþingi: Á ekkert að gera í því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir varðandi skort á starfsfólki á sjúkrahúsunum? Getum við leyft okkur að halda því fram hér í fullri hreinskilni að það verði ekkert vandamál þegar við stöndum frammi fyrir því að eyðnisjúklingum fjölgar og þeir kalla á mun meira starfslið en við höfum til staðar í dag?