03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2686 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

224. mál, alnæmissjúklingar

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir svörin. Það er gott til þess að vita að unnið er að áætlanagerð á þessu sviði og menn hafa viðbúnað og undirbúning. Hins vegar tek ég undir með hv. 8. landsk. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur að það er til lítils að gera það ef ekki fæst starfslið og starfsliðinu eru ekki búin þau kjör að það fáist til vinnu á sjúkrahúsunum. Þá er til lítils unnið.

En ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og legg jafnframt á það áherslu að af þessu hlýtur að verða verulegur og vaxandi kostnaður. Í fjölmennum löndum og hjá stórum þjóðum hafa menn látið í ljós áhyggjur um að þessi sjúkdómur og kostnaðurinn vegna umönnunar sjúklinga kynni þar að sliga heilbrigðiskerfið. Við þurfum að hafa gát á okkur í þeim efnum. Þess vegna hygg ég að því fjármagni sem varið er til kynningar, fræðslu og forvarnarstarfs sé vel varið og það beri að auka fremur en hitt.