03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2687 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

299. mál, hjálparstöð fyrir börn og unglinga

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Á þskj . 531 hef ég leyft mér að bera fram fsp. um það hvort áður umrædd framkvæmdanefnd ríkisstjórnarinnar um ávana- og fíkniefni geri ráð fyrir áframhaldandi rekstri hjálparstöðvar Rauða kross Íslands að Tjarnargötu 35 í Reykjavík. Einnig hvort ríkisstjórnin muni tryggja nægilegt fé til reksturs stöðvarinnar á þessu ári.

Á þinginu 1984 flutti Kvennalistinn þáltill. um athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur. Þessari till. var vísað til ríkisstjórnarinnar á þeim forsendum að stjórnskipuð nefnd væri þegar að vinna að þessu verkefni og gera um það tillögur. Nefndin hefur nú skilað tillögum sínum til hæstv. heilbrmrh. fyrir alllöngu en þó ekkert verið aðhafst af hálfu stjórnvalda í þessum efnum.

Í desember 1985 hóf svo starfsemi sína hjálparstöð fyrir börn og unglinga á vegum Rauða kross Íslands og er hún til húsa í Tjarnargötu 35 eins og ég sagði áður. Tilgangur stöðvarinnar samrýmist þeim grundvallaratriðum sem Rauði krossinn byggist á og starfar eftir, þ.e. að veita hjálp í viðlögum og sinna fyrirbyggjandi starfi, í þessu tilfelli fyrir unglinga allt að 18 ára aldri. Einnig var þessu framtaki jafnframt ætlað að vera könnun á því hve mikil þörf er á slíku athvarfi, þ.e. hver fjöldi þeirra barna og unglinga er sem eiga í vanda vegna ávana- og fíkniefna og einnig af hvaða rótum sá vandi er runninn.

Stöðin hefur nú starfað í rúmlega eitt ár og verið opin allan sólarhringinn. Á þeim tíma hafa leitað til hennar 80 einstaklingar 137 sinnum, 44 stúlkur og 36 drengir. 68 þessara einstaklinga áttu lögheimili í Reykjavík, en 46 úti á landi og 23 í nágrannabyggðum Reykjavíkur. Meðalaldur þeirra var 17 ár, meðaldvalartími 6,6 nætur.

Öllum kostnaði við rekstur stöðvarinnar hefur verið haldið í lágmarki, bæði með hagsýni en ekki síður með ómældri sjálfboðavinnu. Kostnaður Rauða krossins af rekstri stöðvarinnar var 4,8 millj. á árinu 1986. Stöðin hefur haft samvinnu við opinberar stofnanir og einstaklinga sem sinna þeim vanda er að unglingunum steðjar, eins og t.d. unglingaráðgjöf ríkisins, unglingadeild Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, SÁÁ að Vogi, félagsráðgjafa og sálfræðinga.

Stöðin er ekki meðferðarstofnun í eiginlegum skilningi, en hjálp hennar er fyrst og fremst fólgin í því að veita bágstöddum börnum og unglingum húsaskjól, öryggi, næringu, svefn- og hvíldaraðstöðu, snyrti- og þvottaaðstöðu og ekki síst aðstoð við að greina vanda sinn með umræðum, hvatningu, stuðningi og ábendingum til lausnar. Aðalreglan við móttöku gesta á stöðina er að viðkomandi óski sjálfur aðstoðar.

Enginn vafi er á því að hjálparstöðin gegnir mikilvægu hlutverki og ótvíræð þörf er fyrir starfsemi af þessu tagi. Rauði krossinn hefur lagt fram fé til reksturs stöðvarinnar fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs, en vegna annarra verkefna og skuldbindinga Rauða krossins treysta forráðamenn hans sér ekki til að leggja af mörkum meira fé til þessarar stöðvar. Velunnarar stöðvarinnar eru nú uggandi um hag hennar í næstu framtíð nema til komi stuðningur frá opinberum aðilum, bæði ríki og sveitarfélögum. Því ber ég fram þessa fsp.