03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

299. mál, hjálparstöð fyrir börn og unglinga

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil geta þess í sambandi við þessa fsp. að þetta er eitt hinna dæmigerðu mála sem liggja kannske á mörkum félagsmálasviðs, heilbrigðissviðs og jafnvel fleiri verkefnasviða ráðuneyta. Þetta mál hefur verið rætt við mig í heilbrmrn. og ég tel að það sé eðlilegt að beita sér fyrir því að hinn eðlilegi vettvangur verði Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hér er um að ræða börn og unglinga frá öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins þannig að það leiðir kannske til þess að það verði ekki eitt sveitarfélag sem tekur þessi mál að sér þó að þetta sé kannske dæmigert félagsmálastofnanamál, þ.e. verkefni félagsmálastofnana sveitarfélaga. En þessa leið vildi ég kanna til þrautar. Ef hún tekst ekki tel ég að ríkið verði með einhverjum hætti að koma til stuðnings því að ég tel að þessi starfsemi hafi sannað gildi sitt og haft mikla þýðingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir sem sinna börnum og unglingum.