03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

299. mál, hjálparstöð fyrir börn og unglinga

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég fagna góðum undirtektum tveggja ráðherra, hæstv. forsrh. og hæstv. heilbrmrh. Hins vegar vil ég leggja ríka áherslu á að það skiptir í raun ekki meginmáli í gegnum hvaða stjórnunartæki fjármagn til reksturs stöðvarinnar kemur. Aðalmálið nú er að rekstur stöðvarinnar verði tryggður eftir lok aprílmánaðar því að fjárhagslegur grundvöllur hennar er ekki lengur en til aprílloka.

Ég tek undir að þetta er mál sem varðar e.t.v. mörg ráðuneyti, á snertifleti við mörg ráðuneyti. Vandi þeirra unglinga sem til stöðvarinnar hafa leitað er margþættur og hann er mjög oft af félagslegum toga spunninn, að þeim steðja langvinn félagsleg vandamál, og það snýr aftur að stjórnvöldum vegna þess að það varðar beint stefnu stjórnvalda í fjölskyldumálum. Það varðar þá pólitík sem stjórnvöld reka í málum fjölskyldunnar.

Hvað varðar Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er það mjög gott ef þau hafa fjármagn til þess að sinna þessu. Ég kom með tölur áðan sem sögðu að það væru 68 einstaklingar á Reykjavíkursvæðinu, 46 utan af landi og 23 úr nágrannabyggðum Reykjavíkur þannig að þetta er greinilega blandaður hópur, enda er þetta eina neyðarathvarfið fyrir börn og unglinga sem eiga í vanda.

Ég hvet stjórnvöld til þess, verði einhver töf á því að tillögurnar komi fram á þeim tíma sem ætlað var, að sjá til þess að fjárhagsgrundvöllur þessarar stöðvar verði tryggður. Það skiptir mjög miklu máli.