03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2689 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

282. mál, hvalveiðar og hvalarannsóknir

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. 1. jan. 1986 tók gildi samningur sjútvrn. fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar annars vegar og Hvals hf. hins vegar sem gerður var til að, eins og þar segir, „auka vísindalega þekkingu á ástandi hvalastofna hér við land og skapa nauðsynlegan grundvöll til endurmats á áhrifum veiðistöðvunar hvalastofnanna fyrir árið 1999. Rannsóknunum var ætlað að auðvelda endurskoðun ákvörðunar um stöðvun hvalveiða sem Alþjóðahvalveiðiráðið tók árið 1982 og Alþingi samþykkti að mótmæla ekki. Gert var ráð fyrir að áætlunin yrði endurskoðuð árlega með tilliti til árangurs rannsóknanna, en í 1. gr. ofangreinds samnings segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Árleg veiði árin 1986-1989 er áætluð 80 langreyðar og 40 sandreyðar. Endanleg ákvörðun um árlegt veiðimagn verður tekin af Hafrannsóknastofnun fyrir upphaf hvers almanaksárs.“

Í 3. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Til að standa straum af kostnaði við hvalarannsóknir skal sérhver hvalur nýttur til fullnustu. Skal vinnsla miðuð við að veiddir hvalir séu nýttir til manneldis eftir því sem kostur er. Hvalur hf. tekur að sér að annast vinnslu veiddra hvala og sölu á afurðum. Eru allar ákvarðanir varðandi þau efni í höndum Hvals hf. og kostnaður samfara þeirri starfsemi Hafrannsóknastofnun óviðkomandi.“

Í 4. gr. samningsins segir að andvirði allra hvalaafurða skuli alfarið varið til greiðslu kostnaðar er tengist hvalarannsóknum. Skyldi Hvalur hf. standa sjútvrn. skil á 100 þús. kr. fyrir hvern veiddan hval óháð söluverði og greiðslutíma afurða og skyldi sú upphæð háð breytingum á byggingarvísitölu hverju sinni. Reyndist andvirði afurða hærra en til þurfti til að mæta greiðslum af rekstri Hvals hf. og greiðslum til Hafrannsóknastofnunar skyldi það renna óskipt í sérstakan sjóð í vörslu sjútvrn. og því fé skyldi verja til hvalarannsókna.

Á síðasta löggjafarþingi lagði ég fsp. fyrir hæstv. sjútvrh. m.a. um það hvort sala á afurðum væri tryggð t.d. til Japans sem hefur verið aðalkaupandi þeirra. Ráðherra viðurkenndi þá að óvissa væri nokkur í stöðu málsins. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar. Á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Malmö í fyrra var samþykkt að skv. 2. gr. VIII. kafla samningsins um stöðvun hvalveiða til ársins 1999 skyldu afurðir af hvölum veiddum í vísindaskyni nýttar af veiðiþjóðinni sjálfri. Eftir mikinn þrýsting, ekki síst frá Bandaríkjamönnum, sem olli stöðvun veiðanna um tíma, var ákveðið að Íslendingar skyldu sjálfir nýta 51% afurðanna en 49% skyldu seld úr landi. Þrátt fyrir harðvítuga þjóðerniskennd Íslendinga, vegna erlendra afskipta, sem braust út í verulegu hvalkjötsáti hér á landi um tíma, er vafalaust allnokkuð óselt af afurðum síðustu vertíðar þar sem ekki er vitað um sölu úr landi. Það hlýtur því að vera ástæða til að spyrja hverjar horfur séu nú í þessu máli.

Ég hef því, herra forseti, borið fram fsp. á þskj. 509 til hæstv. sjútvrh. sem hljóðar svo:

„1. Hverjar eru horfur á að áætlun um hvalarannsóknir samkvæmt samningi sjútvrn. við Hval hf., sem tók gildi 1. jan. 1986, standist að því er tekur til a) rannsókna, b) fjármögnunar rannsóknaráætlunar?

2. Hversu miklar hvalaafurðir frá veiðunum árið 1986 hafa selst a) á innlendan markað, b) á erlendan markað?

3. Hefur endanleg ákvörðun verið tekin um veiðar árið 1987?

4. Að hvaða þáttum hafa rannsóknir einkum beinst árið 1986?"