03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

282. mál, hvalveiðar og hvalarannsóknir

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þessi mál hafa oft verið rædd hér á þingi og af nokkrum hita en ég hélt að það væri öllum í minni þegar samþykkt var á sínum tíma að mótmæla ekki banni við hvalveiðum. Það var gert á þeim forsendum að við notuðum tímann til þess að afla okkur þekkingar á hvalastofnunum við Ísland. Með þeirri áætlun sem hefur verið í gangi erum við að standa við þá samþykkt sem var gerð á sínum tíma. Auðvitað geta einstakir þættir slíkrar áætlunar verið álitamál en ég tel það fráleitt að líta svo á að við séum að ganga þar gegn alþjóðlegum samþykktum á einn eða annan hátt. Við hljótum að skoða þessi mál út frá langtímahagsmunum Íslendinga, að nýta lífrænar auðlindir hafsins með skynsamlegum hætti þannig að þær verði varðveittar. Við þurfum ekkert að fara í grafgötur um það að það verða til andstæðingar við veiðar á hvölum og fleiri sjávardýrum eftir að þessu banntímabili lýkur sem við höfum gerst aðilar að og við eigum ekki að vera að beygja okkur fyrir slíkum öflum að nauðsynjalausu.