03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

278. mál, hjálparkalltæki

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Reglur þær sem hún vitnaði til voru ekki endanlega mótaðar þegar fsp. var lögð fram en nú eru þær það og ljóst er að einungis mjög veikir sjúklingar eiga rétt á þessum greiðslum.

Ég tel þetta mjög ranga stefnu. Það má ljóst vera að æskilegt er og eðlilegt að sem flestir geti búið á sínum eigin heimilum og verið virkir einstaklingar í þjóðfélaginu sem allra lengst. Þjóðfélaginu ber að sjálfsögðu skylda til að laga aðstæður hinna sjúku og öldruðu að því samfélagi sem við höfum búið okkur svo að þeir njóti a.m.k. öryggis á heimilum sínum þegar aðstandendur eru ekki lengur til staðar til að annast þá vegna starfa úti í þjóðfélaginu. Auk þess má benda á þá biðlista sem eru við hvert einasta dvalarheimili fyrir aldraða.

Ég tel einfaldlega að hinar nýju reglur Tryggingastofnunar séu allt of strangar varðandi heilsufar og ekki sé sjálfgefið að einungis þeir sem eru sjúklingar fái þessi tæki heldur eigi einnig gamalt fólk að eiga rétt á þessu þó að það sé við þokkalega heilsu, því að dæmi eru til að ekki þarf mikið út af að bera til þess að slíkt fólk geti legið hjálparlaust.

Í hinum nýju reglum eru lágmarkskröfur um búnað og eitthvað hef ég heyrt um að þar þyki öðru fyrirtækinu hallað á sig. En ég held að tvímælalaust séu þau bæði fær um að sinna þessari þjónustu. Ég vil hins vegar til upplýsingar geta þess að mér hefur borist bréf frá Ásmundi J. Jóhannssyni, tæknifræðingi hjá Slökkviliði Reykjavíkur. Hann bendir þar á að óeðlilegt sé að einkafyrirtæki annist þessa þjónustu, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu. Hann bendir á að í Osló hafi slökkvilið borgarinnar annast þessa þjónustu frá árinu 1979 án endurgjalds. Þar kosta tækin sjálf um 14 þús. íslenskar krónur í stað okkar 43-47 þús. og ársfjórðungsleiga er þar um 900 kr. Útköllin eru hins vegar endurgjaldslaus. Orðrétt, með leyfi forseta, segir Ásmundur:

„Mér hefur þótt það þyngra en tárum taki að horfa upp á að neyð öryrkja og gamalmenna er notuð sem fjárgróðabitbein tveggja fyrirtækja þar sem eingöngu er horft á tekjumöguleika fyrirtækjanna af þessari starfsemi og ttl að tryggja þá sem best er krafist aðstoðar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Á slíkan hátt eru þessi mál látin þróast hér hjá okkur með skeytingarleysi þeirra sem eiga að gæta heilla almennings.“

Ég hlýt að stytta mál mitt, herra forseti. Mér finnst rétt að þetta sjónarmið komi fram. Ég skal láta ósagt hvort hægt væri að breyta aðstöðu til að hafa þessi tæki eftir ráðum Ásmundar. Það kann vel að vera að hægt væri að koma því fyrir hér á höfuðborgarsvæðinu, en líklega á annað við utan þess.

Tilefni fsp. minnar var sem sagt fyrst og fremst þessar að mínu mati allt of ströngu reglur Tryggingastofnunar við ákvörðun um hverjir eigi að fá tækin. Ég skora á hæstv. ráðh. að íhuga vandlega hvort ekki sé ástæða til að gefa stofnuninni og þá tryggingayfirlækni sem ræður þessu mestan part fyrirmæli um að öðruvísi skuli að farið.