03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

287. mál, sálfræðiþjónusta á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 515 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.: „Hvernig er nú háttað sálfræðiþjónustu á vegum fræðsluskrifstofu Austurlands?

Hversu margir starfsmenn eru þar að verki nú?" Í utandagskrárumræðu 20. jan. s.l. ræddi hæstv. menntmrh. um hinn mikla mannafla sem fræðsluskrifstofur hefðu yfir að ráða. Það duldist engum í máli hæstv. ráðh. að honum þótti sem þar hefði verið fullmikið að gert að ekki sé dýpra í árinni tekið og kom það manni á óvart svo mikill valddreifingarmaður sem hæstv. ráðh. segist vera að öðrum kosti. En einnig kom mér þetta á óvart búandi á sama stað og fræðsluskrifstofa Austurlands er til húsa því að þar hef ég ekki orðið var neinnar ofsetningar starfsmanna nema síður væri og veit ég að hæstv. ráðh. hlýtur að kunna á því jafngóð skil og ég.

Í máli hæstv. ráðh. var raunar um alhæfingu að ræða gagnvart fræðsluskrifstofunum almennt, eins og oft hendir þann ágæta mann, en þó kom mér kannske enn mest á óvart þegar hæstv. ráðh. lét að því liggja að fræðsluskrifstofurnar væru að sligast undan fjölda sálfræðinga eða eins og hann sagði, með leyfi forseta:

...að fræðsluskrifstofurnar væru með sálfræðing á hverjum fingri.“

Einmitt þetta atriði, að fræðsluskrifstofurnar væru að manni skildist allar með sálfræðing á hverjum fingri, varð til þess að mér þótti óhjákvæmilegt að vekja athygli á því með fsp. hvert ástand þessara mála er nú í kjördæmi því sem við hæstv. ráðh. störfum báðir fyrir, burtséð frá því þó ég hafi nokkra vitneskju um málavöxtu svo og hitt að ég veit mætavel að hér um véla hans kæru fræðsluráð fyrst og síðast þó að hitt dyljist væntanlega ekki eftir umræðurnar sem undanfarið hafa orðið um þessi mál öll hvar Valdið með stórum staf er.

Þess vegna vildi ég fá skýr svör við þessu einnig til að vekja athygli á því hversu þessum málum er háttað á Austurlandi nú í beinu framhaldi af fullyrðingum hæstv. ráðh. í utandagskrárumræðum.