03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

287. mál, sálfræðiþjónusta á Austurlandi

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hygg að ég muni það rétt að ég hafi orðað það svo að í Norðurlandi eystra hefðu af þar til bærum sálfræðingum og sérfræðingum verið greind þrefalt fleiri börn með sérþarfir en í Austurlandsumdæmi. Það er svo nokkuð langt sótt að ég hafi verið með því að kvarta yfir því að of fá börn hefðu verið greind austur þar. (HS: Ég þakka fyrir það.) Ég lét þess getið að það hefðu verið greind þrefalt fleiri norður þar en eystra og tvöfalt fleiri en í Reykjaneskjördæmi. Það var um það að segja.

Ég verð að segja að það kann að vera að hann sé fáliðaður, fræðslustjóri Austurlands á Reyðarfirði, en ég held að starf hans og hans skrifstofu þoli fullkomlega samanburð við aðrar fræðsluskrifstofur í landinu. Það kann að vera að á skorti um sálfræðiþjónustuna og þá þarf að bæta úr því og ekki hefur gengið að fá mann í þá stöðu, en yfirleitt held ég að þetta sé afskaplega skilgóður maður í sinni stöðu og eftir hann liggi gott starf, enda veit ég að það er hv. fyrirspyrjandi mér sammála um. Það er ekki allt fengið kannske með mannaflanum.

En ég get líka upplýst, þó ég ætli ekki að gera það að umtalsefni hér og nú, að innan örfárra daga mun ég leggja fyrir brtt. við grunnskólalög sem m.a. snerta beinlínis fræðsluskrifstofurnar og þar mun ég alveg áreiðanlega leggja til að tvískiptingu þessarar þjónustu á vegum menntmrn. og sveitarfélaga verði hætt, að fræðslustjórar þurfi ekki lengur að þjóna tveimur herrum, síst ef þeir skyldu kjósa að þjóna aðeins öðrum en fara á svig við allt sem hinn herrann mælir fyrir um. Og áreiðanlega fylgir ekki sá böggull skammrifi að þetta verði allt gerðir áfram að hálfgerðum fjármálaráðherrum, einum átta í landinu eins og sumir hafa litið á sig. Alveg áreiðanlega ekki. Og sveitarfélögin munu vafalaust áfram taka höndum saman um rekstur fræðsluráða og það verður þeirra mál og segja þá þeim fræðslustjórum fyrir verkum, enda þá með fulla ábyrgð á verkum þeirra, fjárráðstöfunum og öðrum rekstri, að svo miklu leyti sem sveitarfélögin sjálf vilja fela þeim í hendur. Eftirlit með gæðum kennslu og náms verður vafalaust þeirra hlutverk og skipulag á rekstri skóla í umdæmum. En eins og ég segi, þessa skipan mun ég leggja til í mínum brtt., að þessi umsýsla verði færð á herðar sveitarfélaganna.

Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram hér og nú því það er alveg nauðsynlegt af biturri reynslu að þarna verði á bragarbót.