03.02.1987
Sameinað þing: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

238. mál, framtíðarskipan kennaramenntunar

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hér er auðvitað hreyft mjög mikil vægu málefni og ég vil segja það um þennan málatilbúnað að hann virðist mér vandaður og eiga erindi fyrir nefnd sem fær þetta væntanlega til meðferðar að leita umsagnar um því að öll umræða er mjög mikilvæg. Menntmrn. hefur fengið til Þórólf Þórlindsson úr félagsvísindadeild Háskólans að gera fyrir sig úttekt á Kennaraháskólanum. Skýrsla hans hefur nýlega borist og er um margt fróðleg, en það er verið að kynna sér hana í ráðuneytinu og of snemmt fyrir mig að gefa yfirlýsingar um með hvaða hætti hún verður nýtt og eða annað efni sem menn hafa viðað að sér. Ég upplýsi hins vegar að ráðuneytið gerir sér ljóst að hér þarf að bæta verulega um betur um kennaramenntunina og það á auðvitað við um alla stöðu kennaranna. Menn þekkja kjör kennara, hvernig hefur slaknað á í þeim efnum sem auðvitað helst í hendur við að við erum að verða menntir á þá vísu að þeir sem hæfastir eru snúa sér kannske að öðru og við það er ekki búandi.

Ég vil aðeins segja það að ég fagna þessari till. og ég vænti þess að hún verði til þess að efla umræður um þetta mál sem er okkur mjög mikilvægt. Ég neita því heldur ekki og það er ekkert launungarmál af minni hálfu að ég hef haft, að svo miklu leyti sem ég hef haft tök á að kynna mér ástæður Kennaraháskólans, nokkrar áhyggjur út af skólanum og stöðu hans. Þar er margur góður efniviður og margur sem er fús að leggja mikið og verðmætt starf af mörkum, en ég er ekkert viss um að allt skipulag hans sé með þeim hætti sem best verður á kosið eða öllu heldur: ég er viss um að þar má úr ýmsu bæta. Öllu þessu er ég tilbúinn til að leggja mitt lið eftir því sem kostur er. Sömuleiðis er þess að geta að vegna þeirrar skýrslu sem hér hefur borist frá erlendum aðilum, úttektarskýrslu á stöðu okkar, að þó að of mikið sé nú kannske sagt að kalla hana svarta er hún alvarleg áminning í öllu falli um að við þurfum að taka okkur á í þessum efnum. Þótt þeir færu hratt og fljótt yfir sögu og hefðu stuttan stans vakti það þó athygli mína hvað mennirnir voru fljótir að átta sig á ýmsum aðstæðum, greinilega þjálfaðir menn af fyrri störfum sínum, m.a. hjá öðrum þjóðum, og höfðu langt og mikið nef fyrir það sem þeir þefuðu af. Það fór ekkert milli mála að miðað við hinn skamma tíma sem þeir höfðu til stefnu og takmarkaðar upplýsingar að öðru leyti var ótrúlegt hversu miklu þeir höfðu viðað að sér. Ég verð að segja það að ég a.m.k. legg töluvert upp úr niðurstöðum og ályktunum þeirra og það er ástæðulaust annað en að taka það mjög alvarlega og nýta það í frekari umræðum og ályktunum og síðar framkvæmdum í þessum málum.

Þetta vildi ég segja núna um málið og enda með því að leggja mikla áherslu á að menn leggist þungt á árar varðandi þetta mikilvæga mál.