04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2728 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

316. mál, flugmálaáætlun

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki rétt að blanda samgöngumálum Reykjaneskjördæmis inn í þá umræðu sem hér er um frv. um flugmálaáætlun. Þar eru vitaskuld mörg vandamál og mikil slysahætta á þeim vegi og sjálfsagt þarf í náinni framtíð að byggja þar annaðhvort einsporung eða aðra braut þannig að um einstefnu sé að ræða. En það tengist í engu held ég þeirri flugmálaáætlun sem við erum að ræða hér. Að koma með tillögu um að leggja niður Reykjavíkurflugvöll er að mínu mati ákveðin áskorun um að þó nokkur fjöldi þeirra flugvalla sem nú eru í notkun verði lagður niður sem eðlilegir áætlunarflugvellir. Það eru ekki líkur fyrir því að þeir sem nota nú með góðum árangri flugþjónustu við höfuðborgarsvæðið, t.d. eins og vestan af Snæfellsnesi, af Norðvesturlandi og jafnvel frá stöðum eins og Höfn í Hornafirði, fari að setjast upp í flugvél til þess að komast til Reykjavíkur og eiga fyrir hendi ferðalag frá Keflavíkurflugvelli eftir flugfar. (Gripið fram í: Það er gaman að njóta náttúrufegurðar.) Ég veit það. Það er alltaf gaman að ferðast um Reykjanesið, en það er kannske ekki alltaf tilgangur þeirra sem eru að ferðast að sjá fagurt og gott umhverfi. Það er ekki alltaf tilgangurinn þó það falli stundum saman.

Ég held að við verðum að búa við það enn um tíma og byggja þessa flugvallaáætlun, sem hér er verið að ræða um, fyrst og fremst á því að hér verði áfram aðalflugvöllur innanlandsflugs þar sem hann er nú. Ég tel að þær áætlanir sem uppi eru í flugmálaáætluninni um að byggja hér upp flugstöð og fullkomnari og betri aðstöðu en hér er nú séu nauðsynlegar til að sinna þessum samgönguþætti. Í langri framtíð er e.t.v. hægt að hugsa sér að sameina utanlandsflugið og innanlandsflugið á Keflavíkurflugvelli, en ég tel ekki tímabært að ræða um það á þessum tíma.