04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

316. mál, flugmálaáætlun

Haraldur Ólafsson:

Hæstvirtur forseti. Það er sérkennilegt að það er eins og komið sé við kvikuna í vissum hv. þm. ef minnst er á að flytja eitthvað af umferðarþunganum af Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur. Þó að það sé kannske rugl hjá framsóknarmönnum að benda á leiðir til að gera fólki auðveldara og fljótara að komast til Keflavíkur en nú er vil ég aðeins minna á að upphafsmaður þess rugls hér á Alþingi var Valtýr Guðmundsson á sinni tíð. Jón Þorláksson velti mjög fyrir sér og skrifaði ítarlegar og vandaðar greinar álitsgjörðir um járnbrautarlagningu austur yfir fjall. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef þær hugmyndir og áætlanir hefðu orðið að veruleika hefði það gjörbreytt samgöngumálum á Íslandi. Það hefði eflt Suðurland og tengslin við Faxaflóasvæðið að miklum mun og orðið margfalt ódýrara en síðari framkvæmdir í þeim efnum.

En þó ég leyfði mér aðeins að fara nokkur ár og jafnvel áratugi fram í tímann var megininntak þess sem ég sagði einmitt ekki að fara að spreða út peningum heldur þvert á móti að vara við því að hafist væri handa um flugstöð upp á hundruð milljóna króna á Reykjavíkurflugvelli áður en kannaðir hefðu verið til hlítar og gerðar áætlanir um aðra kosti í þeim efnum. Ég vildi miklu heldur á næstu tíu árum sjá því fé varið til að bæta flugvelli og flugöryggi úti um land því það er þó það sem mestu máli skiptir í sambandi við þessa flugáætlun. Og útúrsnúninga vil ég frábiðja mér í því efni. Ég vil að þetta fé renni til þess að bæta flugsamgöngur á Íslandi og fyrst og fremst við dreifbýlið. Það er það sem er meginatriðið. En ég vil ekki að Reykjavíkurflugvöllur sé njörvaður niður með rándýrum framkvæmdum og flugstöðvarbyggingum áður en búið er að ganga frá flugöryggi úti um land.