04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

316. mál, flugmálaáætlun

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að flugmálin hafi verið nokkuð afskipt á okkar torfæra landi og það er gott að til stendur nú að taka þau föstum tökum, eins og frv. sem hér liggur fyrir ber með sér. Ég mun athuga þetta frv. gaumgæfilega og ræða það frekar við 2. umr. málsins.

Hér hafa menn nokkuð rætt um Reykjavíkurflugvöll og ég vil að það komi fram að í borgarstjórn Reykjavíkur hefur Kvennalistinn og áður en hann kom þar til Kvennaframboðið ávallt verið eindregið fylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur héðan úr bænum. Við höfum ekki gert sérstakar tillögur um hvert skuli flytja hann, enda er það væntanlega í verkahring þeirra sem vit, þekkingu og kunnáttu hafa á hvar er heppilegt að hafa flugvöll og hvar ekki. En ástæður þess að við teljum óæskilegt að Reykjavíkurflugvöllur sé áfram suður í mýri eru fyrst og fremst þær að flugvallarstarfsemi og bæjarlíf fara illa saman. Af flugvellinum er mikil hávaðamengun og við þekkjum það öll hvílík streita fylgir þeim aukna hávaða sem nútímamenn búa við. Því er til mikils unnið að reyna að draga úr þeirri hávaðamengun ef nokkur kostur er og þess er kostur með því að flytja flugvöllinn. Önnur tegund mengunar sem fylgir þessum flugvelli er loftmengun. Það er ekki lengra síðan en í september á s.l. ári að fimm þm. héðan af hæstvirtu Alþingi sátu ráðstefnu í Stokkhólmi, alþjóðlega ráðstefnu á vegum Norðurlandaráðs, um hvernig mætti koma í veg fyrir loftmengun yfir landamæri. Þar sat m.a. hv. 5. landsk. þm. sem hér talaði ákaft gegn því að flytja Reykjavíkurflugvöll áðan, en þar samþykkti hann ásamt öðrum hv. þm. sem þessa ráðstefnu sóttu, þar var einn frá hverjum þingflokki, að beina því til ríkisstjórnar sinnar að gera allt sem í hennar valdi stæði til að draga úr loftmengun. Það skýtur því nokkuð skökku við að sá hinn sami þm. skuli síðan mæla með því að loftmengandi flugvöllur sé áfram í mesta þéttbýli landsins.

Við vitum það af mælingum sem hafa verið framkvæmdar á Reykjavíkursvæðinu núna nýlega að loftmengun í Reykjavík er ótrúlega mikil, ekki síst miðað við það að hér er yfirleitt rok og maður skyldi ætla að mengunin fyki á haf út eða upp til fjalla. Það gerir hún greinilega ekki. Hún er töluverð yfir borgarsvæðinu og ég held að það sé ástæða til fyrir okkur að íhuga hvernig þessi mál kunna að þróast í framtíðinni. Ef flugsamgöngur aukast enn frá því sem nú er kann hér að verða um verulegt vandamál að ræða.

Menn hafa bent á það sem rök gegn því að færa Reykjavíkurflugvöll að af því kynni að stafa nokkurt óhagræði fyrir þá sem hyggjast nýta sér þjónustu flugvallarins. Það kann að vera, en ég vil þó benda á að fyrir þá farþega utan af landi sem hyggjast fara lengra og fara erlendis er tvímælalaust hagræði að því að sameina þá flugstarfsemi sem núna er á Reykjavíkurflugvelli við þá flugstarfsemi sem er á Keflavíkurflugvelli.

Ég er ekki með þessu að segja að endilega sé heppilegast að færa flugvallarstarfsemina sem er á Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur. Það kann að vera að svo sé ekki og þarf það einfaldlega að athugast af þeim sem eru sérfróðir um flugvallarmál og skipulag á þessu sviði.

Fjármagn er af skornum skammti, það er svo sannarlega rétt, og það er því ekki forgangsverkefni að huga sérstaklega að Reykjavíkurflugvelli nú á meðan flugmálum dreifbýlisins er háttað eins og er. Ég er sammála síðasta ræðumanni um það að megináherslu þurfi að leggja á uppbyggingu flugvalla og aðstöðu fyrir flug í dreifbýlinu. En ég held að það sé tímabært að fara að hyggja að því hvað við ætlum að gera varðandi flugstarfsemi í Reykjavík og í því efni ættum við að hyggja að því að flytja flugvöllinn. Það þarf langan undirbúningstíma og þar sem fjármagn er af skornum skammti má grípa til þess gamla húsráðs sem flestir þekkja nú e.t.v. frá fornu fari. Það er einfaldlega að byrja að safna fyrir því að leggja í þá dýru framkvæmd sem nýr flugvöllur yrði. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Ég er alfarið andvíg því að lagt sé í fjárfrekar framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli á meðan ekki er búið að athuga nákvæmlega og hyggja vel að því hvort ekki sé réttast að flytja flugvöllinn burtu héðan. Það tel ég að sé réttast og það vil ég að athugað sé betur en gert hefur verið.