04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

316. mál, flugmálaáætlun

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umræðum því ég hélt að það væri kappsmál hv. deildarmanna að koma þessu máli sem fyrst til nefndar miðað við þann áhuga sem menn hafa lýst á því að þetta mál næði sem fyrst fram að ganga. Ég tek undir það. En umræður hafa farið hér býsna mikið í annan farveg en ég hugði í upphafi og reyndar farið nokkuð út um víðan völl eða kannske víða velli ef svo mætti segja og þá víða flugvelli að sjálfsögðu, hæstv. ráðh., og er ekkert út af fyrir sig við það að athuga. En auðvitað verður ekki komist hjá endurtekningu vegna þess að hér er um tiltölulega einfalt mál að ræða þar sem er annars vegar ákvörðun um að gera ákveðna flugmálaáætlun og hins vegar það að taka ákvörðun um ákveðna fjáröflun til að standa undir þeim framkvæmdum sem þessi flugmálaáætlun gerir ráð fyrir.

Ég ætla ekki að fara að ræða um Reykjavíkurflugvöll eða hvort á að flytja allt flug til Keflavíkur. Ég veit að það koma áreiðanlega miklar óánægjuraddir utan af landsbyggðinni ef við flug hingað á suðvesturhornið þarf að bætast ferð frá Keflavík og hingað. Þó hygg ég að það mundi verða miklu meiri óánægja með það úti á landi almennt ef menn færu að verja stórkostlegu fé til flugstöðvarbyggingar á Reykjavíkurflugvelli á meðan svo mikið er ógert í flugvallarmálum og flugöryggismálum úti á landi. Það hygg ég að yrði samt sem áður það atriði sem menn þar mundu gera hvað mesta athugasemd við þrátt fyrir að þetta fólk verði að una við þá þröngu aðstöðu sem það fyllilega sættir sig við á Reykjavíkurflugvelli eins og nú er og ég kannast mætavel við. Menn hafa nefnilega unað því að undanförnu að það hefur verið ein forgangsframkvæmd í flugmálum á Íslandi, flugstöðvarbyggingin á Keflavíkurflugvelli og lántökur til hennar, og með því verið að nokkru leyti afsakað hvað illa hefur verið staðið að flugvallarframkvæmdum almennt.

Ég skal ekki lengja þetta mál mjög því hv. 4. þm. Vesturl. hefur gert grein fyrir skoðunum okkar í Alþb. varðandi þetta og ágætur fulltrúi okkar sat í þeirri nefnd sem hefur lagt fram þetta álit. Það var að vísu ekki fulltrúi okkar flokks í þessari nefnd, það er rétt að það komi skýrt fram út af orðum hv. 5. landsk. þm., heldur var það hæstv. samgrh. sem skipaði hann í þessa nefnd. Og þó ég efist ekki um að hann hafi haft ágætar stjórnmálaskoðanir hans í huga hygg ég að þekking þessa hv. alþm. á flugmálum í gegnum starf hans í flugráði hafi öllu fremur ráðið um þá skipan hjá hæstv. samgrh.

Varðandi fjáröflunina vil ég aðeins segja að öfugt við flokk hæstv. samgrh., sem var réttilega komið hér inn á að hljóðar ævinlega undan öllu sem heitir skattheimta, það gerir hæstv. ráðh. ekki, en flokkur hans eða flokksmenn hans hljóða undan henni í tíma og ótíma, þá segi ég að ég er alltaf til í eðlilega skattheimtu og sanngjarna ef hún rennur í rétta farvegi, ef það er tryggt. Auðvitað vakna spurningar, eins og hér hafa komið fram í umræðunum, um það hvert gildi hefur flugmálaáætlun annars vegar og hvert gildi hefur það að ákveða fjáröflun til framkvæmda eins og með hefur verið farið bæði áætlanir í þessum efnum og ekki síður ýmsa merkta tekjustofna sem hafa átt að fara til ákveðinna þátta. Ég ætla ekki að fara að gera því skóna hér að þetta verði svikið. Óneitanlega dettur manni í hug að það sé lögð áhersla á að koma þessu fram núna rétt rúmum mánuði áður en þingi verður slitið vegna þess að það eru kosningar í vor. Ég ætla ekki hæstv. ráðh. að það sé fyrst og fremst ástæðan því að ég veit að hann hefur áhuga fyrir þessum málaflokki, en óneitanlega setur það mark sitt á það. Og ég sá það um daginn varðandi þann margumrædda flugvöll, Egilsstaðaflugvöll, að hæstv. menntmrh. var ekki í neinum vafa um hverjum hann ætti að gefa alla dýrð af þeirri ákvörðun sem nýlega hefur verið tekin í ríkisstjórninni og við höfum séð í tillöguformi í Alþingi. Hann var ekki í neinum vafa um það, hæstv. ráðh., enda er hann yfirleitt ekki í vafa um neina hluti eins og hæstv. samgrh. veit, og sagði þar að í samráði við þá hv. 11. landsk. þm. og sig hefði hæstv. samgrh. ákveðið að verja 60 millj. kr. til Egilsstaðaflugvallar, enda væri það mála sannast að enginn gerði neitt í samgöngumálum Austfirðinga nema sjálfstæðismenn. Þetta rifja ég upp án þess að ég reikni með því að hæstv. samgrh. fari að sverja af sér eða játast undir að hafa eingöngu haft samráð við hv. 11. landsk. þm. og hæstv. menntmrh. þegar hann tók þessa ákvörðun þó hann taki örugglega mikið tillit til beggja þessara hv. þm. Austurlands.

En ég fagna því sem tillögumaður að ákveðnu fjárframlagi til Egilsstaðaflugvallar fyrir jólin að sú tillaga er fram komin, hverjum sem hún er að þakka. Ég ætta að vona það að hún sé fyrst og fremst því að þakka að menn hafa náð vopnum sínum í þessum efnum, eins og hæstv. menntmrh. segir svo gjarnan, náð áttum, áttað sig á því hvert ástand þessa vallar er orðið, hvert „lífsspursmál“ það er fyrir heilan fjórðung að þessi völlur komist í lag, og hafi hreinlega látið skynsemina ráða, enda gæluverkefni þeirra á Miðnesheiði það langt komið að þeim fer að verða óhætt að taka erlent lán líklega til smáverkefnis eins og Egilsstaðaflugvallar úr því að búið er að taka öll erlendu lánin til flugstöðvarbyggingarinnar suður þar.