04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2735 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

316. mál, flugmálaáætlun

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það skal vera stutt. Aðeins fáein orð vegna þess fyrst sem hv. 9. þm. Reykv. sagði um járnbrautarsamgöngur. Ég held að við megum þakka guði fyrir að þær voru aldrei teknar upp hér vegna þess að þá hefðum við áreiðanlega vont járnbrautakerfi og enn þá verra vegakerfi en við höfum nú. Ég veit ekki um eitt einasta land í veröldinni þar sem járnbrautafyrirtæki eða járnbrautasamgöngur eru reknar með hagnaði. Þvert á móti eru þetta allt orðin ríkisfyrirtæki, meira að segja í Bandaríkjunum líka, sem eru rekin með bullandi tapi og gerð út á skattgreiðendur. Við megum prísa okkur sæla. Þó að Valtýr berðist fyrir þessu og stofnaði meira að segja tímaritið Eimreiðina, sem nú er reyndar liðið undir lok, megum við þakka fyrir það.

Það kemur ekkert á óvart að hinar hagsýnu húsmæður vilji loka Reykjavíkurflugvelli eða fulltrúar þeirra og flytja hann burt, en það láist eins og venjulega að tala um fjármálahliðina á dæminu. Því er sleppt. Það heyrir ekki hagsýninni til.

Öðru verð ég að lýsa furðu minni yfir, að hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sem hefur skemmt sér við það í fjölmiðlum að gefa samstarfsmönnum sínum einkunnir af sínu tagi, skuli leyfa sér að koma hér með málflutning af því tagi sem hún hafði um hönd áðan, þ.e. vitnaði til ágætrar ráðstefnu sem nokkrir þm. sóttu og fjallaði um mengun af ýmsu tagi, mengun frá efnaverksmiðjum og mörgu öðru, og að leyfa sér að nota það sem rök í umræðunum um Reykjavíkurflugvöll að hv. þm. sem hér stendur hafi skrifað undir samhljóða samþykkt þeirrar ráðstefnu sem hér um ræðir og jafna því við Reykjavíkurflugvöll. Að vísu fylgir nokkur mengun flugumferð alveg örugglega og áreiðanlega, en hún er hverfandi á móti ýmsu öðru. Það er hlálegt og raunar sorglegt að þm. sem er menntaður á vísindasviðum skuli leyfa sér að fara með slík rök og slíkan samanburð í ræðustól á Alþingi. Það hélt ég satt að segja að væri fyrir neðan virðingu þessa hv. þm., en nú veit ég að svo er ekki.