04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

316. mál, flugmálaáætlun

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Hv. 6. landsk. þm. spurði hvort framkvæmdir yrðu í sömu röð og áætlunarflugvöllum er stillt upp í 3. gr. frv. Það fylgir hér með uppstilling á framkvæmdum. Það fer ekki eftir í hvaða flokki viðkomandi flugvöllur er heldur er fyrst og fremst verið að byggja upp framkvæmdir og framkvæmdaröðina eftir því sem þörfin er mest og brýnust og ástand viðkomandi flugvalla.

Hins vegar er ráðherra skylt samkvæmt frv. að leggja skýrslu um framkvæmd flugmálaáætlunar fyrir hvert reglulegt Alþingi. Á þennan hátt er verið að tengja þessar framkvæmdir meira Alþingi en áður hefur verið. Að vissu leyti er rétt að það hefur verið árlega í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, en hér er vissulega brotið í blað og reynt að koma í veg fyrir að hægt sé að stýfa þessar tekjur. Því eru þessi gjöld orðin með þeim hætti.

Ég vil t.d. út af orðum hv. 4. þm. Vesturl. vekja athygli á því að skv. 5. gr. frv., um fjáröflun til framkvæmda, skal greiða sérstakt eldsneytisgjald af flugbensíni og þotueldsneyti sem selt er á íslenskum flugvöllum til innanlandsflugs og millilandaflugs. Gjald þetta nemur 1,30 kr. af hverjum lítra og 65 aur. af hverjum lítra þotueldsneytis. Með þessu er auðvitað verið að leggja skatt á ýmsa aðra svo að það má ekki túlka það svo, eins og mér fannst því miður koma fram hjá honum, að það væri verið að leggja þyngstu skattana á þá sem notuðu flugið mest innanlands. Með þessu er einmitt verið að létta sköttum af þeim, en hins vegar verða þeir að borga sömu skatta og aðrir sem fljúga til þessa staðar. Það er eiginlega tvennt sem ég tek á mig að hafa breytt frá því sem var í áliti flugmálanefndarinnar. Það er í 5. gr. að heimilt er að veita undanþágu frá greiðslu þessa gjalds vegna flugs á skemmri flugleiðum innan sama landsfjórðungs. Ég taldi það ósanngjarnt þegar maður fór að athuga þetta mál nánar að leggja slíkan skatt á t.d. farþega sem fljúga milli Ólafsfjarðar og Akureyrar, Þingeyrar og Ísafjarðar eða Egilsstaða og Neskaupstaðar svo að dæmi séu nefnd. Því var rétt að mínum dómi að hafa þessa heimild inni.

Það hafa orðið allmiklar umræður út af Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt tillögu nefndarinnar átti þetta gjald á hvern farþega að vera eyrnamerkt byggingu flugstöðvar í Reykjavík. Ég taldi rétt að breyta því líka. Þessar tekjur færu alfarið inn í þessa framkvæmdaáætlun. Hins vegar gæti ég flutt mjög langt mál um Reykjavíkurflugvöll. Vafalaust verður Reykjavíkurflugvöllur notaður á næstu árum og það er margt sem mælir með því. En við skulum ekki fullyrða að það verði ekki breytingar á gerðar innan nokkuð langs tíma. Um þetta hefur verið fjallað af öllum helstu aðilum í flugmálum. Við komumst aldrei hjá því, þó að við flytjum flugumferðina t.d. til Keflavíkur, að hafa einhvers staðar miðstöð flugafgreiðslu hér í Reykjavík. Hjá því verður aldrei komist. En ég minni á að ég er mjög flugvanur maður og ekki hef ég tölu á því í hve mörg hundruð skipti á lífsleiðinni ég hef komið á flugvöllinn í Reykjavík og þurft að keyra aftur til míns heima. Man ég eftir að sex daga í röð reyndi maður þetta og suma dagana tvisvar. Ég er hræddur um að þeir væru orðnir dálítið þreyttir sem hefðu ekið til Keflavíkur alla þessa daga. Það er auðvitað rétt sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. að á styttri flugleiðum getur þetta skipt sköpum. Þá fara menn að hugsa sig um. Hins vegar er í vissum tilfellum ákveðin umferð innanlands á milli Keflavíkur og t. d. Akureyrar og flogið hef ég á þeirri leið og það kemur vafalaust til fyrr að með stærri vélum verði þetta notað.

Hversu margar borgir eru það ekki sem við fljúgum yfir þegar við erum að fljúga til annarra landa? Við skulum taka nágrannaland okkar og það landið sem við eigum einna mest tengsl við, Danmörku. Þar eru alþjóðaflugvellir tveir. Annar er fyrir minni vélar í Roskilde. Ég hef lent líka á þeim velli. Þær hafa verið settar niður þar. Meira eða minna er nú flogið yfir þá borg þó hún sé minni en Reykjavík og vissulega er víða flogið yfir þéttbýli á þessum stöðum. En ég held að þó að umræður hafi orðið allmiklar um þetta atriði sé það ekki svo aðkallandi í þessu frv. og þessari framkvæmdaáætlun og sérstaklega ekki eftir þær breytingar sem ég gerði á frv. frá því sem flugmálanefndin lagði til.

En aðeins út af því sem hv. 5. landsk. þm. sagði varðandi skipun nefndarinnar. Eins og menn sjá þegar þeir líta yfir nefndarskipanina treysti ég mér ekki að fara eftir tilnefningu þingflokkanna og taka frá fimm þingflokkum í nefndina. Þetta er sex manna nefnd. Þarna eru fulltrúar Félags ísl. atvinnuflugmanna sem ég taldi mjög nauðsynlegt að hafa í nefndinni og sömuleiðis er þarna dr. Þorgeir Pálsson sem allir töldu vera mikla nauðsyn að fá í nefndina.

Ég var lengi að hugsa um það að mér fannst nokkuð langt gengið að vera eingöngu með menn af höfuðborgarsvæðinu og þá datt mér allt í einu í hug að spyrja hv. þm. Garðar Sigurðsson, af því að hann er nú frá Vestmannaeyjum og hafði verið í flugráði og áhugamaður um flugráð, hvort hann vildi ekki taka sæti í nefndinni til þess að fylgjast vel með því sem að landsbyggðinni sneri, en það var alveg laust við Alþb. eða stjórnmálaskoðun hans.

Að Birgir Ísl. Gunnarsson var gerður að formanni nefndarinnar var af því að hann á sæti í flugráði og hann var og er mjög kunnugur sögu og gangi þess starfs sem hefur verið unnið á Reykjavíkurflugvelli. Ég taldi það mikinn feng að fá hann til að verða formaður nefndarinnar sem hann var ekkert áfjáður í því að þessi vinna er ekki greidd eins og ætti að greiða. Það er allt of lítið sem er greitt fyrir hana. Sömuleiðis var þarna Andri Hrólfsson stöðvarstjóri hjá Flugleiðum og auk þess deildarstjóri í samgrn., Ragnhildur Hjaltadóttir. Nefndin var því ekki saman sett eftir stjórnmálaflokkum. Með nefndinni vann Pétur Einarsson flugmálastjóri sem vann mjög gott starf og sömuleiðis allir þeir starfsmenn Flugmálastjórnar og margir fleiri sem lögðu þarna hönd á plóginn.

Hins vegar fannst mér leitt hversu störf nefndarinnar drógust á langinn. Hún fór töluvert langt fram yfir þann tíma sem henni var settur, en við verðum að gæta að því að hér er um að ræða menn sem eru í öðrum störfum og sem ekki gátu alltaf farið í það þegar þeir vildu eða ég vildi og því dróst málið á þann veg.

En varðandi kynninguna finnst mér hv. 5. landsk. þm. ekki vera sanngjarn, að gagnrýna kynninguna, því að við héldum í ráðuneytinu fyrst blaðamannafund með allri nefndinni og fréttamönnum þar sem málið var kynnt. Það kom mjög ítarlega í blöðum. Allir fengu fyrstu drög að flugmálaáætluninni. Síðan boðaði deildarstjóri í samgrn., Birgir Guðjónsson, til ráðstefnu. Að hún var haldin á þessum tíma dags var fyrst og fremst vegna þess hversu margir flugáhugamenn utan af landi vildu sækja ráðstefnuna og sóttu hana. Þeir vildu gjarnan komast heim að kvöldi og eyða ekki nóttinni. Því miður var ekki hægt frekar en svo oft áður að hitta svo á tíma að öllum passaði, en ráðstefnan varð að mínum dómi mjög fjölmenn og það tóku þátt í henni allmargir alþm. Þar lá flugmálaáætlunin fyrir og allir gátu fengið hana. Það voru allir boðnir á flugmálaráðstefnuna og látið boð út ganga. Það er rétt hjá hv. 5. landsk. þm. að þingflokkunum mun ekki formlega hafa verið sent þetta og það mega kannske vera mistök, en ekki þurfti að sækja nál. eftir neinum krókaleiðum því að það var bæði mér og starfsmönnum samgrn. mikið kappsmál að sem allra flestir fengju að fjalla um þetta mál.

Hins vegar varð ég fyrir einum vonbrigðum af þessum kynningarfundi og þau vonbrigði mín voru að fulltrúar Flugleiða voru afskaplega óhressir yfir því að ætti að setja gjald á flugrekstrarstarfsemi. Það er eins og fyrri daginn. Þegar á að fara að borga reikninginn vill enginn borga. Það verður að hafa það. Þeir eru sennilega eins óánægðir núna og þá. En þeir verða að átta sig á því þeir ágætu menn og ágætu vinir mínir að hér er verið að vinna þarft verk sem sparar bæði þeirra félagi og öðrum í flugrekstri mjög mikið í rekstri og því verðum við að taka það á okkur.

Ég vil ekki fara í kapp út af þessum málum eða pólitískt karp. Það sem gerði að ekki var hægt að afgreiða till. um Egilsstaðaflugvöll við afgreiðslu fjárlaga var það að ég lagði á það áherslu að þetta plagg hérna, flugmálaáætlun og fjáröflun, færi saman þó að eðli málsins samkvæmt skuli flytja þáltill. í Sþ. en þetta mál í deildum. Það var ástæðan fyrir því að þetta dróst því að við vorum að skoða þetta eftir þennan upplýsingafund.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég þakka öllum þeim sem óafa talað hér og hafa lýst yfir stuðningi og áhuga sínum að koma þessu máli hér fram. Það þykir aldrei spennandi kosningamál að leggja til nokkrum vikum fyrir kosningar að nýir skattar séu lagðir á svo að það hlýtur þá að liggja eitthvað annað til grundvallar framlagningu þessa frv. en kapphlaup um vinsældir. En ég vona og veit að samgn. þessarar hv. deildar mun taka þetta mál til afgreiðslu eins fljótt og unnt er.